Upphitun: FH – Akureyri, N1-deild karla

Upphitun: FH – Akureyri, N1-deild karla

Þriðja umferð N1-deildar karla hefst mánudaginn næstkomandi er FH og Akureyri eigast við í þriðja sinn á einni viku, að þessu sinni í íþróttahúsi okkar FH-inga í Kaplakrika. Leikirnir tveir fyrir norðan enduðu báðir með tapi, og þýddi seinna tapið að FH-ingar féllu niður í 4. sæti deildarinnar – einungis stigi á undan Haukum. Haukar eiga leik gegn botnliði deildarinnar, Selfossi, á sama tíma og FH-ingar leika gegn Norðanmönnum og má fastlega búast við sigri þeirra í þeirri viðureign. FH-ingar verða því að vinna sigur í Krikanum ef þeir ætla að halda í eitt af efstu fjórum sætunum. Nú er að duga eða drepast.

Akureyri
Akureyringar sitja sem fyrr í efsta sæti N1-deildar karla, nú með 6 stiga forskot á næsta lið. Þeir hafa unnið 12 leiki, gert eitt jafntefli en tapað einum leik og eru því með 25 stig.

Norðanmenn eru orðnir FH-ingum nokkuð vel kunnir, enda hafa liðin mæst tvisvar í vikunni á heimavelli Akureyringa – Höllinni. Fyrri leikur liðanna, sem var í undanúrslitum bikarsins, endaði með þriggja marka sigri heimamanna (23-20). Seinni leikurinn, sem leikinn var í gærkvöldi, endaði með eins marks sigri Akureyringa, 25-24. Það má því segja að Akureyringar hafi hingað til haft tangarhald á FH-ingum, en þeir unnu einnig viðureign liðanna í Krikanum í nóvember. Fyrir þær sakir hljóta FH-ingar að mæta dýrvitlausir til leiks á mánudaginn.

Akureyringar hafa yfir gríðarlega sterku byrjunarliði að skipa og er þar valinn maður í hverju rúmi. Fyrst skal nefna markverjuna Sveinbjörn Pétursson, sem hefur verið fremstur meðal jafningja í deildinni í vetur og var í æfingahóp landsliðsins fyrir HM sem fór fram í Svíþjóð í janúar. Hann reynist þeim ávallt drjúgur og á afar sjaldan slæman dag. Það var einmitt hann sem kom í veg fyrir að FH-ingar næðu jöfnunarmarki á síðustu mínútu leiksins í gærkvöldi, en alls varði hann 19 skot í leiknum.

Hornamenn þeirra, Oddur Gretarsson og Bjarni Fritzson, eru ávallt fyrstir fram þegar skot andstæðinganna hafna í höndum markvarðarins og eru jafnan markahæstir í leikjum liðsins. Bjarni hefur þó upp á síðkastið leikið í hægri skyttu sökum veikinda hins efnilega Geirs Guðmundssonar, en hann greindist með blóðtappa í hægri handlegg í janúarmánuði og leikur því sennilega ekki með Akureyrarliðinu það sem eftir lifir leiktíðar. Það hlutskipti virðist henta Bjarna ágætlega, en hann var m.a.s. markahæstur í liði norðanmanna í gærkvöldið með 9 mörk. Daníel Einarsson, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar, hefur tekið stöðu hans í horninu.

Í stöðu vinstri skyttu leikur hinn ungi og hæfileikaríki Guðmundur Hólmar Helgason, en hann er búinn að vera gríðarlega stöðugur með Akureyringum í vetur þrátt fyrir ungan aldur (Guðmundur verður 19 ára síðar á þessu ári). Hægra megin er svo Bjarni eins og áður segir.

Í leikstjórnanda er Heimir Örn Árnason, fyrrverandi leikmaður Vals og Fylkis. Hann stýrir liði sínu eins og herforingi og skorar jafnan sinn skerf af mörkum. Þennan mann þarf að stoppa ef sigur á að vinnast.  Síðan ber að nefna varnartröllið Guðlaug Arnarsson, sem stýrir gangi mála í illviðráðanlegum varnarleik Akureyrar. Hann ber einnig að varast í hraðaupphlaupum, en Guðlaugur leynir einmitt dálítið á sér þegar kemur að því að vera fyrstur fram.


Baldvin skoraði 7 mörk í leik liðanna í deildarbikarnum

Fyrri viðureignir liðanna

20. nóvember 2010, Kaplakrika: FH 25-33 Akureyri (N1-deildin)
FH-ingar voru langt frá sínu besta í þessum leik, einkum í seinni hálfleik. Akureyringar voru mun grimmari og unnu að lokum verðskuldaðan 8 marka sigur, 25-33. Markahæstur FH-inga var Ólafur Gústafsson með 7 mörk en næstur honum kom nafni

Aðrar fréttir