Þjálfaraskipti í meistaflokki kvenna

Þjálfaraskipti í meistaflokki kvenna

Breytingar verða í þjálfaraliði mfl. kv. í fótbolta á komandi tímabili. Kvennaráð og Jón Þór Brandsson, sem verið hefur þjálfari liðsins síðastliðin 3 ár, hafa komist að samkomulagi um að Jón hætti þjálfun liðsins. Við þjálfun liðsins tekur Helena Ólafsdóttir fráfarandi þjálfari Selfoss.

Á undanförnum árum hefur lið FH verið í mikilli sókn og fjöldi efnilegra leikmanna komið fram. Jafnfram hefur umgjörð og aðbúnaður liðsins batnað og er í dag eins og best verður á kosið. Þeirri þróun hefur Jón Þór stýrt í samvinnu við kvennaráð, samhliða því að þjálfa liðið.

Sem fyrr segir tekur Helena Ólafsdóttir við þjálfun liðsins til næstu tveggja ára. Helena er knattspyrnuáhugamönnum að góðu kunn en hún hefur náð góðum árangri sem þjálfari KR og A landsliðs kvenna. Það dylst engum að Helena er reynslumikill þjálfari og eru miklar væntingar gerðar til hennar starfa.

Stjórn kvennaráðs þakkar Jóni Þóri fyrir óeigingjarnt starf í þágu deildarinnar og óskar honum alls hins besta. Jafnframt er Helena boðin velkomin til starfa í Krikanum. Þrátt fyrir bakslag á liðnu tímabili eru markmið FH skýr. Að komast á ný í deild þeirra bestu og festa sig þar í sessi sem topplið.

Næstkomandi mánudag hefur verið boðað til fundar kl. 20:00 í Krikanum þar sem Helena verður formlega kynnt sem þjálfari FH sem og farið yfir markmið næsta árs.

Aðrar fréttir