Tap í háspennuleik

Tap í háspennuleik

N1 deildin, fimmtudagurinn 19. febrúar 2009, kl 19:30


FH tapaði í gær
fyrir HK í þriðja sinn í vetur. Lokatölur urðu 25-23 fyrir HK en staðan var
13-9 heimamönnum í vil í hálfleik. HK hafði yfirhöndina lengst af í leiknum en
FH gafst aldrei upp og komst yfir þegar lítið var eftir af leiknum. HK hafði
þetta þó á seiglunni í lokin.

Fyrri hálfleikur

FH var að elta HK í raun alveg frá byrjun. Varnarleikurinn var hriplekur
fyrsta korterið og markvarslan var í raun engin. Sóknarleikurinn var ögn skárri
en oft fálmkenndur og passívur og menn nýttu illa færin sem þeir fengu, skutu
ansi oft í markvörð HK manna. HK komst í 5-3, fóru síðan í 8-5 og staðan var
11-6 eftir 20 mínútur. Í þeirri stöðu kom ekki mark í heilar 5 mínútur þar sem
bæði lið léku slakan sóknarleik. HK leiddi síðan í hálfleik 13-9.

Seinni hálfleikur

HK hélt áfram að leiða leikinn með þetta 3-4 mörkum í seinni hálfleik.
FHingar héldu þó þolinmæði og varnarleikurinn fór að hrökkva í gang ásamt því
að markvarslan skánaði til muna. FH átti síðan mjög góðan leikkafla um miðjan
seinni hálfleik og fór úr því að vera undir 17-13 í að jafna 19-19. FH komst
svo yfir í fyrsta sinn í leiknum 20-21 þegar um 7 mínútur voru eftir. Þegar hér
var komið við sögu var allt vitlaust á pöllunum og frábærir FH áhorfendur var
sannarlega áttundi maður FHinga á vellinum. HK jafnaði og FH fór síðan illa að
ráði sínu í næstu sókn. HK skoraði úr hraðaupphlaupi. Leikurinn var síðan í járnum
og þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum var staðan 23-23. FH liðið vann
boltann og átti möguleika á að skora úr hraðaupphlaupi en menn fóru illa að ráði
sínu. Í staðinn setti HK mark í næstu sókn, 24-23. FH átti ótímabært skot í
næstu sókn og HK átti síðasta orðið, lokastaða 25-23.


Niðurstaða

Því miður lenti
sigurinn HK megin í kvöld. Allt gat gerst á lokasprettinum og með örlítilli
heppni og aðeins meiri skynsemi hefði sigurinn getað orðið okkar. Hundfúlt auðvitað
að ná ekki stigi af HK mönnum í vetur og því miður höfðum við ekki svör við
þeirra leik þetta tímabil. Það er samt nóg eftir af móti og allt stefnir í tvísýna
baráttu um 4. sætið. FH hafði enn og aftur sætaskipti við Fram sem sigraði
Stjörnuna á sama tíma.

Bjarni Fritz var
okkar besti maður

Aðrar fréttir