Upphitun: FH-Fram, N1-deild karla

Upphitun: FH-Fram, N1-deild karla

N1-deildin hefur göngu sína á ný eftir landsleikjahlé á morgun þegar öflugt lið Framara mætir í Krikann og leikur gegn okkar mönnum. Má þar búast við gríðarlega erfiðum leik enda hafa Framarar leikið vel að undanförnu og mæta væntanlega fullir sjálfstrausts í leikinn eftir stórsigur á nágrönnum sínum í síðasta leik fyrir frí.


Fram
Framarar sitja í 4. sæti deildarinnar með 4 stig eftir fjóra leiki. Hafa þeir unnið tvo leiki en tapað tveimur. Sigurleikir þeirra voru gegn Selfossi í fyrstu umferðinni (33-27) og gegn Val í síðustu umferð (40-23) en leikir gegn HK (29-33) og gegn Akureyri (31-32), en í síðarnefnda leiknum höfðu þeir haft yfirhöndina lengst af í leiknum.

Framarar eru án nokkurs vafa eitt best mannaða lið deildarinnar, með valinn mann í hverju rúmi. Magnús Gunnar Erlendsson stendur yfirleitt í markinu, en hann reynist Frömurum oft mjög drjúgur. Skyttur Framara eru einstaklega sterkar, en það eru þeir Róbert Aron Hostert og Jóhann Gunnar Einarsson sem manna þær stöður. Það að auki hafa Framarar lunkna hornamenn og klókan leikstjórnanda, norðanmanninn Halldór Jóhann Sigfússon.

Síðasti leikur Framara mun án alls vafa reynast þeim góður hvað sjálfstraust varðar, en í síðustu umferð mættu þeir nágrönnum sínum úr Val í Safamýrinni. Það má með sanni segja að Framarar hafi gjörsamlega skeint nágrönnum sínum í þeim leik – lokatölur 40-23, Fram í vil. Markahæstur Framara var hægri skyttan Jóhann Gunnar Einarsson með 11 mörk, augljóslega hættulegastur meðal jafningja. Þar að auki skoraði hægri hornamaður þeirra, Hafnfirðingurinn (og Haukarinn) Einar Rafn Eiðsson, 9 mörk.

Síðasti leikur liðanna
Liðin tvö mættust síðast í þriðja síðasta leik síðasta tímabils, en þá heimsóttu okkar menn Framara í Safamýrina. Framarar voru á þeim tímapunkti enn meðal neðstu liða, en höfðu sótt í sig veðrið frá því sem hafði verið fyrr um veturinn. Leikurinn sjálfur var jafn og spennandi, þótt FH-ingar hafi lengst af haft yfirtökin. Svo fór svo á endanum að FH-ingar unnu sanngjarnan sigur í strembnum leik, 29-28, en staðan í hálfleik var 16-15, Fram í vil.

FH
FH-ingar sitja eins og sakir standa í 3. sæti með 6 stig, jafnir HK-ingum að stigum í 2. sæti en tveimur stigum á undan Frömurum. Liðið er með næstbesta markahlutfallið í deildinni, +21, hefur unnið þrjá leiki en tapað einungis einum.

Eftir gríðarlega góða byrjun liðsins í deildarkeppninni þetta árið voru FH-ingar lamdir niður í jörðina í síðasta leik, en þá heimsóttu þeir HK-inga í Digranesið. Sá leikur tapaðist 35-32, en hafði hann verið kaflaskiptur frá upphafi til enda. HK-ingar voru lengst af með yfirhöndina en FH-ingar áttu kafla inn á milli sem litu virkilega vel út. Það er þó hægt að bæta margt eins og gefur að skilja, og er mikil þörf á því ætli strákarnir sér að sigra Framara annað kvöld.

FH-ingar urðu fyrir áfalli í síðustu viku þegar Logi Geirsson, leikstjórnandi liðsins, bættist við meiðslalistann margfræga. Meiddist hann í landsleik Íslendinga gegn Lettum í Laugardalshöllinni, en þar lék hann feiknavel og var vafalaust með betri mönnum Íslenska landsliðsins í þeim leik. Hann kenndi sér þó meins eftir leikinn og verður ekki með gegn Frömurum á morgun. Óvíst er hve lengi hann verður frá.  Mikið áfall, enda hefur Logi stýrt leik FH-inga eins og hershöfðingi það sem af er tímabils.

Að lokum vil ég hvetja alla til að mæta á völlinn á morgun að styðja okkar menn, klæddir í hvítt, að sjálfsögðu. Leikurinn hefst kl. 19:30, en það er að sjálfsögðu dagskrá fyrir leik – eitthvað sem ENGINN má missa af.

Við erum FH!

Aðrar fréttir