Þægilegur sigur skilaði stelpunum á toppinn

Stelpurnar okkar tylltu sér á topp Grill 66 deildarinnar í gærkvöldi, er þær báru sigurorð af liði Stjörnunnar U í Garðabæ.

Leiknum lauk með 12 marka sigri FH-liðsins, 15-27 (7-14), og var sá munur síst of stór. Stelpurnar voru ekki lengi að taka völdin í leiknum, og að fyrstu 5 mínútnum undanskildum voru þær með frumkvæðið.

Gæðamunurinn var bersýnilegur lengst af. Uppstilltur sóknarleikur FH-liðsins flaut fallega á meðan að lið Stjörnunnar átti í vandræðum á hinum enda vallarins með sterka vörn FH-liðsins. Að þessu sinni vantaði hina firnasterku Britney Cots í miðja vörn FH-liðsins, þar sem hún var frá vegna meiðsla, en í hennar stað kom Hildur Guðjónsdóttir – og sú var lítið í því að gefa afslætti.

Allt útlit var fyrir það, eftir um það bil 10 mínútna leik í síðari hálfleik, að FH-liðið myndi gjörsamlega valta yfir Stjörnuna. Við vorum að fá vörslur, vörnin gekk vel og við náðum trekk í trekk að finna opnanir á vörn Stjörnunnar. Þegar munurinn var orðinn 13 mörk, 10-23, byrjuðu Stjörnustelpur hins vegar að klóra í bakkann. Þær skoruðu 4 mörk í röð áður en Roland Eradze fékk nóg, og tók leikhlé. Það reyndist áhrifaríkt, því aftur gáfu FH-stelpur í eftir það, og unnu síðustu 8 mínútur leiksins 4-1. Þar við sat, lokatölur 15-27 FH í vil.

Fanney Þóra var meðal markahæstu leikmanna FH-liðsins í gær, en hún skoraði 5 mörk / Mynd: Brynja T.

Það var gaman að sjá, hversu jafnt markaskorið dreifðist á FH-liðið í gærkvöldi. Þrjár enduðu markahæstar með 5 mörk – þær Fanney Þóra Þórsdóttir, Ragnheiður Tómasdóttir og Sylvía Björt Blöndal – og aðrar þrjár skoruðu þrjú mörk hver. Við fengum góðar vörslur frá báðum markvörðum okkar, og vörnin var allt í allt þétt. Munurinn var síst of stór í lokin, eins og áður sagði, en góð frammistaða markvarða Stjörnunnar kom í veg fyrir það að hann yrði 15-20 mörk. Þær reyndust drjúgar og vörðu oft úr dauðafærum, er FH-stelpur voru að gera sig líklegar til að auka muninn enn frekar.

Heilsteypt frammistaða FH-liðsins í síðustu þremur leikjum, hvar þær hafa unnið þrjá sigra, gefur sannarlega ástæðu til bjartsýni fyrir sannkölluðum toppslag sem fer fram næstkomandi föstudag. Þá kemur í heimsókn lið Fylkis, sem enn er ósigrað á tímabilinu og er með jafnmörg stig og okkar stelpur í 2. sæti deildarinnar. Nánar um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 5, Ragnheiður Tómasdóttir 5, Sylvía Björt Blöndal 5, Aníta Theodórsdóttir 3, Diljá Sigurðardóttir 3, Embla Jónsdóttir 3, Hildur Guðjónsdóttir 2, Hanna Jóna Sigurjónsdóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsdóttir 14, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 4.

Aðrar fréttir