Upphitun: FH – Afturelding, föstudaginn 13. apríl 2018 | Loksins hefst úrslitakeppnin!

Ég segi það líklega fyrir hönd flestra, þegar ég segi: mikið var!

Eftirvæntingin fyrir úrslitakeppninni í Olísdeild karla hefur líklega sjaldan eða aldrei verið meiri heldur en nú! Nú fyllast hallirnar. Nú gerast stóru atvikin. Nú fáum við endanlega að sjá, hvert er besta lið landsins. Hvaða lið það reynist vera, er alls kostar óvíst. Hver sem er getur unnið þetta mót.

Þau lið sem í þessari viðureign mætast, geta það bæði. Svo sannarlega. Strákarnir okkar – deildarmeistarar ársins í fyrra, úrslitaeinvígið í Íslandsmótinu sama ár, 3. sæti í deild í ár – hafa sýnt það og sannað að þegar þeir detta í gírinn þá eru fá lið sem eiga nokkuð í þá. Mosfellingar áttu erfitt uppdráttar framan af móti, en náðu eftir því sem á leið betri takti og geta á góðum degi unnið hvaða lið sem er. Gæðin eru sannarlega til staðar á þeim bænum.

Hvernig þróast þetta einvígi? Um það er ómögulegt að spá.

Þessi lið mættust í úrslitakeppninni í fyrra, þá í undanúrslitum, og eigum við FH-ingar sælar minningar úr því einvígi. Þrír leikir, þrír sigrar, sópurinn á lofti og við þar af leiðandi í úrslitaviðureigninni. FH-liðið mætti hárrétt stillt inn í alla leiki þessa einvígis og þá var ekki að spyrja að leikslokum. En ef það er ekki hvatning fyrir Mosfellinga til að gera betur í þetta sinn, þá veit ég ekki hvað.

Einmitt vegna þessa þurfa okkar menn að mæta sérlega vel undirbúnir. Á tánum. Og við þurfum að byrja eins vel og hægt er. Í einvígjum sem þessum þá verður að taka frumkvæðið, því sá sem það gerir vill oftast halda því. Reiðum fyrst til höggs.

Afturelding hélt flugeldasýningu í síðasta deildarleik sínum fyrir hlé, en þá tóku þeir á móti ÍR-ingum á heimavelli sínum að Varmá. Mosfellingar gjörsamlega bökuðu ÍR-inga, unnu með 22 marka mun, og taka það með sér sem veganesti inn í þetta einvígi eftir tímabil sem hefur e.t.v. ekki alveg farið að óskum hingað til. Meiðsli hafa reynst þeim erfið, en nú virðist vera að rofa til. Böðvar Páll Ásgeirsson skoraði t.a.m. 5 mörk gegn Breiðhyltingum, en hann hefur lítið skorað síðustu ár vegna meiðsla í öxl. Pétur Júníusson er kominn til baka eftir meiðsli, og fyrir er þar Einar Ingi Hrafnsson – enginn aukvisi. Árni Bragi, Birkir Benediktsson, Ernir Hrafn – allir geta þeir tekið yfir leiki. Þetta verður hörkuhörkuhörkubarátta frá upphafi til enda.

Kjaftfull stúka – það er það sem við öll viljum! / Mynd: Jói Long

Við – við vitum allt um okkar menn, og hvað þeir geta. Þeir voru efstir í deildinni frá fyrstu umferð og fram til þeirrar síðustu, eða því sem næst, en smá niðurtúr í lok mótsins kostaði strákana á endanum deildarmeistaratitilinn. Það er eins og það er. Nú byrjar hins vegar nýtt mót, og það vita strákarnir manna best. Í síðasta leik deildarkeppninnar, gegn Stjörnunni í Ásgarði, líktust okkar menn sjálfum sér á nýjan leik, eftir að hafa ekki gert það um nokkurt skeið. Nú er að taka það með sér í einvígið, sem er að hefjast.

Úrslitakeppnin dregur fram úr handboltanum allt það besta. Bestu leikmennirnir stíga upp, og bestu liðin standa uppi í lokin. Allt fer upp á annað plan. Stemningin fer einnig stigvaxandi, og eins og þeir vita sem mætt hafa í Krikann undanfarin ár þá er hún hvergi betri en akkúrat þar. Við þurfum að halda því þannig.

Stuðningur þinn er ómetanlegur á þessum tímapunkti og fram til loka. Með stuðningi þínum loka varnartröllin okkar á andstæðingana. Aðeins fastar en vanalega. Með stuðningi þínum verja Ágúst Elí og Birkir Fannar þessar aukatuðrur sem þarf, til að halda erfiðustu leikina út. Með stuðningi þínum fáum við gullfalleg gegnumbrot frá skyttunum skeinuhættu og flautumörk úr hornunum. Aldrei efast um það. Hver rödd skiptir máli.

Svo er þetta bara svo ógeðslega gaman!

Ekki láta þessa veislu framhjá þér fara, kæri FH-ingur! Mættu og taktu þátt í gleðinni með okkur.

Gleðilega hátíð!
Við erum FH!

Aðrar fréttir