Upphitun: FH-Grótta, N1-deild karla

Upphitun: FH-Grótta, N1-deild karla

Það er stutt á milli stríða hjá meistaraflokki FH í handbolta en á morgun mæta þeir Gróttu í Krikanum, öðrum leiknum á aðeins 2 dögum. Nú eru strákarnir með bakið upp við vegg, tap gegn Stjörnunni á mánudaginn gerði það að verkum að Valur náði FH að stigum í deildinni og eru þessi tvö lið því komin í harða baráttu um sæti í úrslitakeppninni. FH-ingar verða því að vinna Gróttumenn ætli þeir sér að hafa betur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Það er þó hægara sagt en gert, Gróttumenn mæta í þennan leik fullir sjálfstrausts eftir góðan sigur á Akureyri á sunnudaginn var.


Lið Gróttu frá Seltjarnarnesi kemur í heimsókn
í Krikann á morgun.

Grótta
Seltirningar sitja í 6. sæti deildarinnar með 10 stig, einu stigi meira en Stjarnan og Fram sem að sitja jöfn í  7-8. sæti. Þeir hafa leikið 17 leiki, unnið 5 af þeim en tapað 12 leikjum.

Það má búast við hörkuleik á morgun, enda Gróttumenn með hörkulið sem að getur spilað flottan handbolta. Grótta er mikið stemningarlið, byggir upp á ungum leikmönnum í bland við gamalreynda jaxla á borð við fyrrum þjálfara liðsins, Halldór Ingólfsson, og Haukamanninn fyrrverandi Jón Karl Björnsson (eigandi Bryndísarsjoppu v/Hverfisgötu). Liðið er vel stutt jafnt heima sem úti og eru stuðningsmenn Gróttu taldir meðal þeirra háværari í deildinni miðað við fjölda. Það er því mikilvægt fyrir stuðningsmenn FH að svara fyrir sig og sýna að FH eigi bestu stuðningsmenn landsins, en ákveðin deyfð ríkti yfir FH-ingum þegar liðið tapaði fyrir Stjörnunni á mánudag. Því skal breyta á morgun!

Nokkra leikmenn í Gróttuliðinu skal varast sérstaklega. Anton Rúnarsson, leikstjórnandi á láni frá Val, hefur reynst þeim drjúgur í vetur og skal passa hann sérstaklega vel. Þá eru þeir Hjalti Þór Pálmason, sem skoraði 11 mörk á sunnudaginn gegn Akureyri, og Viggó Kristjánsson, efnilegur hægri hornamaður, menn sem að geta hugsanlega valdið okkur höfuðverk.

Síðasti leikur liðanna
Síðasti leikur liðanna fór fram á Seltjarnarnesi þann 18. febrúar síðastliðinn. Sá leikur var jafn og spennandi en á endanum fóru FH-ingar með sigur af hólmi, 27-30. Bjarni Fritzson fór fyrir okkar mönnum í þeim leik, skoraði heil 8 mörk.


Bjarni fór mikinn á Nesinu – skoraði 8 mörk!

FH
FH-ingar sitja sem fyrr í 4. sæti deildarinnar með 19 stig, 1 stigi á eftir HK en jafnir Val að stigum. Liðið hefur unnið 9 leiki, gert eitt jafntefli en tapað heilum 7 leikjum.

Vart þarf að minnast á það að FH-ingar hafa tapað 2 leikjum í röð, þar af einum þar sem að frammistaða FH-inga var til skammar. En nóg um það, á morgun er nýr leikur og fullkomið tækifæri fyrir okkar menn að komast aftur á sigurbraut.

FH-ingar leika án Ólafs Guðmundssonar, en hann er í banni. Fékk hann 2ja leikja bann fyrir rautt spjald í leik liðsins gegn Stjörnunni. Áfall fyrir FH-inga, en á sama tíma tækifæri fyrir aðra til að stíga upp og sanna sig, eins og Ólafur Gústafsson gerði í leiknum gegn Stjörnunni. Vonandi að hann haldi uppteknum hætti.

 
Nafnarnir Ólafur Guðmundsson og Gústafsson – einungis annar þeirra verður
í eldlínunni á morgun.

Aðrar fréttir