Upphitun: FH – Afturelding, sunnudaginn 17. september kl. 19:30

Fyrsti heimaleikur FH-inga í Olísdeild karla fer fram annað kvöld, og er sá leikur ekki af verri endanum. Strákarnir okkar taka þá á móti liði Aftureldingar, sem hefur styrkt sig vel í sumar. Það er því um sannkallaðan stórleik að ræða milli tveggja liða, sem eru meðal þeirra allra bestu í deildinni.

Afturelding

Mótherjar morgundagsins, Afturelding úr Mosfellsbæ, er eitt þeirra liða sem styrkti sig hvað mest fyrir átök vetrarins. Hópur þeirra er stór og góður, og eiga þeir í það minnsta tvo góða leikmenn í hverri stöðu. Eftir að hafa verið nálægt titlum á síðustu leiktíðum eru menn orðnir þyrstir í gull á bökkum Varmár og ætla sér fyrir vikið stóra hluti í ár.

Best er að renna aðeins yfir helstu breytingar í liði UMFA. Snemma eftir síðasta tímabil varð ljóst að Davíð Hlíðdal Svansson ætlaði sér ekki að spila áfram með UMFA. Upphaflega stóð til að markvörðurinn knái myndi hætta handknattleiksiðkun í efstu deild, en hann hætti síðan við að leggja punghlífina á hilluna og gekk til liðs við Víking. Mosfellingar fengu tvo frambærilega markmenn í hans stað, þá Lárus Helga Ólafsson úr Gróttu og Kolbein Aron Ingibjargarson frá ÍBV.

Bróðir Lárusar, Þorgrímur Smári, gekk einnig til liðs við UMFA. Hann er góður útileikmaður sem oft hefur verið drjúgur í Olísdeildinni, en hann lék í Noregi síðasta vetur. Hann kemur í stað Hafnfirðingsins og FH-ingsins Guðna Kristinssonar, sem mun ekki spila með Mosfellingum í vetur eftir að hafa verið þar um nokkurt skeið.

Hér skorar Jóhann Karl framhjá Davíð Svanssyni í undanúrslitunum síðasta vor. Davíð er ekki á milli stanganna hjá UMFA þetta tímabilið. / Mynd: Jói Long

Eins frambærilegir og þessir þrír leikmenn eru, þá kom besta viðbót Mosfellinga í formi línumannsins Einars Inga Hrafnssonar. Einar Ingi, sem lék við góðan orðstír í Þýskalandi, Danmörku og Noregi á sínum atvinnumannsferli, kemur til með að verða einn af betri línumönnum Olísdeildarinnar í vetur. Hann var það svo sannarlega áður en hann hélt út. Það er því mikil breidd á línunni hjá Aftureldingu, því fyrir eiga þeir annan góðan í Pétri Júníussyni. Ekki amalegt.

Einar Ingi átti góðan dag með 5 mörk í endurkomuleik sínum með Aftureldingu, gegn ÍBV á fimmtudaginn síðastliðinn, en það dugði ekki til. Fyrsta deildarleik sínum á tímabilinu töpuðu Mosfellingar gegn feiknasterku liði Eyjamanna, 23-27. Jafnt var í hálfleik, en í byrjun síðari hálfleiks tóku gestirnir úr Eyjum öll völd á vellinum og lögðu grunninn að sigri sínum.

Auk Einars Inga var hægri skyttan Birkir Benediktsson atkvæðamikill á fimmtudag, en hann skoraði 6 mörk. Þann dreng ber að passa vel í leiknum á morgun. Sá hefur hæð, kraft og gott skot. Birkir var ein besta skytta deildarinnar fyrri part síðasta tímabils, en missti út stóran hluta þess vegna meiðsla. Það var skarð fyrir skildi hjá Aftureldingu, jafnvel þótt þeir hafi endurheimt atvinnumanninn Ernir Hrafn Arnarson í janúarglugganum.

Ernir Hrafn er besti leikmaður Aftureldingar. Hér er hann í baráttunni við Ásbjörn í undanúrslitum síðasta vor. / Mynd: Jói Long

Ernir Hrafn, sem er uppalinn í Aftureldingu, lék afar vel eftir að hann sneri til baka í Olísdeildina í janúar. Hann hefur lengst af á sínum ferli spilað sem hægri skytta, en í upphafi þessa tímabils virðist sem Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, ætli honum það hlutverk að stýra leik liðsins af miðjunni í vetur. Örvhentur leikstjórnandi – fyrirkomulag sem sést ekki allt of oft.

Að öllum líkindum er það hárrétt fyrirkomulag. Þú spilar að sjálfsögðu bestu leikmönnum liðsins saman, ef þú mögulega getur. Ernir Hrafn hefur útsjónarsemina í það að spila sem leikstjórnandi, og kraftmikill Birkir er óhemju mikilvægur liðinu. Þessa menn ber sérstaklega að varast.

