
Upphitun: FH – Dukla Prag, laugardaginn 9. september kl. 17:00
Eftir 6 ára bið er Evrópuboltinn kominn í Krikann á ný. Strákarnir okkar tryggðu sér Evrópusæti með frábærum frammistöðum á síðasta tímabili, og nú er kominn tími til að njóta. Þetta eru leikirnir sem menn vilja spila.
FH og Dukla Prag, risar í handknattleiksheimi sinna landa, leiða saman hesta sína öðru sinni. Þú vilt ekki missa af þessu.
Ferð síðustu helgar til Prag hefði varla getað farið betur. Það væri frekja að ætlast til þess. Á erfiðum útivelli á erlendri grundu leit FH-liðið afar vel út gegn vel þjálfuðum Tékklandsmeisturunum, sem fengu góðan stuðning frá heimamönnum. FH-liðið mætti einfaldlega tilbúið í verkefnið. Strákarnir byrjuðu frábærlega og skoruðu þrjú fyrstu mörkin – engin merki um sviðsskrekk þar á bæ.
Í hálfleik voru okkar menn með nauma eins marks forystu, 13-14, sem var nokkuð sanngjarnt miðað við gang leiksins. Við höfðum haft frumkvæðið, en sterkt lið Dukla gaf ekkert eftir og hékk aftan í. Það var hins vegar í byrjun síðari hálfleiks sem að töfrarnir byrjuðu að gerast fyrir alvöru. FH-liðið skellti þá hreinlega í lás, líkt og oft mátti sjá á síðasta tímabili, og í kjölfarið sallaði sóknin inn mörkum á lið Dukla sem vissi hreinlega ekki sitt rjúkandi ráð.

Fógetinn stýrði sínu liði með festu í Prag / Mynd: Robert Grim
Mest náði FH-liðið 9 marka forystu, hreint út sagt ótrúlegar tölur. Þá var hins vegar komið að Tékklandsmeisturunum að sýna styrk sinn. Með mikilli þrautseigju á lokakaflanum tókst liði Dukla að minnka muninn úr 9 mörkum, sem hefði fyrir flestum þýtt nánast tapað einvígi, niður í 3 mörk. Þannig var staðan þegar flautað var til leiksloka, lokatölur 27-30 fyrir FH og einvígið enn galopið.
Í viðtölum eftir leikinn tók Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH-liðsins, fram að fúlt hefði verið að missa niður það stóra forskot sem upp vannst í síðari hálfleik, en engu að síður hafi þriggja marka sigur verið kærkominn. Eins og flestir FH-ingar hefur Halldór varla gert ráð fyrir því, að FH-liðið myndi sýna jafn mikla yfirburði á velli og það gerði á köflum í síðari hálfleik. Ekki gegn þetta sterkum andstæðingi. Þetta gefur ákveðna vísbendingu um það, hversu langt FH-liðið er komið á þessum tímapunkti – hversu tilbúið það virkar í þetta tímabil.

Allir sáttir með góðan sigur, en þessu verkefni er ekki lokið! / Mynd: Robert Grim
Formið var frábært. Varnarleikurinn og markvarslan á bakvið – geggjun á tímabili. Sóknarleikurinn gekk eins og smurð vel, við fengum mörk alls staðar frá og gladdi þar sérstaklega augað að sjá Ísak Rafnsson spila nærri allan leikinn og setja 5 slummur. Leit afar vel út í þessum leik. Það er góðs viti, enda vitum við öll hvers Ísak er megnugur þegar hann er upp á sitt besta.
FH-liðið er tiltölulega óreynt, og bar aðeins á því á lokakaflanum. Það var að hluta til þess vegna, sem Dukla tókst að gera þetta aftur að einvígi. Þeir eru ekki margir í þessu liði, ef nokkur, sem hafa áður upplifað það að spila á erlendri grundu fyrir framan fullt hús af stuðningsmönnum andstæðingsins, og þurfa þar að sækja úrslit. Nú hefur það verið lagt inn á reikning með prýðisgóðum vaxtakjörum. Strákarnir eru og verða reynslunni ríkari af þessari upplifun, þetta mun styrkja þá í komandi verkefnum og þar með talinn er leikurinn á morgun.

Við viljum annan svona annað kvöld, en til þess að svo megi verða þurfum við ykkar stuðning / Mynd: Robert Grim
Þeir hafa spilað fyrir framan fullt hús af stuðningsmönnum andstæðinganna og haft sigur. Lofum þeim nú að þeir fái að spila fyrir framan fullt hús af sínum eigin og klára þetta dæmi. Hjálpum þeim að komast yfir þennan þröskuld og áfram í næsta verkefni, sem yrði gegn sterku liði St. Pétursborgar frá Rússlandi. Höldum þeim á tánum. Hvetjum þá áfram með öllum okkar mætti, leyfum þeim að finna að við stöndum við bakið frá þeim frá fyrsta degi. Gerum allt fyrir FH.
Leikurinn hefst kl. 17 á morgun og fer fram í vöggu handknattleiksíþróttarinnar, Kaplakrika. Þar verður um að ræða leiftrandi háskerpu og HD, bestu mögulegu myndgæði fást ævinlega af pöllunum í Krikanum – um það verður ekki deilt!
Við ætlum að byrja snemma og keyra þetta handboltatímabil almennilega í gang. Húsið opnar kl. 15 og eru allir vinir velkomnir. FH elskar þig.
Við erum FH!