Svekkjandi tap gegn Haukum – Umfjöllun + Myndir!

Svekkjandi tap gegn Haukum – Umfjöllun + Myndir!

Í kvöld fór fram stórleikur FH-inga og Hauka í N1-deild karla í handbolta. Leikurinn fór fram í Kaplakrika og var í 11. umferð Íslandsmótsins. Fyrir leikinn sátu gestirnir í Haukum í 1. sæti deildarinnar með 16 stig en FH-ingar sátu í 2. sætinu með 13 stig. Það var því ljóst að gríðarlega mikið var í húfi, með sigri hefðu FH-ingar náð að minnka stigamuninn á liðunum í 1 stig en sigruðu Haukarnir næðu þeir 5 stiga forskoti á FH-inga. Ekki minnkaði gildi leiksins þegar horft var til þess hversu mikill rígur ríkir á milli félaganna tveggja og stuðningsmanna þeirra.

      
 Leikur liðanna í kvöld gaf hinum viðureignunum ekkert eftir

Fyrri hálfleikur
FH-ingar litu vel út í byrjun leiks og sýndu oft á köflum flotta takta, varnarlega og sóknarlega. Baráttan í leiknum var gríðarleg en FH-ingar höfðu þó alltaf frumkvæðið, varnarleikurinn small strax saman og Pálmar Pétursson fór hamförum í markinu. Sóknarleikur FH-inga var sæmilegur en gat þó verið betri. Ljóst er að varnarleikur Hauka, sem að var mjög sterkur, hefur ekki gert leikmönnum FH auðvelt fyrir en þó náðu FH-ingar oftast að finna leiðina að markinu. FH-ingar voru lengst af með 2-3 marka forskot en töpuðu því þó niður í eitt mark rétt fyrir hálfleik. Staðan í hálfleik var 13-12.

Seinni Hálfleikur
Í seinni hálfleik var allt í járnum. Lengst af voru FH-ingar með frumkvæðið, en alltaf náði lið Hauka að jafna. Á 38. mínútu náðu Haukarnir forystu í fyrsta sinn, 16-15, sem dugði þó skammt. FH-ingar náðu á ný forystunni í leiknum og var staðan þegar korter var eftir af leiknum 19-18, FH í vil.

  
 Bjarni Fritz í leik liðanna að Ásvöllum fyrr í vetur

Síðustu 10 mínútur leiksins voru gríðarlega spennandi. Haukar náðu 2ja marka forystu þegar 10 mínútur voru eftir, 21-19, og litu út fyrir að vera að ná yfirhöndinni í leiknum. En þá skoruðu FH-ingar 3 mörk í röð og komust yfir á nýjan leik, 22-21. Á þessum tímapunkti var þakið gjörsamlega að rifna af húsinu, stemningin beggja megin gríðarlega góð og voru stuðningsmenn liðanna duglegir að styðja sína menn.

En Haukarnir náðu enn á ný að jafna leikinn. Síðustu 7 mínútur leiksins skiptust liðin á því að vera yfir og þegar 1 mínúta var eftir að leiknum var staðan í leiknum jöfn, 24-24. FH-ingar náðu boltanum þegar u.þ.b. 50 sekúndur voru eftir af leiknum og hefðu getað skorað lokamark leiksins. En allt kom fyrir ekki, FH-ingar nýttu sókn sína illa og í kjölfarið kom u.þ.b. 30 sekúndna löng sókn Haukaliðsins, sem á endanum náði að setja boltann í netið. Haukar unnu því þennan gríðarlega spennandi slag, 25-24, og fóru því heim með 2 stig.

Leikurinn var sem áður sagði gríðarlega spennandi og gat hvort liðið sem er farið með sigur af hólmi. Þó hefðu FH-ingar átt að vinna leikinn miðað við frammistöðu sína lengst af og marktækifæri sem að liðið fékk en nýtti ekki. Svekkjandi tap gegn grannliði okkar, sem að hefur nú unnið allar viðureignir liðanna í vetur.

Það fer ekki á milli mála hver var maður leiksins hjá FH að þessu sinni. Pálmar Pétursson átti enn einn stórleikinn, varði 26 skot. Ásbjörn Friðriksson var markahæstur ásamt Bjarna Fritzsyni, þeir skoruðu 5 mörk. Stórskytta FH-liðsins, Ólafur Guðmundsson, átti ekki sinn besta leik í dag en hann skoraði 4 mörk.
                            
  
 Pálmar Pétursson – Vafalaust maður leiksins
<

Aðrar fréttir