Upphitun: FH – Fjölnir, Grill 66 deild kvenna, fimmtudaginn 4. október kl. 20:00

Stelpurnar okkar mæta til leiks á ný annað kvöld eftir tveggja vikna hlé, er þær taka þá á móti liði Fjölnis í Grill 66 deildinni. Vonast þær til að byggja ofan á góðum sigri sem vannst í síðustu umferð, en gestirnir eru enn í leit að sínum fyrstu stigum á tímabilinu.

Lið Fjölnis lauk síðasta keppnistímabili í neðsta sæti Olís-deildarinnar með 6 stig í hattinum, jafnmörg stig og lið Gróttu en lakara markahlutfall. Í kjölfarið hefur liðið gengið í gegnum töluverðar mannabreytingar og munar þar mestu um brotthvarf Andreu Jacobsen og Berglindar Benediktsdóttur – en þær voru tveir langmarkahæstu leikmenn liðsins á síðustu leiktíð. Andrea hélt utan til Svíþjóðar, þar sem hún mun spila í vetur, og Berglindi misstu Fjölnisstelpur yfir til Íslandsmeistara Fram. Þær tvær skoruðu 188 marka Fjölnis á síðustu leiktíð, eða 43,3%. Það munar um minna.

Í Helenu Ósk Kristjánsdóttur missti Fjölnisliðið einnig frá sér einn atkvæðamesta leikmann liðsins, en hún gekk til liðs við HK. Þá réru markverðirnir Saga Sif Gísladóttir og Saga Sif Helgadóttir báðar á ný mið, sú fyrrnefnda leikur nú með Haukum en sú síðarnefnda með Fram.

Í staðinn fengu Fjölnisstelpur þær Auði Þórðardóttur og Ósk Hind Ómarsdóttur frá Val, Sirrý Rúnarsdóttir kom frá ÍBV og þá skipti Sara Margrét Brynjarsdóttir í Fjölni úr Víkingi.

Tímabilið hefur ekki farið nægilega vel af stað hjá þeim gulklæddu, en þær hafa mátt sætta sig við tap í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni. Í fyrsta leik máttu þær sætta sig við 7 marka tap gegn nágrönnunum í Fylki, og í öðrum leik var þriggja marka tap gegn Gróttu niðurstaðan. Er þessi byrjun eflaust mikil vonbrigði í Grafarvoginum, en liðinu var spáð 3ja sæti deildarinnar í byrjun leiktíðar.

Ábyrgð á markaskorun virðist hafa færst yfir á leikmenn sem fyrir voru í félaginu á síðustu leiktíð, allavega í fyrstu tveimur leikjum liðsins. Ólöf Ásta Arnþórsdóttir hefur tekið við keflinu sem aðalmarkaskorari Fjölnisliðsins (í það minnsta til þessa), en hún hefur skorað 18 mörk í þessum tveimur leikjum – 9 mörk í leik, líkt og glöggir merkja. Til samanburðar þá skoraði Ólöf Ásta 31 mark í 17 leikjum á síðustu leiktíð, eða 1,82 að meðaltali. Sú hefur stigið upp! Ætla ég rétt að vona að okkar konur séu vel meðvitaðar um hættuna sem af henni stafar, og taki á málum í samræmi við það. Hef ekki trú á öðru.

Lok, lok og læs / Mynd: Brynja T.

Varnarleikur FH-liðsins í síðasta leik, sigurleiknum gegn Fram U, styrkir allavega vonir þess efnis. Stelpurnar voru frábærar á þeim enda vallarins – vörnin og svo Ástríður Þóra í rammanum. Vonandi verður áframhald á því í þessum leik, og raunar öllum leikjum liðsins í vetur. Við vitum það jú, að sóknarleikur vinnur leiki en vörn vinnur titla.

FH-liðið endurheimtir einmitt öflugt vopn í sókarleik sínum annað kvöld, en Sylvía Björt Blöndal verður væntanlega með á ný eftir leikbann sem hún tók út gegn Fram U. Það eru góð tíðindi, því sú getur skorað í massavís. Fanney Þóra Þórsdóttir og Britney Cots leystu skyttustöðurnar að vísu með stakri prýði í þeim leik, og stafaði af þeim stöðug ógn. Svona er nú breiddin góð í liði FH.

Við vitum hvað stelpurnar okkar geta, og spili þær líkt og þær gerðu gegn Fram U þá eru horfurnar góðar. Ekki síst þar sem leikið er á heimavelli, fyrir framan okkar fólk. En er ekki oft talað um þá hættu, sem stafar af særðu dýri?

Þær gulklæddu hafa orðið fyrir skakkaföllum. Þær hafa misst öfluga leikmenn, og tapað fyrstu tveimur leikjunum í deildinni. En hvaða máli skiptir það, þegar út á gólf er komið? Leikurinn byrjar 0-0, og sá sem vill sigurinn meir uppsker hann oftar en ekki á endanum.

Sýnum hungur, kjark og vilja – innan valla sem utan. Höldum stigunum tveimur eftir heima.

Við erum FH!

Aðrar fréttir