Upphitun: FH – Grótta, 9. apríl 2017

Allir búnir að ná sér niður eftir deildarmeistaratitilinn? Allir búnir að melta það að FH-ingar eru deildarmeistarar, sem nákvæmlega engin bjóst við, nema leikmenn liðsins? Flott. Því frá og með kvöldinu í kvöld er það í baksýnisspeglinum, nú er það sá stærsti sem skiptir öllu. Það þarf ekki að vinna nema sjö leiki í heildina til að vera Íslandsmeistari. Þrátt fyrir titilinn eru fæstir að spá FH þeim stóra, en það eru sannarlega fleiri, sérstaklega FH-ingar, sem hafa trú á verkefninu.

FH - Grótta poster

Gestirnir í kvöld eru Seltirningar. Þeir kláruðu deildina nokkurn veginn þar sem þeim var spáð, voru í fallbaráttu lengi vel en duttu aldrei niður í fallsætið og sigldu þessu sæti í úrslitakeppninni í höfn. Þeirra langhættulegasti maður er hinn vanmetni Finnur Ingi Stefánson. Hann kláraði deildina með 179 mörk, 98 mörkum á undan næsta manni, Hafnfirðingnum Leonharði Þorgeir Harðarsyni. Á góðum degi eru þeir óþolandi lið að spila við, lunknir við að hægja á leiknum, spila erfiða vörn og gífurleg seigla í hópnum.

Liðin spiluðu þrisvar í vetur. Grótta tók okkar menn í kennslustund í haust en leikirnir í Kaplakrika voru öllu þægilegri. Fyrri leikurinn, sem vannst með fjórum mörkum, var nokkuð jafn en FH var allan tímann með yfirhöndina. Seinni leikurinn var rúst. Átta marka sigur fyrir tveimur vikum þar sem okkar menn léku á als oddi.

Strákarnir okkar eru tilbúnir að takast á við næsta verkefni / Mynd: Jói Long

Strákarnir okkar eru tilbúnir að takast á við næsta verkefni / Mynd: Jói Long

Af strákunum okkar er allt gott að frétta. Engin ný meiðsli hópnum, hafa verið við stífar æfingar alla síðustu viku. ,,Þegar menn vinna titla æfa þeir meira, til þess að vinna fleiri titla”, er mottó í hópnum og ekki hægt að búast við öðru en þeir komi vel stemmdir inn í leikinn. Ég ætla að spá hörkuleik í stútfullum Kaplakrika, sem verður gífurlega jafn framan af en Ágústarnir tveir halda uppá að verða valdir í lið deildarinnar með því að loka gjörsamlega á sókn Gróttunnar í byrjun síðari hálfleiks, sem kemur á hraðaupphlaupshrinu hjá Óðni. Að lokum fagna FH-ingar sex marka sigri.

Það er ekkert betra að gera í kvöld, öll FH-fjölskyldan ætlar í Kaplakrika að styðja strákana.

VIÐ ERUM FH!!!

-Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir