Umfjöllun: FH-Grótta

Umfjöllun: FH-Grótta

Í gærkvöldi fór fram leikur FH og Gróttu í N1-deild karla. Leikurinn var sá fyrsti í 5. umferð Úrvalsdeildarinnar. Fyrir þennan leik voru FH-ingar í 3ja sæti með 5 stig en Gróttumenn voru 3ju neðstir með 2 stig.

Fyrri Hálfleikur
Dauft var yfir liði FH-inga strax frá byrjun. Grótta tók fljótt frumkvæðið og voru einu til tveimur mörkum yfir snemma leiks. FH-ingar héngu þó alltaf í Seltirningum og jafnt var á flestum tölum þangað til að FH-ingar náðu góðri 3ja marka forystu á tímabili. Það entist þó ekki lengi, Grótta vann sig aftur inn í leikinn og í hálfleik var jafnt, 16:16.
Segja má að staðan í hálfleik hafi verið ósanngjörn. Miðað við gang leiksins áttu Gróttumenn að hafa a.m.k. þriggja marka forystu. FH-ingar voru vægast sagt hriplekir í vörn og slakir í sókn og segja má að Pálmar Pétursson hafi haldið liðinu inni í leiknum lengi vel, hann varði 11 skot í fyrri hálfleik. Markahæstir FH-inga í fyrri hálfleik voru þeir Bjarni Fritzson með 5 mörk og Benedikt Reynir Kristinsson með 3 mörk.
Höfundur þessarar greinar var þó bjartsýnn í hálfleik, FH-ingar áttu mikið inni miðað við frammistöðuna í fyrri hálfleik og hlakkaði undirritaður til að horfa á baráttuglatt FH-lið í seinni hálfleik.

Seinni Hálfleikur
En það var sko alls ekki raunin. FH-ingar mættu varla til leiks í seinni hálfleik og misstu Seltirninga allt of langt frá sér strax í upphafi síðari hálfleiks. Einar Andri tók leikhlé eftir 7 mínútur í seinni hálfleik enda var þess þörf. Staðan á þeim tímapunkti var 19:22, Gróttu í vil. Ekki batnaði frammistaða FH-inga í kjölfarið því þeir misstu gjörsamlega stjórn á leiknum, menn voru reknir út af í gríð og erg fyrir vitleysisleg brot, þeir hefðu átt að vita betur. Grótta náði því á endanum óvæntri en verðskuldaðri 5 marka forystu, 26:31. Á endanum unnu þeir verðskuldaðan 6 marka sigur, 32:38.

Fátt var um fína drætti í leiknum í kvöld, svo vægt sé til orða tekið. Lið FH virtist vera gjörsamlega áhugalaust og létu baráttuglatt Gróttulið keyra yfir sig. Ekki er gott að segja hvort um vanmat hafi verið að ræða en þykir mér það þó nokkuð líklegt. Það er allavega ljóst að ef FH-ingar ætla sér jafn stóra hluti í vetur og rætt hefur verið um þá þurfa þeir að taka sig rækilega saman í andlitinu.

Umfjöllun: Árni Freyr

Aðrar fréttir