Hallsteinn Hinriksson,
leikfimikennari og þjálfari (f. 2. febrúar 1904, d. 10. október 1974) var árið 1929 ráðinn leikfimiþjálfari við Barnaskóla Hafnarfjarðar og Flensborgarskóla. Með komu hans til Hafnarfjarðar urðu þáttaskil í íþróttasögu bæjarins, en Hallsteinn er sá maður sem lagt hefur hvað mest af mörkum til hafnfirskra íþróttamála fyrr og síðar. Hann hafði forgöngu um stofnun FH haustið 1929, sem er elsta starfandi íþróttafélag í bænum og var þjálfari hjá félaginu alveg frá upphafi til æviloka. Hann sat mörg ár í stjórn félagsins, lengst af sem varaformaður og var fulltrúi þess í stjórnum ÍBH og HSÍ, auk þess sem hann átti um árabil sæti í íþróttaráði Hafnarfjarðar. Hann var afreksmaður í frjálsum íþróttum og margfaldur Íslandsmeistari. Árin 1958 -62 var hann landsliðsþjálfari í handknattleik, auk þess sem hann þjálfaði meistaraflokka félagsins í fjölda ára. Hallsteinn var árið 1939 gerður að heiðursfélaga í FH á 10 ára afmæli félagsins og síðar heiðursformaður þess. Hann var einnig sæmdur Fálkaorðunni fyrir þátttöku og störf sín að íþróttamálum.

 

Ágúst Jóhannsson,
vélstjóri, (f. 28. júní 1917 d. 19. ágúst 1963) var yngstur í hópi þeirra sem stofnuðu F, aðeins 12 ára þegar kallað var til stofnfundarins í leikfimihúsi gamla barnaskólans við Suðurgötu. Hann fór ungur til sjós og varð það hans ævistarf. Ágúst var flinkur leikfimismaður og frægur fyrir handstöður sínar, sem hann iðkaði m.a. á lunningum þeirra báta sem hann starfaði á. Hann var einnig liðtækur sundmaður. Margir Hafnfirðingar muna hann eflaust sem Gústa Gróu eins og hann var oft kallaður í kunningjahópnum. Ágúst lést um aldur fram aðeins 46 ára gamall.

 

Ágúst Ottó Jónsson,
skipstjóri, (f. 28. júní 1914 d. 31. október 1987) var mjög liðtækur fimleikamaður. Hann var ungur kallaður til starfa á sjó eins og algengt var í þá tíð og var sjómennska hans aðalstarf. Ágúst var oft kenndur við Gróf, eins og margir í fjölskyldu hans, en úr henni komu margir öflugir liðsmenn til FH. Ágúst fylgdist ávallt með starfi og framgangi félagsins og var sæmdur gullmerki FH á 55 ára afmæli félagsins. Mat hann það mikils, enda einn af brautryðjendunum sem mörkuðu sporin hjá félaginu.

 

Böðvar Eggertsson,
skrifstofustjóri, (f. 15. nóvember 1912 d. 19. september 2000) var mjög liðtækur fimleikamaður, auk þess sem hann lék handknattleik með liði Flensborgarskóla og FH. Hann var sæmdur gullmerki FH á 55 ára afmæli félagsins, sem var sérstök heiðursveiting sem aðalstjórn félagsins veitir. Hann var sérstakur heiðursgestur á 70 ára afmælishátíð félagsins í Kaplakrika og fylgdist þá enn af áhuga með félaginu sínu. Hann var lengst af skrifstofustjóri Landssmiðjunnar í Reykjavík og menntaður frá Flensborgarskóla og Verslunarskóla Íslands.

 

Guðjón Sigurjónsson,
fimleikakennari og sjúkraþjálfari, (f. 25. september 1915 d. 4. febrúar 1996) var öflugur félagsmaður í FH og formaður félagsins um tíma. Hann var afreksmaður í fimleikum, knatspyrnu, handknattleik og frjálsum íþróttum og margfaldur Íslandsmeistari. Hann þjálfaði fimleika og frjálsar íþróttir hjá félaginu og var einn fimm bræðra, auk mágs síns, sem léku samtímis með meistaraflokki félagsins í knattspyrnu, sem hlýtur að vera einstakt í íþróttasögunni. Guðjón var gerður að heiðursfélaga í FH á 50 ára afmæli félagsins, en hann fylgdist alla tíð af miklum áhuga með gangi mála félaginu sínu.

