Upphitun: Einvígi FH og Gróttu í umspili Olísdeildar kvenna!

Ingimar Bjarni skellti í upphitun fyrir einvígið mikilvæga gegn Gróttu:

Það var ekkert leyndarmál fyrir tímabilið hvað markmið FH væri. Þessi hópur ætlaði sér upp í deild hinna bestu og spila þar tímabilið 2018-19. Liðið hafði misst nokkra sterka pósta og ljóst fyrir tímabilið að leikmenn yrðu að stíga upp til að láta drauminn rætast.

Liðið fór af stað með krafti, vann þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og voru að berjast um efstu sætin. Eftir áramót voru höggvin nokkuð stór skörð í hópinn og það hafði áhrif á spilamennsku liðsins. Stelpurnar náðu samt að kreista út stig, sérstaklega fyrst eftir áramót og þökk sé baráttugleðinni og áttu frábæra spretti inn á milli. Má þar helst nefna þegar þær gjörsamlega slátruðu Aftureldingu. Síðasti sigur liðsins var svo fjögurra marka sigur á Víking, sem fór langleiðina með að tryggja umspilssætið.

Fanney er algjör lykilleikmaður í vörn sem sókn

Andstæðingurinn – Grótta.

Gróttu gekk bölvanlega í allan vetur í Olísdeildinni, sem kom smá á óvart. Liðinu var spáð sjötta sæti fyrir mótið, sem er nokkuð magnað þegar hugsað er út í að það er ekki lengra síðan en 2015 að þær urðu Íslandsmeistarar, en síðan hefur liðið tekið stakkaskiptum. Enga síður eru Íslandsmeistarar í hópnum, ásamt einni björtustu vonarstjörnu handboltans, Lovísu Thompson. Það verður algjört lykilatriði fyrir FH-inga að hafa hemil á henni enda leikmaður sem getur og hefur unnið leiki upp á eigin spýtur.

Grótta er félag sem hefur alltaf haft metnað fyrir kvennaboltanum sínum og Seltyrningar hafa sýnt það að þeir geta myndað hörkustemningu á leikjunum í Hertz-höllinni. Þegar þær loksins unnu sinn fyrsta leik í vetur var fagnað innilega og er ekki að sjá að stuðningsmenn hafi gefist upp á liðinu.

Sprengikrafturinn Sylvíu er eitt af hennar helstu einkennum

Leikirnir

Fyrstu leikurinn verður spilaður á morgun, fimmtudaginn 5. apríl úti á nesi. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig liðin mæta til leiks. Það hljóta að hafa verið mikil vonbrigði fyrir Gróttu að átta sig á að þær þyrftu að fara í umspil til að halda sæti sínu í deildinni að sama skapi sem það var baráttusigur fyrir FH að komast í umspilið. Í báðum liðum eru margir ungir leikmenn og ekkert allt of margir leikmenn sem hafa verið í þessari stöðu áður. Það verður ekki litið fram hjá því að FH hefur allt að vinna, Grótta öllu að tapa og gæti það haft áhrif á stress stigið hjá liðinum.

FH getur vel unnið þessa rimmu. Grimmur varnarleikur verður algjört lykilatriði, sem mun hjálpa markmönnum að loka á leikmenn Gróttu, ásamt því að ná að refsa Gróttu fyrir mistök í sókninni sem hafa verið nokkuð tíð. Í sókninni skiptir miklu að Fanney og Sylvía verði á skotskónum. Það eru nokkrir leikmenn sem gætu dottið inn úr meiðslum og verið gífurlegur liðsstyrkur.

Embla er lipur, leikin og fylgin sér

Ef stelpurnar okkar ná að stjórna fyrsta leiknum getur allt gerst í Kaplakrika á laugardaginn, þar sem stuðningsmenn ætla að fjölmenna og styðja liðið í úrslitarimmu um sæti í deild þeirra bestu. Stemning innan vallar sem utan er lykilatriði svo að draumurinn rætist.

Ég ætla að leyfa leikmönnum FH, Diljá og Tönju um lokaorðin:

Við erum „underdogs“ í þessu einvígi en við erum dýrvitlausar og klárar í þennan slag! Áfram FH!

Aðrar fréttir