
Tap gegn HK í N1 deild karla
FH-ingar byrjuðu engu að síður nokkuð vel og með Magnús Sigmundsson sprækan í markinu náði FH að komast í 5-2. Þá fóru hlutirnir að falla með Kópavogspiltum sem um leið bættu varnarleik og markvörslu til muna.
Sóknarleikurinn gekk brösuglega framan af og lítið samspil í gangi, menn voru að drippla boltanum og reyna of mikið sjálfir og taka ótímabær skot í stað þess að spila hratt á milli manna til að opna glufur á HK-vörninni. Í hjarta varnar HK voru FH-ingurinn fyrrverandi Sigurgeir Árni Ægisson og Sverre Jakobsson úr silfurliði Ólympíuleikanna. Báðir eru þeir stórir og stæðilegir og ættu öllu jöfnu að vera hægari en ungu strákarnir í FH. Örn Ingi Bjarkason kom ferskur inn á og nýtti sér hraðann og skoraði 5 góð mörk í hálfleiknum.
Leikurinn var svo í nokkru jafnvægi fram að hálfleik en eftir 30 mínútur leiddi FH 15-14. Sú staða var fín fyrir Fimleikafélagið því eins og áður segir var sóknarleikur liðsins ekki eins góður og oft áður. Magnús Sigmundsson tók 10 bolta í rammanum og þeir Örn Ingi og Ólafur Guðmundsson skoruðu 5 mörk hvor í hálfleiknum.
Þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum átti FH þess kost í tvígang að minnka muninn í 2 mörk sem hefði hugsanlega blásið þeim eldmóð í brjóst en Björn Ingi í marki HK varði vel auk þess sem skot okkar rataði í markstöngina.
Niðurstaðan því tap, 32-28, og FH-liðið því enn með 10 stig í deildinni, nokkuð sem spekúlantar út í bæ áttu kannski ekki von á.
Guðmundur Pedersen vill sjálfsagt gleyma þessum leik sem fyrst þar sem hann fann sig engan veginn. Hægri hornamenn liðsins voru mjög rólegir í tíðinni og tóku ekki eitt einasta skot í leiknum.
Nú þurfa drengirnir að berja sig saman fyrir næsta leik gegn Víkingum en þeir eru sýnd veiði en ekki gefin þó að þeir séu á botni deildarinnar með 1 stig.
Mörk/skot:
Ólafur Guðmundsson 13/19
Örn Ingi Bjarkason 5/10
Aron Pálmarsson 4/9
Ásbjörn Friðriksson 3/5
Sigurður Ágústsson 2/2
Guðmundur Pedersen 1/7
Þorkell Magnússon 0/2
Varin skot:
Magnús Sigmundsson 13
Daníel Andrésson 5
Aðrar fréttir
Komdu á póstlistann!
Skráðu þig á póstlistann okkar, þannig að þú missir ekki af viðburðum, tilboðum og skemmtilegum póstum.