1. Inngangur

Siðareglur Fimleikafélags Hafnarfjarðar (FH) eru leiðbeinandi fyrir alla félagsmenn1 varðandi hegðun og framkomu í leik og starfi innan félagsins. Í þeim er jafnframt kveðið á um hlutverk Siðanefndar FH og viðbrögð við meintum brotum á reglunum. Siðareglurnar taka til allra starfssviða félagsins, hvort sem er í keppni, við æfingar, í æfingabúðum, við ráðningar, á fundum eða í öðrum þáttum í starfsemi félagsins hérlendis og erlendis. Á vefsíðu félagsins fh.is má finna hnapp þar sem hægt er að senda tilkynningu til siðanefndar FH um meint brot á siðareglunum. Þar eru einnig hlekkir á vefsíður þar sem unnt er að fræðast um hinar ýmsu tegundir ofbeldis og óæskilegrar hegðunar, auk annars ítarefnis.

 

2. Siðareglur

2.1 Almennar reglur

2.1.1 Sýnum ávallt af okkur hegðun sem sæmir FH, í félagsstarfi og á íþróttaviðburðum, og berum merki félagsins með stolti.

2.1.2 Ofbeldi, hatursorðræða, fordómar, einelti og áreitni af nokkru tagi skulu aldrei liðin innan FH og ber öllu félagsfólki að stuðla að velferð og ánægju innan félagsins.

2.1.3 Fögnum fjölbreytileikanum og tryggjum öllum öruggt umhverfi innan félagsins.

2.1.4 Komum fram af fullkomnum heilindum og háttvísi. 2.1.5 Komum fram af virðingu við samherja, mótherja og okkur sjálf.

2.1.6 Tökum aldrei þátt í nokkurs konar veðmálum tengdum íþróttaviðburðum sem við getum haft áhrif á.

2.2 Iðkandi

2.2.1 Gerir ávallt sitt besta í leik og keppni í nafni félagsins

2.2.2 Virðir leikreglur og kemur fram af heiðarleika og kurteisi.

2.2.3 Sýnir öllum iðkendum, jafnt samherjum sem mótherjum, sem og þjálfurum, dómurum og öðrum aðilum virðingu.

2.2.4 Beitir aldrei ofbeldi af nokkru tagi eða samþykkir slíka hegðun. 1 Til félagsmanna teljast iðkendur, þjálfarar, starfsfólk, stjórnarfólk, sjálfboðaliðar og stuðningsmenn.

2.2.5 Hefur heilbrigði alltaf að leiðarljósi og tekur aldrei áhættu með heilsu sína eða neytir ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn.

2.2.6 Eldri iðkendur skulu hafa hugfast að þeir eru fyrirmynd yngri iðkenda, jafnt innan vallar sem utan.

2.2.7 Sýnir stundvísi við mætingar á æfingu, í keppni og í annað sem viðkemur félaginu.

2.3 Þjálfari

2.3.1 Hafi heilsu, öryggi og velferð iðkenda alltaf í fyrirrúmi.

2.3.2 Sé ávallt til fyrirmyndar í framkomu, hegðun og talsmáta, jafnt utan vallar sem innan.

2.3.3 Komi fram við alla iðkendur af virðingu og sanngirni og hafi að markmiði að byggja þá upp, bæði líkamlega og andlega.

2.3.4 Virði leikreglur og komi fram af heiðarleika, kurteisi og virðingu gagnvart mótherjum, dómurum og öðrum aðilum.

2.3.5 Mæli ávallt gegn neyslu ólöglegra lyfja, fíkniefna, áfengis og tóbaks gagnvart iðkendum.

2.3.6 Forðist of náið samneyti við iðkendur og sýni fagmennsku í samskiptum við þá.

2.3.7 Beiti aldrei ofbeldi af nokkru tagi og talar skýrt gegn slíkri háttsemi.

2.3.8 Sem starfsmaður er þjálfari bundinn trúnaði gagnvart persónulegum upplýsingum sem hann verður áskynja í starfi. Lögboðin tilkynningarskylda (t.d. skv. barnaverndarlögum) gengur þessu ákvæði hins vegar að sjálfsögðu framar.

2.4 Stjórnarmenn og starfsfólk

2.4.1 Starfi af heiðarleika og samkvæmt lögum og reglum íþróttahreyfingarinnar og samskiptareglum sem eru í gildi hverju sinni.

2.4.2 Sinni rekstri og ákvarðanatöku af heiðarleika og eftir góðum stjórnsýsluvenjum.

2.4.3 Gæti trúnaðar og þagmælsku í störfum sínum en þó innan takmarka lögboðinnar tilkynningarskyldu.

2.4.4 Sýni öðrum stjórnarmönnum, starfsfólki og öðrum félagsmönnum ávallt virðingu og kurteisi.

2.4.5 Misnoti ekki stöðu sína hjá félaginu til eigin framdráttar.

2.4.6 Þiggi hvorki gjafir né hlunnindi sem geta leitt til þess að rýra trúverðugleika, sjálfstæði eða hlutleysi sitt.