En ef það er eitthvað lið í þessari deild sem hefur burði í að verjast þessum tveimur, þá eru það okkar elskulegu, ríkjandi deildarmeistarar…

FH

Það verður ekki annað sagt um FH-liðið en að það hafi mætt vel gírað til leiks í fyrsta leik Olísdeildarinnar á fimmtudag. Varnarleikurinn sem boðið var upp á var óaðfinnanlegur, og Ágúst Elí var í fantaformi á bak við múrinn. Þá var ekki hægt að kvarta yfir sóknarleik FH liðsins – atlögur liðsins voru á köflum afar fallegar á að líta og þá fengum við okkar skerf af hraðaupphlaupum.

Gangi þér vel að komast hér í gegn. / Mynd: Brynja T.

Hvítklæddir höfðu afgerandi 15 marka forskot í hálfleik, og mátti því ætla að sigurinn væri í húfi þegar menn gengu til búningsherbergja. Þegar svo er verður alltaf hætt við því, að lið með viðlíka yfirburði slaki á klónni og missi þ.a.l. hluta forystunnar.

FH-ingar virtust ekki hafa neinn áhuga á því þegar seinni hálfleikur hófst. Okkar menn héldu dampi, bættu í forystuna og þegar 10 mínútur voru til leiksloka var munurinn orðinn 22 mörk (16-38). Fyrst þá dróg aðeins úr FH-liðinu. Framarar gengu á lagið og náðu að fegra stöðuna aðeins, en engu að síður var risasigur FH-liðsins staðreynd.

Eins og áður sagði var varnarleikurinn frábær í leiknum, og það gefur tilefni til mikillar bjartsýni. Breiddin í varnarleik liðsins er einfaldlega mögnuð. Hún virkaði samstillt og hreyfanleg frá upphafi, sem olli liði Fram miklum vandræðum. Það sama var uppi á teningunum í leikjunum gegn Dukla Prag, og er því engin tilviljun. Ágúst Elí varði 20 skot í markinu, og lokaði því hreinlega á löngum köflum. Hann átti einnig frábæra leiki gegn Tékkunum og virkar tilbúinn í að taka næsta skref upp á við.

Arnar Freyr er mikilvægur hlekkur í sóknarleik FH-liðsins, en er þar að auki besti varnarbakvörður deildarinnar / Mynd: Brynja T.

Við verðum að fá sams konar varnarleik og markvörslu ef við eigum að sigra Aftureldingu annað kvöld. Mosfellingar mæta í Krikann með gott lið sem þó er smá sært eftir slæm úrslit síðustu vikna – liðið tapaði báðum leikjum sínum gegn Bækkelaget frá Noregi í EHF-bikarnum, og svo fylgdi tapið gegn ÍBV. Þar að auki bætist ofan á, að FH-liðið sló UMFA út úr úrslitakeppninni síðasta vor. Mosfellingar hafa því margt að sanna annað kvöld. Við verðum að mæta þeim með fullri hörku.

Ef sóknarleikurinn er á sama stigi annað kvöld og hann var á fimmtudag, þá eiga FH-ingar í stúkunni von á frábærri skemmtun. Strákarnir voru ofboðslega góðir. Ásbjörn Friðriksson stýrði leiknum af mikilli festu og skoraði öll þau mörk sem honum sýndist. 11 mörk, þar af 4 úr vítum – óaðfinnanlegur leikur hjá fyrirliðanum. Ísak Rafnsson átti sömuleiðis frábæran leik, reyndar svo góðan að hann fékk 10 í einkunn frá HBStatz og Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport. Með sín 10 mörk og ógrynni blokkeringa í vörninni tilkynnti Ísak um komu sína í deildina þetta árið með miklum hvelli.

Annars fengum við mörk alls staðar frá. Einar Rafn og Óðinn Þór skiluðu sínu að vanda með 7 og 6 mörk, stöðugleikinn uppmálaður. Arnar Freyr skoraði 4 mörk úr vinstra horninu og stóð vaktina í vörninni einstaklega vel, þar sem hann var lengst af með nafna sinn Birki, besta leikmann Framliðsins, í gjörgæslu.

Strákarnir okkar eru hrein skemmtun. Við eigum nautsterkt lið, sem vann deildarmeistaratitilinn á síðustu leiktíð og virðist ætla að taka enn frekari skref fram á við saman. Við hvetjum alla FH-inga til að mæta í Kaplakrika annað kvöld, og taka þátt í gleðinni með okkur. Fátt er skemmtilegra en handbolti spilaður á háu stigi, og það geta okkar menn sannarlega boðið upp á.

Hamingjan er hér. / Mynd: Brynja T.

Sjáumst í pöllunum annað kvöld kl. 19:30.

Við erum FH!

Aðrar fréttir