 

Jóhannes Eiðsson,
bátsmaður, (f. 31. desember 1911 d. 29. janúar 1955) var afburða fimleikamaður og hóf ferilinn í ÍH eins og fleiri félagar hans. Hann æfði seinna með sýningaflokki Ármanns í Reykjavík og fór með flokknum í sýningarferð til Norðurlandanna við góðan orðstír. Hann fór ungur til sjós, sem varð hans aðalstarf, og fórst í sjóslysi árið 1955 fyrir aldur fram.

 

Kristján Gamalíelsson,
póstafgreiðslumaður, (f. 4. júlí 1912 d. 26. mars 1986) var afburða flinkur fimleikamaður. Hann var kosinn fyrsti formaður FH, þar sem félagar hans töldu hann besta fimleikamanninn í hópi stofnfélaganna og gegndi hann formennsku fyrstu fimm árin. Ferill Kristjáns í íþróttum var ekki langur þar sem hörð lífsbaráttan tók fljótlega við eins og tíðkaðist í þá daga. Hann fylgdist þó grannt með félaginu sínu en vegna lífsskoðana sinna og trúar gat hann ekki þegið veraldlega titla og var því aldrei formlega gerður að heiðursfélaga. Hann var félagi í söngkvartetti FH sem stundum skemmti á hátíðum félagsins.

 

Lárus Gamalíelssson,
starfsmaður Rafveitu Hafnarfjarðar, (f. 13. október 1915 d. ) var úrvals fimleikamaður og liðsmaður FH á fyrstu árum félagins. Hann varð eins og flestir ungir menn í Hafnarfirði, um og eftir 1930, að fara til sjós á togurum og varð íþróttaferillinn því stuttur. Lárus, sem er bróðir Kristjáns heitins, fyrsta formanns FH, var sæmdur gullmerki FH á 55 ára afmæli félagsins og var sérstakur heiðursgestur á 70 ára afmælishátíð félagsins í Kaplakrika og fylgist enn grannt með félaginu sínu.

 

Ólafur Jóhannsson,
vatnsveitustjóri, (f. 11. ágúst 1912 d. 3. maí 1973) var ágætis fimleikamaður. Hann var auk þess að vera liðsmaður í ÍH og FH, þátttakandi í 50 manna úrvalshópi sem sýndi á lýðveldishátíðinni á Þingvöllum árið 1944. Ólvarur var líka afreksmaður í sundi og vann þar til margra verðlauna. Ólafur nam við lýðháskóla í Askov í Danmörku árið 1935 og síðan við Verslunarskóla Íslands 1936- 37. Hann varð síðar starfsmaður varnarliðsins frá árinu 1952 og fyrsti vatnsveitustjóri hersins við góðan orðstír. Hann var mikill félagsmálamaður og kom víða við á því sviði.

 

Sigurður Gíslason,
slökkviliðsstjóri, (f. 30. september 1911 d. 4. maí 1995) var mikill íþróttamaður. Hann var góður fimleikamaður, afreksmaður í frjálsum íþróttum, iðkaði knattspyrnu með Þjálfa og varð síðan fyrsti þjálfari í knattspyrnu hjá FH árið 1939. Sigurður sat í stjórn FH fyrstu 10 árin og var formaður félagsins í 5 ár. Hann var alla tíð virkur félagi í FH og sat í fulltrúaráði félagsins frá stofnun þess og til æviloka. Hann var gerður heiðursfélagi FH árið 1954.

 

Sveinn V. Stefánsson,
skrifstofumaður, (f. 9. september 1913 d. 15. ágúst. 1987) var liðtækur íþróttamaður og sat í stjórn FH á fyrstu árum félagsins. Hann var mikill félagsmálamaður og sérstaka athygli vöktu störf hans með Leikfélagi Hafnarfjarðar. Sveinn Viggó var sæmdur gullmerki FH á 50 ára afmæli félagsins þar sem hann flutti félaginu mikla lofgjörð í kröftugri ræðu á „sviði“. Þar var hann í essinu sínu, enda listrænn í háttum og glæsimenni mikið.