2.4.7 Viðhafi ávallt lýðræðisleg vinnubrögð og hvetji félagsmenn til virkrar þátttöku í starfi félagsins.

2.4.8 Hafi siðareglur þessar og almenn siðgæðisviðmið í huga við ráðningar starfsfólks og skipan í stjórnir félagsins.

2.4.9 Taki ábyrgan þátt í og stuðli að opinskárri og uppbyggilegri umræðu um málefni félagsins innan þess og utan.

3. Siðanefnd FH

Aðalstjórn skipar í kjölfar aðalfundar félagsins ár hvert þrjá aðila í sjálfstæða og óháða siðanefnd félagsins sem hefur það hlutverk að kanna mál sem vísað er til nefndarinnar og gefa út leiðbeinandi samantekt um málið. Nefndarmenn skulu ekki sitja í aðalstjórn eða stjórn deilda. Leiki grunur á að siðareglur félagsins hafi verið brotnar er hægt að vísa málinu til siðanefndar félagsins á netfangið sidanefnd@fh.is. Siðanefndin getur einnig tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði. Farið er með öll mál sem tilkynnt eru nefndinni sem trúnaðarmál og skulu hagsmunir þolenda ávallt hafðir að leiðarljósi. Takist ekki að leysa úr máli innan félagsins er hægt að beina erindi til óháðs fagráðs á vegum Hafnarfjarðarbæjar á netfangið ohadfagrad@hafnarfjordur.is. Ef alvarleiki málsins er slíkur að nefndin telur sér ekki fært að fjalla um málið ber að vísa því til viðeigandi yfirvalda, eftir atvikum lögreglu og/eða barnaverndarnefndar. Nefndin skal fara eftir landslögum, þar á meðal barnaverndarlögum, við úrvinnslu mála. Brot á siðareglum geta leitt til brottrekstrar úr starfi eða úr félaginu til lengri eða skemmri tíma. Þess skal gætt að mál sem tilkynnt eru nefndinni fái faglega og skjóta meðferð.

3.1 Starfsreglur siðanefndar

3.1.1 Siðanefnd skal stuðla að því að siðareglur félagsins séu virtar og meta hvort þær séu brotnar í einstaka málum.

3.1.2 Komi upp mál sem tengjast einstaklingi sem situr í siðanefnd eða einstaklingi honum tengdum skal viðkomandi nefndarmaður víkja sæti við meðferð málsins. Það sama á við um meðlimi aðalstjórnar verði málum vísað þangað sbr. grein 3.1.5 og 3.2

3.1.3 Nefndin getur kallað eftir viðeigandi gögnum frá hlutaðeigandi aðilum við vinnslu mála.

3.1.4 Nefndin getur kallað til fagaðila eftir þörfum og eðli hvers máls fyrir sig.

3.1.5 Tengiliður nefndarinnar við aðalstjórn skal vera formaður framkvæmdanefndar aðalstjórnar.

3.1.6 Siðanefnd skal skrifa skýrslu um öll mál sem henni berast þar sem gerð er grein fyrir málavöxtum, vinnslu við málið og rökstuddri niðurstöðu. Skýrslan skal berast framkvæmdanefnd aðalstjórnar og hlutaðeigandi aðilum skriflega og/eða á fundi, eins fljótt og kostur er.

3.1.7 Nefndinni ber að setja sér verklagsreglur og þá ber henni að skrá fundargerðir og halda tölfræði um þau mál sem hún fær til meðferðar.

3.1.8 Nefndin skal skila ársskýrslu til aðalstjórnar eigi síðar en 31. janúar ár hvert um starfsemi síðastliðins árs. Í skýrslunni getur nefndin komið á framfæri tillögum að úrbótum á siðareglunum og mögulegum forvörnum þeim til stuðnings.

3.2 Úrræði siðanefndar

Sé það niðurstaða siðanefndar að siðareglur félagsins hafi verið brotnar getur nefndin lagt til eftirfarandi úrræði við aðalstjórn og eftir atvikum stjórnir einstakra deilda:

  • Láta mál niður falla
  • Skrifleg áminning
  • Tímabundin brottvísun úr starfi eða úr félaginu
  • Brottrekstur úr starfi eða úr félaginu
  • Vísun máls til viðeigandi yfirvalda
  • Önnur viðbrögð eða viðurlög sem siðanefnd telur við hæfi

Tilkynning um brot á siðareglum