Upphitun: FH – Fylkir, laugardaginn 1. febrúar kl. 17:00

Stelpurnar okkar eiga mikilvægan leik fyrir höndum á morgun, er lið Fylkis mætir í heimsókn í 15. umferð deildarkeppninnar.

Fyrir leik morgundagsins eru liðin á andstæðum pólum Grill 66 deildarinnar. Stelpurnar okkar eru næstefstar í deildinni með 23 stig, á tímabili þar sem 11 sigrar hafa unnist til þessa. Fylkisliðið er hins vegar næstneðst, með 11 töp á bakinu en 3 sigra. Mikill munur á milli tímabila hjá liðum, sem luku keppni jöfn að stigum á síðustu leiktíð.

25 stig urðu þau samtals, stigin sem hvort liðið fékk um sig á síðustu leiktíð. Með sigri á morgun getur FH-liðið jafnað stigafjölda sinn frá því í fyrra, sem er til marks um þær framfarir sem í Krikanum hafa átt sér stað. En við skulum ekki halda að það verði auðvelt, eða að það sé sjálfgefið. Fyrir þessum stigum þarf að vinna vel.

Það réð enginn við Ragnheiði í Árbænum í október / Mynd: Brynja T.

Fylkisliðið hefur eins og áður segir unnið þrjá leiki í vetur – gegn Fjölni, Víkingi og ÍBV U. Aðrir leikir hafa tapast, en þó fæstir með svo miklum mun. Oftast er liðið í leik. Keppinautar okkar í Selfossi áttu t.a.m. enga gönguferð í garðinum, er þær mættu í Árbæ í síðustu umferð. Fjögurra marka sigur Sunnlendinga varð raunin, eftir fjögurra marka mun í hálfleik. Sannfærandi, en ekkert burst. Við FH-ingar gátum þakkað áætlunarferðum Ragnheiðar Tómasdóttur upp vinstri vænginn fyrir þann 7 marka mun sem á liðunum varð í lokin, þegar þau mættust síðast nú í október. Þær reyndust sannarlega gulls ígildi.

Punkturinn er þessi: Ekkert vanmat. Á því höfum við ekki efni. Ekki í þeirri baráttu, sem stendur nú yfir.

Ég hef að vísu engar áhyggjur af því, að stelpurnar gerist sekar um slíkt, því sú hefur ekki verið raunin til þessa. Þær hafa jafnan mætt til leiks með hugarfar sigurvegarans að leiðarljósi, í stað þess að ætla sér að taka leiki með vinstri – enda er jú enginn örvhentur leikmaður í liðinu.

Stjarna Hrafnhildar Önnu skein skært í síðasta leik gegn Víkingi. / Mynd: Brynja T.

Síðustu leikir hafa verið liðinu góðir. Sterkum heimasigri gegn Val U fylgdi úrvals útisigur á Víkingum. En við erum hungruð, og viljum áframhaldandi framfarir. Hærri standard. Ekki bara vegna þess, hve hörð baráttan er í Grillinu, heldur einnig í ljósi þess hvaða leikur bíður okkar hinum megin við helgina. Þrefaldir meistarar síðasta árs eru á leið í Krikann á miðvikudag, og í þann leik þurfum við gott veganesti.

Þín aðstoð yrði sannarlega vel þegin. Styðjum okkar lið til sigurs!

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir