Upphitun: FH – Afturelding, 27. apríl 2017

Síðasti leikur var stórfengleg skemmtun, fyrir FH-inga. Afturelding var gjörsamlega tekin í fyrri hálfleik og þökk sé góðum varnarleik og agaðari sókn voru okkar menn með 7 marka forystu í hálfleik. Lið spila ekki betur en andstæðingurinn leyfir og það gekk ekkert upp hjá strákunum hans Einars Andra, einn bolti í stöng er óheppni, fimm er eitthvað meira en það. Í seinni hálfleik gerði Afturelding heljarinnar atlögu en þrátt fyrir að hafa náð að minnka muninn í tvö mörk leystu Hafnfirðingar verkefnið með mikilli þolinmæði, ekki síst þökk sé flottu framlagi frá fyrirliðanum Ásbirni og línutröllinu Jóhanni Karl sem kom inn fyrir Ágúst Birgisson, eftir að sá síðarnefndi fékk fullmikla athygli dómaranna.

Jóhann Karl átti frábæran leik í Mosó á laugardag / Mynd: Jói Long

Jóhann Karl átti frábæran leik í Mosó á laugardag / Mynd: Jói Long

Þetta var fyrsti leikur liðanna í vetur sem var ekki jafn, þó það verði ekki sagt að hann hafi ekki verið spennandi. Leikurinn í kvöld verður væntanlega líkari fyrri leikjum liðanna en þeim seinasta, það væri ótrúlegt að ná að berja gestina niður jafn vel og tókst í fyrri hálfleik síðasta leiks. Okkar menn eru enga siður full mannaðir, eru búnir að vera stöðugasta lið landsins undanfarin misseri og langar örugglega að tryggja sér gott undirbúningstímabil fyrir úrslitin.

Rothöggið er búið að panta rútur til að ferja fólk á völlinn, Afturelding hefur oftar en ekki spilað sinn besta leik í vetur með bakið uppvið vegg og þeim langar nákvæmlega ekkert að vera sópað úr undanúrslitum. Hjá okkar mönnum eru allir heilir, holningin búin að vera flott á liðinu og í nánast hverjum einasta leik undanfarið mismunandi leikmaður stigið upp og átt stórleik í sókninni. Ísak, Gísli og Jóhann Karl hafa allir tekið rosalega spretti í sókninni í þessari keppni á meðan vörnin hefur staðið eins og klettur alla fjóra leikina.

FH - Afturelding 27. apríl

Kaplakriki verður trylltur. Það eru valdir menn á grillinu, full dagskrá og þétt setinn stúka. Á svona dögum er þetta skemmtilegasta íþróttahús landsins. Það verður ærandi stemning og spái ég því að eftir tvöfalda framlengingu muni FH sigra með tveim mörkum. Ekki láta þig vanta, okkar menn þurfa öllum stuðning að halda.
VIÐ ERUM FH!!!

– Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir