Umfjöllun: FH-Fram, Bikarkeppni 4. flokks kvenna

Umfjöllun: FH-Fram, Bikarkeppni 4. flokks kvenna

Í dag fór fram úrslitaleikur í bikarkeppni 4. flokks kvenna. Þar mættust FH-ingar og Framarar og mátti búast við hörkuleik tveggja flottra liða. Fjölmenni var í Laugardalshöllinni, enda bikar í húfi.

Fyrri Hálfleikur
FH-stúlkur skoruðu fyrsta mark leiksins en eftir það réðu Framarar lögum og lofum. FH-stúlkur virtust vera yfirspenntar frá fyrstu mínútu og náðu ekki að sýna sitt rétta andlit. Fram náði fljótt öruggri forystu, keyrðu hraðaupphlaupin og uppskáru eftir því. Þó náðu FH-stúlkur góðum kafla í lok hálfleiksins þar sem að þær náðu að minnka muninn á liðunum niður í 3 mörk, en mestur varð munurinn 6 mörk í fyrri hálfleik. Það mátti því búast við hörku seinni hálfleik, enda höfðu FH-stúlkur sótt í sig veðrið. Staðan í hálfleik var 11-14, Fram í vil.

Seinni Hálfleikur
Seinni hálfleikur hófst vægast sagt illa. Fram-stúlkur beittu hraðaupphlaupum í auknum mæli og náðu á stuttum tíma að auka forystu sína úr 3 mörkum í 10 mörk. Þá var nokkuð ljóst í hvað stefndi, FH-stelpur virkuðu ekki líklegar til þess að snúa þessum leik sér í hag, munurinn var einfaldlega of mikill.

En stelpurnar höfðu þó ekki sagt sitt síðasta. 10 síðustu mínútur leiksins voru virkilega góðar af hálfu FH-stelpna og náðu þær að minnka muninn niður í eitt mark þegar einungis mínúta var eftir af leiknum. Fram-stelpur fóru í sókn en FH-ingar náðu boltanum og ruku upp völlinn. Brotið var á leikmanni FH-liðsins í þeirri sókn og möguleiki FH-inga á að skora því lítill. Úr aukakastinu náðu FH-ingar ekki að skora og því fóru Framarar með sigur af hólmi, 25-26.

Ljóst er að stelpurnar geta gert mun betur en þær gerðu í dag. Þær voru greinilega hrjáðar af stressi í byrjun leiks og það háði þeim seinna í leiknum, þegar þær náðu loks að spila sinn leik var munurinn einfaldlega orðinn of mikill. Þær sýndu þó frábæra baráttu í lok leiks og náðu að vinna sig aftur inn í leikinn en því miður var það of seint. Þessi leikur fer þó vafalaust í reynslubanka stelpnanna og kemur vonandi til með að reynast þeim vel seinna meir þegar þær eru orðnar ögn eldri.

Aðrar fréttir