Upphitun: FH – Afturelding, 29. september 2019

UMFA: Nýtt lið svo til. Það er öflugt að vera með 6 punkta, tveir hörkuleikir og svo eitt rúst. Einar Andri á sínu sjötta tímabili með liðið. Stundum er talað um að þjálfarar geti ekki verið of lengi með lið en…

Ein harkalegasta byrjun tímabils sem möguleg er: Íslandsmeistararnir, silfurliðið í bikarnum og ÍBV úti.

Selfoss, Valur, ÍBV úti og nú Afturelding í heimsókn. Lið hafa alveg fengið einfaldari mótabyrjun en svart-hvítu hetjurnar okkar í vetur. Þeir eru með tvö stig og markatöluna núll, sem segir auðvitað ekki neitt svo snemma móts. Eftir tap gegn peyjunum í síðasta leik er komið að því að taka á móti Einar Andra og strákunum hans í Aftureldingu, í kvöld í Kaplakrika klukkan 19:30.

Gestirnir

Mosfellingar hafa farið betur af stað en margir bjuggust við. Liðið er eitt af fjórum sem eru með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Það er ekki endilega raunin að þeir hafa verið að spila einhvern glimrandi bolta, en þeir hafa náð að slútta leikjum – sem er það sem mestu máli skiptir. Sérstaklega í byrjun móts. Þeir mörðu KA í fyrstu umferð, rústuðu Stjörnunni og unnu svo Fram með tveimur mörkum, eftir að hafa verið undir lungað af leiknum.

Einar Andri er að hefja sitt sjötta ár með Aftureldingu. Liðið mætir nú með nánast nýtt lið til leiks, sjö leikmenn farnir frá því í fyrra og fjórir nýir komnir inn. Af nýju mönnunum hefur Guðmundur Árni Ólafsson verið atkvæðamestur, með 16 mörk í þremur leikjum. Þeirra markahæsti maður er svo Birkir Benediktsson, sem er með 20 mörk. Sannarlega klár í að stíga upp.

Síðustu ár hefur Afturelding verið með nokkuð stöðugt lið. Fyrstu ár Einars Andra komust þeir í úrslit mótsins, svo í bikarúrslit árið 2017 en þó án þess að vinna dollu. Síðustu tvö ár hafa þeir verið í sjötta sætinu, sem þeim er einnig spáð í ár. Þeir hafa verið hreint ótrúlega óheppnir með meiðsli, sem hefur e.t.v. hamlað enn meiri framgangi þeirra. Ef þeirra helstu póstar haldast heilir eiga þeir góðan möguleika á að brjótast inn í efri helminginn. En okkur er sama um það, verkefni FH-inga í kvöld er að skemma þessa fullkomnu byrjun Mosfellinga og komast á sigurbraut fyrir leikinn á móti hinu Hafnarfjarðarliðinu að viku liðinni.

Dr. Phil hefur spilað vel með liði FH það sem af er móti / Mynd: Jói Long

Okkar menn

Evrópuævintýri, meistarar meistaranna og leikjaprógrammið sem ég talaði um hér að ofan. Þetta er búin að vera rosaleg byrjun hjá okkar mönnum. Okkar jafn bestu menn hafa verið Bjarni Ófeigur og Ási, auk þess sem Phil Döhler er búinn að koma frábærlega inn í liðið. Hann var stórfenglegur í leiknum á móti ÍBV og með að meðaltali 40% markvörslu í leik – alls ekki slæmt hjá nýliðanum.

Tveir af þremur deildarleikjum liðsins hafa verið virkilega tæpir. Einungis Valsleikurinn var nokkuð öruggur en í báðum tapleikjunum sýndi liðið mikinn karakter, og voru strákarnir óheppnir að ná ekki í það minnsta kosti stigi úr báðum leikjum. Sterkasta vopn FH er vörnin og mun hún vinna þennan leik ef hún nær sér á strik. Sókn Aftureldingar hefur ekki alltaf litið vel út í byrjun móts, og ef hún skellur á hörðum FH-vegg þarf ekki að spyrja að leikslokum!

Spá

Okkar mönnum var spáð deildarmeistaratitlinum af nánast öllum sérfræðingum fyrir mót, og það er kominn tími til að sína af hverju sú var raunin. Ég ætla að spá því að okkar menn kúpli upp í hærri gír en hingað til og rúlli þessu upp, 29-22! Það er bara þannig. Sjáumst í Krikanum í kvöld.

VIÐ ERUM FH!
-Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir