Upphitun: FH – Akureyri, 5. mars 2017

Það er ekki nógu mikið talað um hversu jöfn botnbarátta Olísdeildarinnar er þetta tímabilið. Já, Akureyri sitja neðstir eins og er. En þeir eru ekki nema tveimur stigum á eftir Selfossi, sem eru í sjötta sæti. Botnliðin fjögur eru öll með fimmtán stig og eru þjálfarar þeirra allra búnir að segja í nýlegum viðtölum að það eina sem þýði sé að mæta dýrvitlausir í þær sjö umferðir sem eftir eru. Einmitt þess vegna má gera ráð fyrir Akureyringum hálfbrjáluðum í leikinn, með ræðu Sverre þjálfara ómandi í eyrunum.

FH - Akureyri, 5. mars 2017

Það er eiginlega hálf fáranlegt að Akureyringar séu neðstir í þessari deild. Það eru fá lið sem einkennast jafnmikið af baráttu gleði og Norðanmenn, en þeir hafa verið óheppnir með meiðsli og lent í því oftar en einu sinni að vera hrikalega óheppnir í leikjum sínum. Að vanmeta þá væri einfaldlega stórhættulegt.

Okkar menn náðu að hefna sín á Völsurum í síðustu umferð, þó þeir hafi oft verið meira sannfærandi en í þeim leik. En það þarf líka að vinna þegar menn eru ekki að spila sinn besta leik og strákarnir eru núna komnir með fjóra sigra í röð í deild og eru ekki nema tveimur stigum frá toppsætinu. Í hvorugum Vals leiknum náðu okkar menn að sýna þann frábæra leik sem þeir voru að sýna í fyrstu leikjunum eftir áramót, og væri kærkomið að sjá þá spila eins og við vitum að þeir geta gert.

Deildin er stóra málið á dagskrá næstu vikurnar. Eyjamenn og Mosfellingar eiga góðan séns á að ná okkar mönnum ef við förum að misstíga okkur, en á sama skapi er örstutt í Haukana fyrir ofan okkur. Hvert einasta auka sæti í deildinni gefur verðmætan heimaleikjarétt í deildinni, svo ekki sé nú talað um hversu fallegur deildarbikarinn yrði í glugganum í Kaplakrika.

Þetta er ekki flókið. Akureyringar eru hættulegir en liðið í öðru sæti á alltaf að vinna botnliðið. Mætum upp í Krika, og styðjum FH-inga til sigurs. Er eitthvað skemmtilegra á sunnudagseftirmiðdegi?

Við erum FH!

Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir