Tap gegn Nordsjælland í hörkuleik

Tap gegn Nordsjælland í hörkuleik

  VS

FH léku sinn annan leik á 100 ára afmælismóti Hafnarfjarðar í kvöld, en mótið er haldið í Íþróttahúsinu við Strandgötu. Eftir góðan sigur gegn Val í gær var komið að leik gegn danska liðinu Nordsjælland, sem töpuðu gegn Haukum í sínum fyrsta leik í gær og ætluðu sér því að gera betur í dag.

Fyrri hálfleikur

Leikurinn í kvöld fór rólega af stað og liðin skiptust á um að hafa forystu. Danirnir byrjuðu í 6-0 vörn sem okkur tókst ágætlega að leysa með þá Óla Guðmunds og Aron í fararbroddi. Hinumegin voru það þó ekki Danirnir sem voru okkur erfiðir, heldur Íslendingurinn Gísli Kristjánsson sem virtist grípa allt sem kom nálægt honum á línunni. Danirnir gerðu í því að dæla boltanum inn á hann og Gísli nýtti sín færi vel, ásamt því að fiska nokkur vítaköst. Staðan í hálfleik var 14-12, FH í vil.

Seinni hálfleikur

Seinni hálfleikurinn var okkar mönnum erfiður. Danirnir breyttu um vörn, fóru að sækja langt út í skytturnar og miðjumanninn og áttum við í erfiðleikum með að leysa það almennilega. Á meðan gengu Danirnir á lagið í sókninni með Gísla fremstan í flokki inni á línunni og náðu upp nokkurra marka forystu. Um miðjan síðari hálfleikinn var farin að læðast þreyta í okkar menn sem áttu erfitt með að koma sér í færi i sóknarleiknum og þegar upp var staðið var niðurstaðan fjögurra marka sigur Nordsjælland, 29-25.

Á heildina litið var þetta fínn leikur hjá strákunum. Sóknarleikurinn gekk vel framan af en hikstaði aðeins þegar Danirnir fóru að mæta okkur mjög framarlega. Vörnin hélt ágætlega út leikinn en þó fékk títtnefndur Gísli fullmikið að leika lausum hala inni á línunni. Í markinu stóðu Danni og Maggi vaktina vel og voru með í kringum 18 bolta samtals.

Mörk skoruðu (mörk/skot) Varðir boltar (skot/mörk á sig):
Aron Pálmarsson 6/14
Guðmundur Pedersen 5/6
Sigurður Ágústsson 5/7
Ólafur Guðmundsson 4/8
Ari Þorgeirsson 2/4
Ásbjörn Friðriksson 2/4
Jón Helgi Jónsson 1/1

Að lokum má geta þess að annar helmingur dómaraparsins í kvöld var ekki af verri endanum,  því þar var mættur enginn annar en hornasnillingurinn og vítakastsfrömuðurinn Jón Karl Björnsson. Jón Karl lagði sem kunnugt er skóna á hilluna víðfrægu í vor en ákvað í staðinn að taka upp flautuna. Að mati greinarhöfunds átti Jón Karl góðan leik og sýndi feikilega góða takta á flautunni á köflum. Þetta er klárlega eitthvað sem fleiri reynsluboltar mættu taka sér til fyrirmyndar enda er alltaf skortur á góðum dómurum. Sómi að þessu.

Þriðji og síðasti leikur FH á mótinu er síðan á morgun, en það er stórslagur gegn Haukum og hefst leikurinn kl.16.00. Ef Valur vinna síðan Nordsjælland í fyrri leiknum á morgun kl. 14.00, þá verður leikur FH og Hauka vænatnlega hreinn úrslitaleikur um fyrsta sætið í mótinu. Betra verður það varla og því er um að gera fyrir alla FH-inga, stóra sem smáa, að fjölmenna í Strandgötuna á morgun og horfa á handbolta í hæsta gæðaflokki.

Áfram FH!

Aðrar fréttir