Upphitun: FH-Fram, Bikarúrslit 4. flokks kvenna

Upphitun: FH-Fram, Bikarúrslit 4. flokks kvenna

Á sunnudaginn leikur lið 4. flokks kvenna í sjálfum bikarúrslitaleiknum gegn liði Fram. Leikurinn hefst kl. 13:30 og er staðsettur í Laugardalshöllinni. Þetta verður án efa hörkuleikur enda koma bæði lið til með að selja sig dýrt, þar sem að eitt stykki bikar er í húfi.

Fram
Lið Framara er í 3. sæti 2. deildar með 18 stig, 2 stigum á eftir toppliði Vals en á þó 2 leiki til góða. Liðið hefur unnið 9 leiki en tapað einungis einum leik, og er því til alls líklegt.

Á leiðinni í bikarúrslitin hefur liðið sigrað bæði B-lið og A-lið Fylkis auk þess sem að liðið sigraði Selfoss og svo Stjörnuna í undanúrslitum.

FH
Lið FH situr í 3. sæti 1. deildar með 18 stig eftir 13 leiki, 6 stigum á eftir toppliði Gróttu og 3 stigum á eftir liði ÍR, sem að var einmitt andstæðingur liðsins í undanúrslitum bikarsins. FH-stelpur eiga þó einn leik inni á Gróttu og 3 leiki á ÍR.

Stelpurnar hafa um langt skeið verið með betri liðum landsins í þeirra aldursflokki og hafa margsinnis keppt um titla, oft unnið en stundum tapað. Liðið hóf þessa keppni með leik gegn A-liði HK í Digranesinu og vann þar eins marks sigur, 20-19. Í 8-liða úrslitum lék liðið gegn Víkingi í Víkinni og vann þar öruggan 7 marka sigur, 24-17. Í undanúrslitum keppninnar lék liðið gegn ÍR í Austurbergi og vann þar eins marks sigur, 15-14, í gífurlega jöfnum og spennandi leik.

FH-stelpurnar eiga því góðan möguleika á því að ná í 1 stk. dollu á sunnudaginn. Við á FH.is viljum hvetja alla FH-inga til að mæta á leikinn og styðja stelpurnar, þær eiga það svo sannarlega skilið. Áfram FH!

Aðrar fréttir