Upphitun: FH – Grótta, sunnudaginn 23. september 2018

Strákarnir okkar eiga leik í 3. umferð Olísdeildarinnar í kvöld, en Seltirningar koma þá í heimsókn í Krikann. Hart verður barist um stigin 2, okkar menn vilja halda áfram á beinu brautinni á meðan að Gróttumenn þrá að stela sigri á einum erfiðasta útivelli landsins. Hver hefur vinninginn?

Grótta

Færa má rök fyrir því að Seltirningar hafi átt erfiðustu dagskrá allra liða í byrjun móts. Í fyrsta leik fóru Gróttumenn í heimsókn til þrefaldra meistara ÍBV í Eyjum, og voru þar óheppnir að taka ekki bæði stigin meðferðis í Herjólf. Þar á eftir léku þeir við meistaraefnin í Val á Hlíðarenda, og eftir jafna stöðu í hálfleik reyndust Hlíðarendapiltar sterkari. Eitt stig eftir fyrstu tvo leikina – engin draumaútkoma, en í ljósi þess hverjir mótherjarnir voru verður hún að teljast skiljanleg.

Frammistaða Gróttuliðsins í fyrstu tveimur leikjunum er ekki síst virðingarverð, vegna þess hve miklum breytingum liðið hefur tekið í sumar. Margir lykilmenn hurfu á braut í sumar; bræðurnir Július Þórir og Finnur Stefánssynir sömdu báðir við Aftureldingu, Pétur Árni Hauksson og Ásmundur Atlason héldu báðir í ÍR og þá fór leikstjórnandinn flinki Nökkvi Dan Elliðason í atvinnumennsku til Noregs. Við FH-ingar fengum í okkar raðir tvo leikmenn sem léku með Gróttu á síðasta tímabili, þá Bjarna Ófeig Valdimarsson og Jóhann Kaldal Jóhannsson, og svona mætti áfram lengi telja.

 

Jóhann Kaldal er alinn upp í Gróttu, en gekk til liðs við FH í sumar / Mynd: Brynja T.

Stærsti biti, sem Grótta fékk á markaðnum í sumar, er vinstri skyttan Jóhann Reynir Gunnlaugsson, sem sneri aftur heim frá Danmörku. Óhætt er að fullyrða um það. Víkingurinn knái, sem einnig hefur leikið í efstu deild með HK, er illviðráðanlegur þegar hann dettur í gang og ætti að vera sá leikmaður sem allt snýst um í Hertz-höllinni í vetur, ef allt er eðlilegt.

Hægri hornamaðurinn Ágúst Emil Grétarsson gekk til liðs við félagið frá ÍBV, en hann er stórefnilegur og getur þroskast í einn af betri hornamönnum deildarinnar fái hann tækifærið til þess. Leonharð Þorgeir Harðarsson (Haukum) og Sveinn Jose Riviera (Val) leika með Gróttu að láni á nýjan leik í vetur, og þá styrktist vörn liðsins til mikilla muna þegar Árni Benedikt Árnason (kominn aftur heim) og Bjartur Guðmundsson (frá Fram) bættust við hópinn.

Gellir mætir til leiks í bláu í Krikanum þetta kvöldið / Mynd: Grótta Handbolti

Síðast en ekki síst ber að nefna þá góðu styrkingu sem Gróttuliðið fékk héðan úr Kaplakrika, en okkar elskulegi fyrrverandi vallarþulur Gellir Michaelsson gekk til liðs við félagið í haust. Sá sýndi það strax í fyrsta leik, gegn ríkjandi meisturum ÍBV, að hann hefur gæði sem geta sannarlega hjálpað Gróttu í baráttunni í vetur. 5 mörk í fyrsta leik í efstu deild, ekki amalegt það.

FH

Framfarir hafa verið greinilegar hjá FH-liðinu á síðustu vikum. Eftir heldur slakt gengi í Hafnarfjarðarmótinu hafa strákarnir litið vel út, og ljóst er að vel gengur að spila liðið saman. Í leiknum gegn Fram sást glitta í hvaða þetta lið getur, án þess að það kæmist í fluggírinn. Næstu leikir munu líklega snúast um að lengja góðu kaflana sem liðið hefur sýnt.

Sá hefur komið sterkur inn! / Mynd: Jói Long

Í upphafi hafa þrír leikmenn verið fremstir meðal jafningja, fyrirliðinn Ásbjörn Friðriksson, Jóhann Birgir Ingvarsson og Birgir Már Birgisson. Þeir þrír hafa skorað 40 af 58 mörkum liðsins í fyrstu tveimur leikjunum. Ljóst er að margir eiga helling inni en frábært er að geta reitt sig á þessa kappa á meðan liðið er að spila sig saman.

Það eru tvö ár og þrír dagar síðan Grótta vann FH síðast í deild, þá í Hertz höllinni. Síðan hafa okkar menn haft yfirhöndina í öllum leikjum liðanna og sópuðu meðal annars liðinu úr úrslitakeppninni í hittiðfyrra. En það gefur lítið í kvöld og Gróttumenn geta tekið mikið sjálfsöryggi úr því hvernig þeir hafa staðið sig gegn Val og ÍBV. Þetta verður erfiður leikur og mikilvægt að við fjölmennum á völlinn og styðjum strákana okkar til sigurs.

Við erum FH!

-Árni Freyr og Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir