Þetta er bara rétt að byrja!

Eftir framlengdan háspennuleik á Selfossi færist undanúrslitaeinvígið í Krikann. Í gærkvöldi máttu strákarnir okkar sætta sig við súrt tap, 36-34, eftir að hafa leitt lengst af í leiknum. Súrt, svekkjandi, já já. Gleymum því. Þetta er bara rétt að byrja.

Í 50 mínútur vorum við með þá. Þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir að njóta ekki krafta Gísla Þorgeirs lengur en í 22 mínútur, þegar hann var sendur í sturtu af slökum dómurum leiksins. Þrátt fyrir línuna sem þeir lögðu, sem færði Selfyssingum meira svigrúm heldur en okkar mönnum. Í lokin var það farið að segja til sín, mótlætið sem FH-liðið mætti á Selfossi. Fjölmiðlamenn og aðrir halda varla vatni yfir þeirri baráttu sem Selfyssingar sýndu, og verður hún ekki tekin af þeim – en það hjálpar alveg til, þegar vafaatriðin falla þér ávallt í hag.

Það má ekki gleymast, að FH-ingar höfðu fram að þessu sýnt mikið baráttuþrek. Þeir þjöppuðu sér saman eftir brottrekstur Gísla Þorgeirs – sem hefði auðvitað ekki sakað, að hafa í okkar liði allar 60 mínúturnar. Jóhann Birgir kom inn í hans stað og stóð sig afar vel, þrátt fyrir að vera ekki alveg heill af meiðslum. Ásbjörn átti einnig virkilega sterkan alhliða leik, og þá var Óðinn frábær með 11 mörk á sínu nafni. Mest náðum við 6 marka forskoti um miðjan síðari hálfleik, en þá fór að halla undan fæti. Menn voru hreinlega orðnir þreyttir, og Selfyssingar gengu á lagið. Að lokum sigldu þeir heim tveggja marka sigri eftir framlengingu, 36-34. 1-0 Selfoss.

Uppskriftin verður önnur á laugardaginn. Sannið þið til.

Strákarnir verða klárir. Þeir vita upp á hár, að þeir hefðu átt að klára leikinn í gær. Ef allt hefði verið eðlilegt, hefði það verið raunin. En það er búið og gert, Selfyssingar gátu fagnað í gær fyrir framan fullan (lítinn) kofa. Nú er komið að okkur.

Vendipunkturinn er þarna. Ef sigur vinnst á laugardag, förum við á Selfoss með blóð á tönnunum. Þá er voðinn vís fyrir hvaða andstæðing sem er.

Við þurfum, sem félag, að taka ákvörðun. Ætlum við okkur lengra? Ef svo er, þá mætum við ÖLL SEM EITT í Mekka á laugardag. Höldum félagsmerkinu hátt á lofti. Málum pallana með hafsjó af hvítum treyjum. Það mætir enginn í okkar hús og hirðir eitt né neitt. Frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu verður það morgunljóst.

Með okkar stuðningi tvíeflast strákarnir. Með okkar þrýstingi falla fleiri vafaatriði okkur í hag. Ef við berjumst við hlið strákanna okkar þá munum við bera sigur úr býtum. Aldrei efast um það. Keyrum þetta í gang.

Við erum FH!

 

 

 

 

 

Aðrar fréttir