Upphitun: FH – Haukar, laugardaginn 1. febrúar kl. 20:00

Á morgun bíður okkar stærsti handboltaleikur ársins til þessa – sannkölluð veisla. Nágrannaslagur eins og hann gerist bestur. FH – Haukar. Laugardaginn 1. febrúar. 20:00.

Leikir liðanna síðustu ár hafa verið stórkostleg skemmtun, og boðið upp á ófá augnablikin sem seint verður gleymt. Stál í stál, eins jafnt og það getur orðið. Báðum leikjum liðanna á síðasta keppnistímabili lauk með jafntefli, sem og fyrri leik liðanna nú í vetur. Hvort fordæmi sé til fyrir öðru eins jafnræði í sögu þessa nágrannaslags, er ekki gott að segja. Í það minnsta fyrir einstakling á mínum aldri, sem ólst upp snemma á öldinni við yfirburði Haukanna í íslenskum handknattleik í bland við sögur um stórveldistíð Fimleikafélagsins. Ekki það að henni hafi nokkurn tíma lokið, þó risinn hafi legið í dvala um nokkurra ára skeið.

Undanfarin ár hafa verið okkar mönnum hagsæl. Í desember síðastliðnum voru þrjú ár liðin, frá því við máttum síðast sætta okkur við tap gegn nágrönnum vorum. Í fjórum síðustu keppnisleikjum liðanna, áður en að jafnteflishrinunni kom, hrósuðu FH-ingar sigri. Tíðin hefur verið góð. En þrátt fyrir það, mætum við inn í leikinn sem liðið sem hefur allt að sanna.

Jóhann Birgir mætti aftur í svarthvítt með látum / Mynd: Jói Long

Haukarnir hafa sýnt stöðugleika umfram önnur lið í vetur, og sitja í efsta sæti deildarinnar með 25 stig. Einum leik hefur liðið tapað í allan vetur. Þetta hafa ekki alltaf verið flugeldasýningar, enda hefur ekki verið þörf þar á. Þeir gera það sem þarf, til að vinna.

Við FH-ingar, með okkar góða lið, höfum ekki náð þeim hæðum sem við höfum viljað enn sem komið er. 6. sætið er niðurstaðan eftir 15 leiki, og eru 7 stig upp í toppsætið sem stendur. Þeir ætla sér meira, hvítklæddu strákarnir úr Hafnarfirði. Á því leikur enginn vafi.

Fyrsti leikur handboltaársins 2020 lofaði sannarlega góðu fyrir okkar menn. Kannski ekki fyrri hálfleikur, eða frammistaðan framan af í honum, en svo sannarlega það hvernig strákarnir gátu stigið upp eftir þá erfiðu byrjun. Gott lið Aftureldingar, sem situr í 2. sæti sem stendur og hefur átt frábært tímabil, átti engin svör við FH-vélinni þegar hún hrökk í gang.

Hvað er betra fyrir áhorfanda í handbolta, en að sjá sitt góða lið standa uppi sem sigurvegara í góðum leik góðra liða? Fátt. Því fylgir óneitanlega meiri fylla heldur en 10 marka bursti á vængbrotnum nýliða. Eða tapi, ef út í það er farið.

Leikurinn gegn Aftureldingu var þess eðlis. Topplið í þessari deild var lagt að velli, og það sannfærandi. Góðir leikmenn gerðu góða hluti. Freysi og Einar Rafn áttu toppleiki. Jóhann Birgir boðaði endurkomu sína í alhvíta búninginn með látum. Döhlerinn stóð vaktina vel og Ási – já, Ási var Ási. Alltaf góður.

Við þurfum annan svona leik, og jafnvel betri. Við höfum allt sem til þarf. Allir eru strákarnir góðir í handbolta. Þeir vita að þeir geta betur en verið hefur í vetur. Og, síðast en ekki síst, þá skilja þeir hvað þessi leikur þýðir.

Leonharð tekur sig vel út í svarthvítu / Mynd: Jói Long

Þú hefur stráka eins og Ísak og Jóhann Birgi, sem ólust upp í félaginu og elska ekkert meir en að leggja nágrannana að velli. Þú hefur leikmenn eins og Ása, sem leikið hefur með félaginu í 12 ár og veit upp á hár um hvað málið snýst. Þú hefur Einar Rafn og Leonharð, sem ólust upp ,,hinum megin“ og skilja ríginn frá báðum hliðum. Öðrum er kennt frá fyrsta degi í félaginu, hvaða mikilvægi leikurinn hefur. Ekki að það þurfi margt að kenna, því það vita það allir sem fylgjast með íslenskum handbolta:

Þetta snýst ekki bara um 2 stig. Þetta er ekki eins og hver annar leikur. Þetta er leikurinn.

Leikurinn er settur á laugardagskvöldi kl. 20:00. Honum er sjónvarpað á Stöð 2 Sport. Hinum óháða aðila fyrirgefst, þó hann sitji heima með poppskál í fanginu og njóti í ró og næði (sem verður þó líklega hægara sagt en gert). Við hin mætum í Krikann og berjumst með strákunum okkar, af því að þar er hið eina sanna augnablik. Augnablik, sem kemur aðeins einu sinni, og verður ekki bætt upp með endursýningu. Vertu hluti af því með okkur.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir