Topp-4 og sigur á Haukum

Topp-4 og sigur á Haukum



Ásdís
Sigurðardóttir gekk til liðs við FH frá Stjörnunni á liðnu ári en hún er ekki
ókunnug aðstæðum í Krikanum því hún hefur áður leikið með liðinu við góðan
orðstír. Gengi liðsins í vetur hefur verið ágætt og eru stelpurnar búnar að
koma sér í góða stöðu upp á að tryggja sér eitt af fjórum efstu sætum
deildarinnar sem gefur sæti í úrslitakeppninni í vor. Fyrsta verkefnið á nýju
ári í átt að úrslitakeppninni er leikur í dag við Fram. FH.is tók púlsinn á
Ásdísi fyrir leikinn en hún er búin að kortleggja hvað þarf til að vinna sigur
á Fram. Þá lofar hún einnig sigri á Haukastelpum þann 24. janúar.

Hvernig er stemmningin með að vera komin aftur í
FH?

Það er mjög gaman
að vera komin aftur, stelpurnar eru alveg frábærar og það er mjög gaman á
æfingum.

 

Hver er munurinn á liðinu nú og síðast?

Það er miklu
meiri breidd, hver sem er getur komið inn á og mér finnst liðið vera meiri
heild.

 

Er ekki stefnan sett á úrslitakeppnina í vor?

Við ætlum
klárlega að vera í topp fjórum og fá að spila skemmtilega úrslitaleiki. Svo
langar okkur auðvitað alla leið í höllina í febrúar.

 

Sigurinn á Val fyrir jól hlýtur að hafa virkað sem
vítamínsprauta á liðið?

Já, þar náðum við
loksins að sýna hvað við getum og á svona degi hefðum við unnið hvaða lið sem er.
Við þurfum að ná meiri stöðugleika í leikina og ef það tekst er mjög bjart
framundan hjá okkur.

 

Hvenær ætlið þið svo að fylgja fordæmi strákanna
og leggja stelpurnar frá Ásvöllum?

Það gerist
24.janúar!!!

 

Eruð þið sáttar með mætingu á leiki liðsins í vetur?

Já, það held ég
bara. Það var til dæmis mjög góð mæting á FH-Haukar.

 

Hvernig fer leikurinn gegn Fram?

Ef við mætum
einbeittar í leikinn, spilum góða vörn og fáum nokkur auðveld mörk úr
hraðaupphlaupum þá er ég viss um að við náum góðum úrslitum.

 

Þá er það
ákveðið, góð vörn, hraðaupphlaupsmörk og sigur er góð uppskrift fyrir
laugardagseftirmiðdegi svo það er um að gera að leggja leið sína í Krikann.

 

Áfram FH!

Aðrar fréttir