Upphitun: FH – Fylkir, föstudaginn 19. október kl. 19:30

Stærsti leikur tímabilsins til þessa fer fram á föstudagskvöld, þegar lið Fylkis úr Árbæ kemur í heimsókn. Er þar um að ræða leik tveggja efstu liða deildarinnar, en líkt og stelpurnar okkar hafa Fylkisstelpur hafið þetta tímabil að krafti og virðast ætla að vera í baráttunni um Olísdeildarsæti allt til loka.

Fylkisliðið er annað þeirra liða, sem enn hefur ekki tapað leik í Grill 66 deildinni á þessari leiktíð. Þrjá leiki hafa Árbæingar spilað og unnið þá alla. Fylkisliðið situr þ.a.l. á toppi deildarinnar ásamt okkar stelpum, ÍR og Fram U, sem öll hafa unnið sér inn 6 stig.

Báðum þeim liðum, sem féllu úr Olísdeildinni síðasta vor, hefur Fylkisliðið mætt og farið létt með. Í fyrsta leik lögðu þær að velli lið Fjölnis með 7 marka mun (31-24) og í síðustu umferð máttu Gróttustelpur sætta sig við 8 marka tap í Fylkishöllinni (21-13). Á milli þeirra leikja leiddu þær lið Stjörnunnar U til slátrunar – 17 marka sigur varð staðreynd í leik, þar sem Garðbæingar sáu aldrei til sólar.

Hér virðist því vera um að ræða sterkasta andstæðing, sem stelpurnar okkar hafa mætt til þessa. En hverjar skipa lið Fylkis?

Árbæingar féllu úr efstu deild vorið 2017, og við það missti liðið marga leikmenn úr herbúðum sínum – nánar tiltekið heila 14 leikmenn. Vissulega var þar um blóðtöku að ræða, en að sama skapi gullið tækifæri til að gefa efnilegum stelpum úr yngri flokkum félagsins tækifæri á stóra sviðinu. Nokkar þeirra eru í alvöru hlutverkum í liðinu í dag, meðal annars þær Elín Rósa Magnúsdóttir, Berglind Björnsdóttir og María Ósk Jónsdóttir.

FH-vörnin þarf að vera upp á sitt besta á föstudag / Mynd: Brynja T.

Ef horft er á tölfræði Fylkisliðsins til þessa, er samt eitt nafn sem strax stendur upp úr: Hrafnhildur Irma Jónsdóttir. Sú er búin að vera í ruglinu á þessari leiktíð. Hrafnhildur, sem er leikmaður U-19 ára landsliðsins, hefur skorað 34 mörk í þremur leikjum – 11,3 mörk að meðaltali! Lykillinn að því að sigra Fylki virðist liggja í því að stoppa Hrafnhildi, og treysti ég FH-vörninni til verksins. Nógu atkvæðamikil var hún þegar liðin mættust í fyrra – 6 mörk í sigurleik FH-liðsins í Fylkishöllinni, og 9 mörk í tapleik heima í Krikanum.

Fylkisliðið hefur farið af stað með látum í þessari Grill 66 deild. Þær eru á fleygiferð. Ef ef það er eitthvert lið, sem ég treysti til að rífa í handbremsuna hjá Árbæingum, þá er það FH-liðið.

Stelpurnar spiluðu á köflum frábæran handbolta gegn liði Stjörnunnar á föstudaginn síðastliðinn, og unnu fyrir vikið stóran og sanngjarnan sigur. Hefði hann getað verið stærri? Án nokkurs vafa, en það er ekki allt.

Mér þykir fyrir það fyrsta gaman að sjá, hversu góðar stelpurnar virðast vera varnarlega. Britney Cots hefur vissulega átt sinn þátt í því á þessu tímabili, en hennar naut ekki við síðastliðinn föstudag. Hvað gerðist? Maður kom í manns stað. Hildur Guðjónsdóttir spilaði fantavel við hlið Fanneyjar Þóru í miðri vörninni, það var ekki að spyrja að því.

Almennt er varnarlína FH-liðsins þétt og þar á bak við stendur stórgóður markvörður í Ástríði Þóru til reiðu. Ekki skemmir fyrir, að hún kann heldur betur að grýta boltanum fram, og úr því höfum við fengið eitt okkar hættulegasta vopn sóknarlega til þessa. Á enda sendinganna er nefnilega oftar en ekki Ragnheiður Tómasdóttir, löngu mætt. Þegar ég hugsa um það þá minnir þessi efnafræði þeirra á milli mig nokkuð á það sem við FH-ingar nutum góðs af karlamegin síðustu tvö tímabil, þegar Ágúst Elí og Óðinn Þór refsuðu andstæðingum trekk í trekk eftir góðan varnarleik okkar manna. Þetta eru auðveld mörk og verstu mörkin fyrir andstæðing að fá á sig – sumsé, vonandi sjáum við sem mest af þeim til frambúðar.

Þegar stelpurnar ná síðan upp sínu eðlilega flæði sóknarlega séð, er fátt sem andstæðingurinn getur gert. Embla Jónsdóttir hefur stýrt sóknarleiknum eins og hershöfðingi – ég fullyrði að enginn stendur henni á sporði þegar kemur að auga fyrir spili í þessari deild (sjá myndbrot hér að ofan) – og þá eru byssurnar okkar ávallt hlaðnar. Við erum að fá framlag frá hverjum einasta leikmanni til þessa, og það er afar góður eiginleiki fyrir lið að hafa.

Hingað til hafa Fylkisstelpur notið þess, að leika alla sína leiki á heimavelli. Liðum líður bölvanlega á dúknum, það er greinilegt. En í Mekka er spilað á parketi, og þar eru stelpurnar okkar öllum flísum kunnugar.

Svo eru þær líka bara drullugóðar í handbolta.

Ég ætlast til þess, að við veitum stelpunum okkar þann stuðning sem þær eiga skilið í þessum risaleik á föstudag. Það skiptir sköpum, að geta treyst á sitt fólk. Tökum stigin tvö og trónum á toppnum.

Við erum FH!

-Árni Freyr

 

Aðrar fréttir