Tap gegn HK í N1 deild karla

Tap gegn HK í N1 deild karla

FH-ingar töpuðu öðrum leik sínum í röð í deildinni í gær gegn HK í Digranesi 32-28. HK kom mjög ákveðið til leiks með útspil sem kom fáum á óvart, Aron Pálmarsson var tekinn úr umferð allan leikinn.

FH-ingar byrjuðu engu að síður nokkuð vel og með Magnús Sigmundsson sprækan í markinu náði FH að komast í 5-2. Þá fóru hlutirnir að falla með Kópavogspiltum sem um leið bættu varnarleik og markvörslu til muna.

Sóknarleikurinn gekk brösuglega framan af og lítið samspil í gangi, menn voru að drippla boltanum og reyna of mikið sjálfir og taka ótímabær skot í stað þess að spila hratt á milli manna til að opna glufur á HK-vörninni. Í hjarta varnar HK voru FH-ingurinn fyrrverandi Sigurgeir Árni Ægisson og Sverre Jakobsson úr silfurliði Ólympíuleikanna. Báðir eru þeir stórir og stæðilegir og ættu öllu jöfnu að vera hægari en ungu strákarnir í FH. Örn Ingi Bjarkason kom ferskur inn á og nýtti sér hraðann og skoraði 5 góð mörk í hálfleiknum.
Leikurinn var svo í nokkru jafnvægi fram að hálfleik en eftir 30 mínútur leiddi FH 15-14. Sú staða var fín fyrir Fimleikafélagið því eins og áður segir var sóknarleikur liðsins ekki eins góður og oft áður. Magnús Sigmundsson tók 10 bolta í rammanum og þeir Örn Ingi og Ólafur Guðmundsson skoruðu 5 mörk hvor í hálfleiknum.

Síðari hálfleikur byrjaði skelfilega, FH skoraði 1 mark á fyrstu 9 mínútunum og 3 mörk fyrsta korterið. Aðeins Ólafur Guðmundsson var með lífsmarki þessar fyrstu 15 mínútur en á þessum kafla lagði HK grunninn að sigrinum. Sóknarleikur liðsins var tilviljanakenndur og þegar sett var upp í leikkerfi gengu þau ekki sem skyldi.

Þá var eins og menn yrðu smeykir og leikmenn gerðu sig seka um sendingamistök sem HK nýtti sér óspart og raðaði inn mörkum úr hraðaupphlaupum.

Þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum átti FH þess kost í tvígang að minnka muninn í 2 mörk sem hefði hugsanlega blásið þeim eldmóð í brjóst en Björn Ingi í marki HK varði vel auk þess sem skot okkar rataði í markstöngina.

Niðurstaðan því tap, 32-28, og FH-liðið því enn með 10 stig í deildinni, nokkuð sem spekúlantar út í bæ áttu kannski ekki von á.

Þegar litið er á frammistöðu einstakra leikmanna ber Ólafur Guðmundsson höfuð og herðar yfir aðra, drengurinn skoraði 13 mörk í öllum regnbogans litum og spilaði auk þess vörnina á fullu gasi allan leikinn. Frábær leikmaður þar á ferð sem á stóran þátt í velgengni FH-inga í vetur. Örn Ingi spilaði vel í fyrri hálfleik en náði því miður ekki að fylgja því eftir í þeim síðari. Magnús Sigmundsson stóð sig vel í markinu þann tíma sem hann var inn á og tók 13 bolta í það heila og Daníel Andrésson tók 5 bolta. Ásbjörn Friðriksson skoraði 3 mörk í síðari hálfleik og hefði mátt vera áræðnari því þar er á ferðinni góður leikmaður.
Guðmundur Pedersen vill sjálfsagt gleyma þessum leik sem fyrst þar sem hann fann sig engan veginn. Hægri hornamenn liðsins voru mjög rólegir í tíðinni og tóku ekki eitt einasta skot í leiknum.

Nú þurfa drengirnir að berja sig saman fyrir næsta leik gegn Víkingum en þeir eru sýnd veiði en ekki gefin þó að þeir séu á botni deildarinnar með 1 stig.

Mörk/skot:
Ólafur Guðmundsson 13/19
Örn Ingi Bjarkason 5/10
Aron Pálmarsson 4/9
Ásbjörn Friðriksson 3/5
Sigurður Ágústsson 2/2
Guðmundur Pedersen 1/7
Þorkell Magnússon 0/2

Varin skot:
Magnús Sigmundsson 13
Daníel Andrésson 5

Aðrar fréttir