Upphitun: FH – Afturelding, 19. apríl 2017

Nú eru þau fjögur talsins, liðin sem standa eftir. Vegferðir þeirra það sem af er eru misjafnar, en takmark þeirra allra er hið sama – að landa Íslandsmeistaratitlinum árið 2017. Þeim allra stærsta. Slagurinn hefst annað kvöld, og þá fá okkar menn í FH lið Aftureldingar í heimsókn. Nú fer að hitna almennilega í kolunum.

FH - Afturelding viðureign 1 Playoffs

FH og Afturelding eiga það sameiginlegt, að hafa sópað sínum viðureignum og þannig fengið viku í hvíld áður en að þessi rimma hefst. Okkar menn tryggðu sig áfram með sannfærandi 11 marka sigri á Seltjarnarnesi síðastliðinn þriðjudag, en fyrri leikurinn gegn Gróttunni vannst með minnsta mun og einvígið því langt frá því gefins.

Mosfellingar mættu Selfyssingum í sinni rimmu og má segja að það einvígi hafi verið keimlíkt því sem FH-ingar áttu við Gróttu. Fyrri leiknum, sem fram fór að Varmá, lauk með 14 marka stórsigri Aftureldingar. Selfyssingar voru að vísu yfir í hálfleik, en heimamenn fóru á kostum í þeim síðari og réðu Sunnlendingar lítt við þá.

Seinni viðureign liðanna í Vallaskóla var hins vegar öllu jafnari allan leikinn. Selfyssingar voru yfir lengst af og hefðu með smá heppni getað haft sigur af hólmi og þar með tryggt sér oddaleik. Mosfellingar, með alla sína reynslu úr úrslitakeppnum frá síðustu árum, kláruðu hins vegar dæmið í framlengingu.

Arnar Freyr verður í eldlínunni gegn Aftureldingu annað kvöld / Mynd: Jói Long

Arnar Freyr verður í eldlínunni gegn Aftureldingu annað kvöld / Mynd: Jói Long

FH-ingar eiga einmitt harma að hefna frá því í úrslitakeppninni á síðasta ári. Á leið sinni í úrslitarimmuna slógu Mosfellingar okkar menn út í 8 liða úrslitum, en þeirri seríu lauk með 2-0 sigri Einars Andra og lærisveina hans. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Okkar menn mæta inn í þessa seríu sem deildarmeistarar, fullir sjálfstrausts og ákveðnir í að sækja stærsta bikarinn af þeim öllum. Liðið átti í raun ekki erindi í slíkt í fyrra, hafði gengið illa lengst af vetri og að lokum endað í 6. sæti. Mosfellingar, sem höfðu farið í úrslit árið áður, voru aftur á móti tilbúnir í verkefnið og líklegir til afreka.

Nú mæta liðin til leiks sem jafningjar. Topplið í þessari Olísdeild, sem bæði ætla sér titilinn og eiga raunhæfa möguleika á honum. Einvígi liðanna í vetur endurspegla hversu jöfn þau eru. Fyrsta leik lauk með eins marks sigri Mosfellinga í Varmá, síðan fylgdi jafntefli í Kaplakrika og svo að lokum fjögurra marka FH-sigur. Það stefnir allt í sturlað einvígi.

Aðeins um lið Aftureldingar. Styrkleikar þeirra eru margir, enda valinn maður í hverju rúmi. Þeir eiga einn allra sterkasta hornamann deildarinnar í Árna Braga Eyjólfssyni, þeirra markahæsta manni í vetur. Elvar Ásgeirsson er frábær leikstjórnandi, sem einnig hefur hæð og góða skottækni og er afar mikilvægt að stöðva. Mikk Pinnonen sýnir oft á tíðum frábær tilþrif í skyttunni þegar hann dettur í gírinn, og þá eiga þeir öflugt markvarðateymi sem samanstendur af þeim Davíð Svanssyni og Kristófer Fannari Guðmundssyni. Jafnvel þegar þeir missa lykilmann í Birki Benediktssyni út með meiðsli, þá eiga Mosfellingar jafn sterka – ef ekki sterkari – skyttu í Erni Hrafni Arnarsyni. Slík er breiddin.

Þessi voru með læti síðastliðinn þriðjudag. Góður stuðningur veitir strákunum byr undir báða vængi! / Mynd: Jói Long

Þessi voru með læti síðastliðinn þriðjudag. Góður stuðningur veitir strákunum byr undir báða vængi! / Mynd: Jói Long

En ef það er eitthvað lið sem getur lagt þetta lið Aftureldingar að velli í seríu, þá er það okkar lið. Kæru FH-ingar, við eigum frábært handboltalið. Þegar strákarnir detta í gírinn og spila sinn hraða og skemmtilega handbolta, með frábærum varnarleik og markvörslu í þokkabót, þá eru fá lið sem standast þeim snúning. Með góðan stuðning í bakið eru þeir enn betri. Við sáum það greinilega á Seltjarnarnesi, þar sem FH-ingar fjölmenntu og yfirgnæfðu stuðningsmenn Gróttu frá fyrstu mínútu. Stemningin var mikil og FH-liðið, stemningsliðið sem það er, nýtti sér það til fullnustu.

Það er því þörf á kröftugum stuðningi HVÍTKLÆDDRA FH-inga í þessu einvígi, allt frá fyrstu mínútu þess á miðvikudag og þar til það hefur verið útkljáð. Við þurfum að gefa allt okkar í þetta verkefni. Saman skulum við taka næsta skref í átt að takmarkinu!

Þetta er ákall til FH-fjölskyldunnar! Leikurinn hefst kl. 20:00, en það er full ástæða til að mæta fyrr. Dagskrá hefst kl. 18:30 á FH-torginu í Kaplakrika, nóg verður um að vera í tengibyggingunni fram að upphafsflautinu og glóðvolgir borgarar munu streyma af grillinu svo að enginn þarf að sitja svangur uppi í stúku. Mætum öll klædd í hvítt, skemmtum okkur saman og styðjum svo strákana fram til sigurs!

Við erum FH!

 

 

Aðrar fréttir