Tvö stór stig í slagnum um umspilssæti

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að allir leikmenn FH og Gróttu gerðu sér grein fyrir mikilvægi leiks gærkvöldsins. FH gat komið sér átta stigum frá Gróttu með sigri en Grótta gat minnkað stigabilið í umspilssæti í fjögur. Keyrslan á liðunum fram og til baka var mikil og hröð í afar jöfnum fyrri hálfleik.

Grótta var skrefinu á undan fyrsta korterið en FH svaraði þó hverju marki með marki. Eftir korter stálu FH-ingar boltanum og Britney fiskaði víti sem Fanney skoraði úr. FH-liðið komið yfir og eftir nokkrar góðar markvörslur frá Hrafnhildi Önnu tókst þeim að komast í tveggja marka forskot fyrir leikhlé. 16-14 í hálfleik.

FH liðið náði 3-1 kafla á fyrstu mínútum seinni hálfleiks og virtist ætla að síga fram úr hægt og rólega. Stelpurnar af Seltjarnarnesi lögðu þó ekki árar í bát og minnkuðu muninn í eitt mark. Í stöðunni 21-20 var FH-liðið einum færri og Grótta fékk dauðafæri til að jafna leikinn. Hrafnhildur Anna varði þá glæsilega, og skellti svo í lás… næstu 10 mínúturnar! Varið víti, gripinn bolti, bara nefndu það.

Fyrirliðinn fór fyrir FH-liðinu í kvöld. 10 mörk skoraði Ragga í heildina! / Mynd: Brynja T.

FH-liðið nýtti sér markaleysi Gróttu til að koma sér í sex marka forystu og enduðu svo leikinn á 27:23 sigri. 10 af mörkum FH-liðsins komu frá Ragnheiði Tómasdóttur sem var með 100% nýtingu í vinstra horninu. Stórglæsileg frammistaða og mörk í öllum regnbogans litum.

Mörk FH: Ragnheiður Tómasdóttir 10, Fanney Þóra Þórsdóttir 8/4, Embla Jónsdóttir 3, Diljá Sigurðardóttir 3, Sylvía Björt Blöndal 2, Aníta Theodórsdóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 11/1, Ástríður Þóra Viðarsd. Scheving 2.

Næsti leikur FH-liðsins verður gegn toppliði Olísdeildarinnar, Val, í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikarsins! Leikurinn er miðvikudaginn eftir viku kl. 19:30 í Kaplakrika. Þú mætir og styður liðið til sigurs!

Talandi um stuðning, það verður að hrósa leikmönnum 6. flokks kvenna sem voru á trommunum í fyrri hálfleik og svo leikmönnum 5. flokks sem tóku við af þeim í seinni hálfleik. Stemningin á íþróttaleikjum er alltaf betri með svona karaktera í stúkunni! Meira svona!

Við erum FH!
– Gimmi

Aðrar fréttir