Upphitun: FH – Haukar, fimmtudaginn 15. desember 2016 kl. 19:30

Halló, halló Hafnarfjörður.

Tvö lið. Besti nágrannaslagur í íslenskum íþróttum, heima í Kaplakrika. Hlið við hlið í töflunni, rétt við toppinn í lokaumferðinni fyrir jólafrí. Þarf þessi upphitun eitthvað að vera lengri? Eru ekki allir að fara að mæta? Já? Flott. Sjáumst í Krikanum.

FH - Haukar 151216

Gestirnir – Hitt liðið í Hafnarfirði

Eins gaman og það er að vera með derring, þá eru þeir að spila besta handbolta landsins eins og er. Í síðustu umferð spiluðu liðin á milli Evrópuleikja Haukana og við gerðum vonda viku verri hjá þeim. Við unnum með fjórum, í leik sem var frábær skemmtun. Hann innihélt meðal annars það að Haukar voru um tíma tveir inná vellinum, auk þess sem okkar menn fengu þrjú rauð spjöld.

Slæmu fréttirnar? Síðan þá hafa þeir ekki tapað stigi. Þeir hafa verið svakalegir síðan Svíarnir slógu þá úr Evrópukeppninni, aðeins einu sinni skorað minna en 30 mörk (29) og rokið upp töfluna. Sagan segir að þjálfarinn hafi hreinlega kallað inn aðstoð til að laga varnarleikinn, en það er óstaðfest. Þó varnarleikurinn sé orðin mun betri, eru þeir samt búnir að fá á sig í kringum 30 mörk í hverjum leik. Bara pæling, en Einar Rafn og Óðinn Þór eru báðir á barmi þess að brjóta hundrað marka múrinn.

Heimamenn – Fimleikafélag Hafnarfjarðar

Síðan í Haukaleiknum hafa aðeins tveir leikir unnist eða tapast með meira en marki. Annar þeirra var flottur sigur á Gróttu, hinn ellefu marka rúst á Selfyssingum á útivelli í síðustu umferð. Hinir leikirnir voru ekki beint fyrir hjartveika. Þeir hafa ráðist á lokamínútunni, ýmist með frábærum mörkum eða grautfúlum klúðrum. En klisjan er sönn, þetta fer í reynslubankann. Það leikur enginn vafi á því.

Þó hópurinn hafi verið þunnur hjá okkur hafa leikmenn nýtt sér það vel og margir stigið upp. Ágúst Elí er að ná upp miklum stöðuleika í sínum leik. Ísak og Ásbjörn hafa verið að koma inn í sóknina í síðustu leikjum og bætt við nýrri vídd í hana. Jóhann Birgir, Arnar Freyr, Ágúst Birgisson og Gísli Þorgeir hafa allir tekið að sér að vera gjörsamlega frábærir inná milli. Óðinn Þór var að komast inn í 28 manna landsliðshópinn, sem keumur nákvæmlega engum á óvart og þá er Einar Rafn búin að vera einn besti maður deildarinnar síðustu umferðir.

Þetta er í raun ekki flókið. Ef vörnin okkar heldur, lemur þá rauðu líkt og hún gerði í síðasta leik og heldur þessari frábæru sókn gestanna niðri mun sóknin okkar ganga frá þeim. Form skiptir engu í þessum leik. Þetta er stærsti leikur ársins í þjóðaríþróttinni. Þetta er slagur. Þó ekkert bóli á snjó munu verða hvít jól í Hafnarfirði.

Við. Erum. FH!

– Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir