Tap gegn Selfossi

Tap gegn Selfossi

Fyrsta tap tímabilsins
leit dagsins ljós á föstudaginn hjá meistaraflokki karla, en þá báru Selfyssingar
sigurorð af okkar mönnum, 42-32, á Selfossi. Eins og tölurnar gefa til kynna
var leikurinn hreint út sagt skelfilegur og sáum við einfaldlega aldrei til sólar
gegn mjög spræku Selfossliði. Það sást strax á fyrstu mínútunum í hvað stefndi því
heimamenn röðuðu á okkur mörkum og voru komnir með 7 marka forystu um miðjan
fyrri hálfleikinn. Mikið af sendingafeilum og töpuðum boltum einkenndu okkar
leik og Selfyssingarnir gengu á lagið og sölluðu inn mörkum í bakið á okkur.
Staðan í hálfleik var 21-13, Selfossi í vil og fátt sem benti til þess að við
næðum að klóra í bakkann.

 

Eitthvað hefur þó
hálfleiksræðan hjá þjálfarateyminu farið vel í menn, því okkur tókst að saxa
niður forskotið jafnt og þétt. Selfyssingarnir voru farnir að slaka á bensíngjöfinni
og á tímabili var munurinn kominn niður í 3 mörk og enn nóg eftir af leiknum. Þá
einfaldlega gáfu heimamenn í aftur og við náðum með engu móti að stöðva þá og
leikurinn endaði því eins og fyrr segir, 42-32 fyrir Selfyssingum.

 

Fyrsta tap
vetrarins er því staðreynd og það af dýrari gerðinni. Menn voru engan veginn
tilbúnir í þau átök sem til þarf gegn liði eins og Selfossi og hreinlega væri
hægt að lýsa þessu sem kæruleysi. Vissulega erum við búnir að tryggja okkur
1.sætið og miða í úrvalsdeild að ári, en það þýðir að sjálfsögðu ekki að mótið
sé búið fyrir okkur. Eftir þennan skell gegn Selfossi eru tveir leikir eftir, heimaleikur
gegn Gróttu n.k. föstudag og svo útileikur gegn ÍR, 2. maí. Það kemur ekkert
annað til greina af okkar hálfu en að fara á fullu í þessa tvo leiki og klára tímabilið
með sóma. Leikurinn gegn Gróttu er síðasti heimaleikurinn hjá okkur og hvetjum
við fólk endilega til að mæta á völlinn og styðja við bakið á okkur.

Heiðar Arnarsson, pistlahöfundur og stórskríbent með meiru var fjarri góðu gamni að þessu sinni, en hann ætti að vera klár í slaginn að nýju í næstu viku.

Árni Stefán Guðjónsson

Leiðrétting: Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var undirritaður búinn að sannfæra sig um að þetta hafi verið fyrsta tap okkar í vetur. Hið rétta er þó að Víkingar báru sigurorð af okkur 25. janúar sl. í Víkinni með minnsta mun, 33-32. Þrátt fyrir að leikurinn hafi “næstum því” endað með jafntefli, er það víst ekki nóg. Beðist er velvirðingar á þessari villu! 🙂

Aðrar fréttir