Upphitun: FH – Fram, miðvikudaginn 29. nóvember kl. 19:30

Það þarf að fara aftur til 22. október 2015 til að finna síðasta leik sem Fram vann gegn FH. Síðan þá hafa liðin leikið sex sinnum í öllum keppnum og hafa leikar farið svona: 26-43, 27-27, 28-32, 28-38, 29-28, 23-29. Fimm sigrar, eitt jafntefli og tveir sigrar með 10 eða meiri. Haldið þið að þeir séu ekki orðnir þreyttir á þessu, haldið þið að þeir séu ekki búnir að bíða síðan í fyrstu umferð eftir að hefna þess þegar strákarnir okkar mættu í Safamýri og skoruðu 43 mörk? Haldið þið að þeir muni ekki mæta gjörsamlega dýrvitlausir í þennan leik, vitandi að FH-ingar eru nýkomnir úr Evrópuleik og með annan risa handan við hornið?

Þetta Fram-lið er ólíkindatól. Um þetta leyti fyrir ári spáðu margir þeim falli en sú varð ekki raunin, og eftir að þeir rétt slefuðu inn í úrslitakeppnina þá gerðu þeir sé lítið fyrir og slógu út Haukana, í einni af svakalegri úrslitarimmum sem sést hefur. Þeir virtust saddir af því að komast í undanúrslit og afrekuðu ekki mikið þar. Fyrir mót voru ekki miklar væntingar gerðar til þeirra og eftir fyrstu umferð sitja þeir í níunda sæti deildarinnar, með átta stig. Það óvæntasta á tímabilinu hjá þeim var þegar þeir tóku Aftureldingu en annars hafa úrslit meira eða minna verið eftir bókinni.

Ágúst Elí var stórgóður í Slóvakíu og verður lykilþáttur í Krikanum í kvöld / Mynd: Jói Long

Þeirra lang hættulegasti maður er Arnar Birkir Hálfdánarson, sem er komið með létt 62 mörk, ásamt Matthíasi Daðasyni sem er með 47. Það kemur reyndar smá á óvart að Arnar Birkir er aðeins með 20% marka liðsins – ekkert félag er með jafn fá mörk, hlutfallslega, frá sínum besta manni. Ungstirnið Viktor Gísli er ekki búið að ná að fylgja eftir flottum endi á síðasta tímabili en það sjá allir sem vilja að þar fer gífurlegt efni, og spurningin er hvenær hann dettur í hærri gír á þessu tímabili. Að vinna Fram snýst að miklu leiti um að halda þessum mönnum niðri, ÍR-ingar gripu t.d. nýlega til þess að taka Arnar hreinlega úr umferð nánast allan leikinn og uppskáru góðan sigur.

Public Joe verður í/á eld-línunni í kvöld / Mynd: Jói Long

Þá er það FH. Hingað til hefur liðið svarað því gífurlega vel að koma úr Evrópuleikjum í leik heima (ekki hægt að segja það sama um Evrópuvítakeppnir). Ágúst Birgison er (að mér best vitandi) ennþá frá en annars er hópurinn heill, nema einhverjir séu þreyttari en aðrir eftir ferðalagið. Svo er spurningin hvort að leikurinn um helgina vefjist eitthvað fyrir mönnum, en ég ef það. Þetta lið hefur sýnt það í vetur að þeir taka bara á einum leik í einu og vinna þá oftast. Eins grimmir og Framarar geta verið, þá eigum við alltaf að vinna þetta lið. En til þess þarf líka öflugan stuðning úr stúkunni og við ætlum að mæta og peppa þá inn í Evrópuveisluna um helgina!

Við erum FH!!!
– Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir