Taphrinu FH-inga lokið eftir sigur gegn Val – Umfjöllun

Taphrinu FH-inga lokið eftir sigur gegn Val – Umfjöllun

Fyrr í dag mættust FH-ingar og Valsmenn í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda, heimavelli þeirra Valsmanna. Fyrirfram mátti búast við erfiðum leik, en heimamenn voru fyrir leikinn stigalausir á botni deildarinnar og mátti því búast við þeim baráttuglöðum gegn FH-ingum, sem höfðu fyrir leikinn tapað tveimur leikjum í röð.


Logi Geirs sneri aftur í dag eftir meiðsli

Valsmenn hófu leikinn af krafti og virkuðu ákveðnir í því að hirða sín fyrstu stig. Þeir skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og leiddu leikinn fyrstu 16 mínútur leiksins, en í stöðunni gáfu FH-ingar í – skoruðu 4 mörk í röð og breyttu stöðunni í 7-9.

Á síðustu 15 mínútum leiksins voru liðin tvö hnífjöfn, FH-ingar náðu eins marks forystu reglulega en alltaf náðu Valsmenn að jafna. Jafnt var á öllum tölum þangað til í lokin, en þá náðu FH-ingar 2ja marka forskoti og héldu því í hálfleik – staðan var 13-15 í hálfleik, FH í vil.

Í fyrri hálfleik var Ólafur Guðmundsson markahæstur FH-inga, en hann skoraði 4 mörk og virkaði nokkuð ferskur. Ólafur Gústafsson og Ásbjörn Friðriksson skoruðu 3 mörk hvor, Brynjar Geirsson og Ari Magnús Þorgeirsson skoruðu 2 mörk en Sigurgeir Árni Ægisson skoraði eitt mark. Í markinu varði Pálmar Pétursson 3 skot og Daníel Andrésson sömuleiðis.


Ólafur var markahæstur í dag

Seinni hálfleikurinn hófst á ánægjulegan hátt fyrir FH-inga. Anton Rúnarsson, leikmaður Vals, hafði látið reka sig út af stuttu fyrir lok fyrri hálfleiks og hefðu Valsmenn því átt að hefja seinni hálfleik einum manni færri. Þeir hófu hins vegar hálfleikinn fullskipaðir, en dómarinn tók eftir því og rak einn Valsmann út af til viðbótar. Þeir voru því fimm talsins í byrjun.

FH-ingar nýttu sér liðsmunninn vel og juku muninn í 4 mörk stuttu eftir að leikurinn hófst á nýjan leik. Eftir það var ekki aftur snúið, FH-ingar létu forystuna aldrei af hendi (voru mest með 6 marka forskot) og unnu að lokum öruggan 4ra marka sigur, 30-26.

FH-ingar léku mun betur í dag heldur en í síðustu tveimur leikjum. Varnarleikur liðsins var sterkur og innkoma Loga Geirssonar hafði greinilega góð áhrif á sóknarleikinn, hann dreifði spilinu vel og reyndist svo drjúgur í markaskorun í lokin – skoraði 4 mörk, þar af tvö úr undirhandarskotum. Hér er þó klárlega um sigur liðsheildarinnar að ræða, strákarnir börðust vel fyrir hvorn annan og héldu rónni þótt leikurinn hafi byrjað erfiðlega. Flottur sigur hjá okkar mönnum!

Markahæstur í dag var Ólafur Guðmundsson, en hann skoraði 7 mörk. Næstmarkahæstur var Ásbjörn Friðriksson með 5 mörk og Logi Geirsson skoraði 4 mörk. Pálmar Pétursson varði 3 skot í markinu en Daníel Andrésson varði 12 skot.

Næsti leikur liðsins er í bikarnum gegn Gróttu úti á Seltjarnarnesi á þriðjudaginn næsta, þann 16. nóvember. Meira um þann leik síðar.

Við erum FH!

Mörk FH: Ólafur Andrés Guðmundsson 7, Ásbjörn Friðriksson 5, Logi Eldon Geirsson 4, Ólafur Gústafsson 3, Ari Magnús Þorgeirsson 3, Atli Rúnar Steinþórsson 3, Brynjar Eldon Geirsson 2, Sigurgeir Árni Ægisson 2, Sverrir Garðarsson 1.

Aðrar fréttir