Upphitun: FH-Fram, Eimskips-bikar kvenna

Upphitun: FH-Fram, Eimskips-bikar kvenna

Það er svo sannarlega stutt stórra högga á milli í Krikanum! Í gær lék karlalið félagsins gegn Haukum, sem að var eins og allir vita gríðarlega spennandi og jöfn viðureign sem okkar menn töpuðu, því miður. En nú skulu FH-ingar taka gleði sína á ný, því á morgun fer fram stórleikur í Krikanum!

Leikurinn sem að um ræðir er leikur meistaraflokks kvenna við Fram í undanúrslitum Eimskips-bikarsins. Það má búast við gríðarlega spennandi viðureign, enda koma bæði lið til með að selja sig dýrt. Lið FH lék í úrslitaleik bikarkeppninnar í fyrra og mun án efa berjast fyrir því að fá að gera það aftur.

Fram
Lið Fram situr í 2. sæti N1-deildarinnar með 27 stig eftir 16 leiki, 3 stigum á eftir ósigruðu toppliði Vals. Ljóst er að okkar stelpur eiga gríðarlega erfiðan leik fyrir höndum, enda hafa Framarar yfir sterku liði að skipa. Þar má nefna leikmenn eins og Stellu Sigurðardóttur og FH-ingana fyrrverandi Hildi Þorgeirsdóttur og Hafdísi Hinriksdóttur, sem að báðar léku með bikarúrslitaliði FH í fyrra.

Helsti styrkleikur Framara er góður varnarleikur, en Fram er það lið sem að hefur fengið á sig næstfæst mörk í deildinni. Sóknarleikur liðsins er að sama skapi öflugur, agaður og skipulagður. Lið FH þarf því að eiga góðan dag í vörn og sókn til að vinna sigur í Krikanum.

Fyrri leikir liðanna
Síðasti leikur liðanna fór fram í Krikanum þann 23. janúar síðastliðinn. Þá fóru Fram-konur með sigur af hólmi, 20-16. Þar síðasti leikur liðanna var í Safamýrinni en þar unnu Fram-konur öruggan sigur, 32-24.

FH
Lið FH situr í 5. sæti deildarinnar með 14 stig eftir 16 leiki, 8 stigum á eftir liði Hauka sem að er í 4. sæti. Liðið hefur oft á tíðum sýnt flotta takta, unnið flest öll liðin sem að sitja fyrir neðan sig en ekki alveg náð að stríða efri liðunum eins og þær hefðu viljað. Þó er ljóst að ef liðið nær upp góðum leik, varnarlega og sóknarlega, á það í fullu tré við toppliðin.

FH-ingar komust í undanúrslitaleikinn með öruggum sigri á liði KA/Þórs, 33-25, í Kaplakrikanum.  Sá sigur var aldrei í hættu, liðið spilaði flottan sóknarleik og kafsigldi að lokum Norðanmennina.

Síðasti leikur FH-inga var gegn Fylki uppi í Árbæ. Þar töpuðu þær með fjórum mörkum, 21-17. Síðasti heimaleikur liðsins var gegn Stjörnunni en þar töpuðu þær með 10 mörkum, 33-23.

Við erum því að tala um frábæra viðureign tveggja flottra liða. Í bikarkeppninni eru allir jafnir og allt getur gerst, og með stuðningi ykkar eiga stelpurnar góða möguleika á að komast í úrslitaleikinn. Við viljum því hvetja alla að mæta í Krikann á morgun kl. 19:30 og styðja ykkar stelpur. Áfram FH!

Aðrar fréttir