Upphitun: FH – Fram, fimmtudaginn 24. september kl. 19:45

Strákarnir okkar leika annan heimaleik sinn á keppnistímabilinu í kvöld, en þá koma Framarar í heimsókn í þriðju umferð Olísdeildar karla.

Safamýrarpiltar luku síðasta keppnistímabili í 9. sæti Olísdeildarinnar, 1 stigi fyrir neðan lið Stjörnunnar í 8. sæti en 10 stigum frá fallsæti. Of góðir fyrir Grillið, það var varla nokkur spurning, en ef til vill hálfu númeri of litlir fyrir stóru strákana. Góðar styrkingar hafa verið sóttar í sumar, sem eiga að færa Framara nær þeim stað sem þeir vilja vera á. Þeir fengu fínustu sendingu frá Færeyjum, í þeim Rögva Dal Christiansen og Vilhelm Poulsen. Hinn efnilegi Andri Már Rúnarsson skipti úr bláu í blátt, kom til Stjörnunnar frá Fram, og þá sneri Elías Bóasson aftur heim eftir nokkurra ára veru í Breiðholti. Stærsti bitinn er óumdeilanlega leikstjórnandinn Breki Dagsson, sem borið hefur Fjölni á herðum sér undanfarin ár. Framarar hafa lítið misst í staðinn, en þar ber helst að nefna að Andri Heimir Friðriksson réri á önnur mið og er nú spilandi aðstoðarþjálfari ÍR-inga. Þá urðu breytingar í brúnni, en Sebastian Alexandersson stýrir nú Safamýrarskútunni og hefur Guðfinn Kristmannsson sér til aðstoðar.

Framarar hafa eitt stig fengið úr fyrstu tveimur leikjum sínum á þessu tímabili. Í fyrstu umferð máttu Safamýrarpiltar sætta sig við tveggja marka tap í KA-höllinni, en í síðasta leik gerðu þeir jafntefli við gríðarsterkt lið Aftureldingar. Sýndi seinni leikurinn einkar vel, að Framarar eiga að geta betur en síðasta vetur. Góður varnarleikur verður áfram í hávegum hafður, en á síðasta tímabili fengu Framarar næstfæst mörkin á sig í deildinni, eða 25.3 að meðaltali í leik. Ekkert lið skoraði aftur á móti færri mörk en Framarar að meðaltali (24.0). Sóknarlega veltur velgengni þeirra sem fyrr að miklu leyti á frammistöðu Togga byssu (Þorgríms Smára Ólafssonar), en með komu Breka fjölgar vopnum Framara og eru þeir því ekki jafn háðir einum manni og áður var. Í mínum huga er það ekki nokkur spurning, að Safamýrarpiltar geta staðið í hvaða liði sem er í þessari deild á góðum degi. Allar forsendur eru fyrir því, að gera betur en undanfarin ár.

Liðin tvö leiddu hesta sína einungis einu sinni saman á síðustu leiktíð. Leikurinn reyndist verða sá síðasti sem Guðmundur Helgi Pálsson stýrði Framliðinu í, en þar vann FH sannfærandi 10 marka sigur. Lokatölur 36-26, FH í vil, eftir að okkar menn höfðu leitt í hálfleik með 7 marka mun. Þar fór Ásbjörn Friðriksson á kostum í liði FH og skoraði 10 mörk, og þá var Phil Döhler frábær á milli stanganna með 18 skot varin. Síðari leikur liðanna átti að verða sá síðasti í deildarkeppninni, en vegna veirunnar var hann aldrei leikinn. Þar hefði eflaust verið hart barist, því að í umferðunum á undan höfðu Framarar náð fínum úrslitum undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar.

Fógetinn hefur farið á kostum í fyrstu leikjum vetrarins / Mynd: Jói Long

Strákarnir okkar máttu heldur betur hafa fyrir sínum fyrsta sigri á tímabilinu, er þeir lögðu nýliða Þórs að velli síðastliðinn fimmtudag. Lönduðu okkar menn 5 marka sigri (19-24) í leik, sem var jafnari en þær tölur gefa til kynna. Þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af leiknum munaði aðeins einu marki á liðunum, sem kynni að koma einhverjum á óvart í ljósi þess að FH-liðið var fyrirfram talið mun sigurstranglegra. Kannski er það til marks um það, að deildin sé að styrkjast, því þetta er ekki einsdæmi í þessum fyrstu umferðum. Haukar mörðu sigur á nýliðum Gróttu. Afturelding rétt skreið fram úr Þórsurum á heimavelli. Patrekur og hans menn máttu sætta sig við Patt-stöðu gegn Seltirningum, og það sama má segja um mikið bætt lið Mosfellinga gegn Frömurum. Alls staðar (eða því sem næst) mega menn hafa fyrir sínu, og hér verður engin undantekning þar á.

Við megum hvorki við værukærð né vanmati. Verði FH-liðið ekki á sínum degi, mega þeir eiga von á því að verða refsað. Svona verður þetta í vetur, því slíkur er styrkur deildarinnar. En þannig er það líka skemmtilegast. Hvað er gaman að því að vinna með vinstri? Von er á skemmtilegum handboltaleik, og það er mikið gleðiefni að við fáum að vera þátttakendur á pöllunum. Mætum, styðjum og hjálpum strákunum okkar að tengja saman sigra!

Við erum FH!

– Árni Freyr

 

Aðrar fréttir