Tap og FH í jólafrí

Tap og FH í jólafrí

    

29-20

N1 deildin, fimmtudagurinn 11.desember 2008, 19:30

FH lagði leið sína í Vodafone höllina á fimmtudagskvöldið. Eftir mjög góða byrjun hallaði verulega undan fæti hjá strákunum og áttu þeir fá svör við varnarleik Valsmanna í seinni hálfleik. Lokatölur urðu 29-20 fyrir Val eftir að hafa staðan hafi verið 12-11 í hálfleik fyrir Hlíðarenda-liðinu.

Fyrri hálfleikur

FH byrjaði mjög vel eins og áður sagði. Liðið komst í 2-6 og leikur þess var skynsamur og yfirvegaður í sókn sem vörn þó svo að Valsmenn kæmu, öllum að óvörum, framar á móti Aroni og Ólafi Guðmunds. Línumenn okkar Siggi og Jónatan voru hreyfanlegir og útispilarar sendu óspart á þá sem gaf mörg mörk. Fljótlega í fyrri hálfleik breyttist leikurinn. Fréttaritari fh.is hefur haft það sem reglu að fjalla ekki um frammistöðu dómara í pistlum sínum en nú verður ekki hjá því komist. Hver furðudómurinn rak annan í fyrri hálfleik sem klárlega höfðu áhrif á leik okkar. Klárlega hallaði á FH liðið, auk þess sem menn pirruðust upp og liðið missti dampinn.  Valsmenn gengu á lagið og jöfnuðu í 10-10 og voru síðan 12-11 yfir í hálfleik.


Seinni hálfleikur

Það var þó engan veginn dómurum leiksins að kenna að FH liðið kom hálf slegið til seinni hálfleiks og Valsliðið komst í 17-14. Hver byrjendamistökin ráku annað og oft á tíðum kastaði liðið boltanum frá sér og Valsmenn skoruðu nokkurn fjölda af mörkum úr hraðaupphlaupum. Valur náði síðan 24-18 forystu og allur vindur virtist úr FH liðinu og var enginn leikmaður undanskildinn. Þetta var ekki dagur okkar FHinga og lokatölur urðu síðan 29-20.

Niðurstaðan

Niðurstaðan er heldur súr. Eldmóðurinn sem við höfum séð í liðinu í allan vetur virtist fjara út síðasta korterið og því miður var Valsliðið of stór biti í þetta skiptið. Lykilleikmenn fundu sig ekki og liðið virtist sakna Ásbjarnar í þessum leik en hann tók út leikbann í þetta skiptið. Fyrir vikið missir FH liðið naumlega af þáttöku í deildarbikarkeppninni sem leikin verður á milli jóla og nýárs. En þessum leik er lokið, það er nóg eftir af móti og árangur liðsins hingað til prýðilegur. FH fer því tiltölulega sátt í jólafrí og mun nýta það til frekari æfinga og styrkingar fyrir komandi átök á nýju ári.

 

Mörk FH:

Jónatan Jónsson 4

Aron Pálmarsson 4

Guðmundur Pedersen 3

Sigurður Ágústsson 3

Örn Ingi Bjarkason 2

Aðrar fréttir