Upphitun: FH – Haukar, mánudaginn 10. desember kl. 19:30

Jólin koma snemma í Hafnarfirði þetta árið! Risaslagur FH og Hauka fer fram í Kaplakrika í kvöld kl. 19:30. Viðureignin hefur allt það sem hún hefur venjulega – þetta er barátta upp á meira en bara tvö stig, það vitum við öll. Stigin tvö hafa þó mikið vægi í kvöld, enda standa liðin bæði í harðri toppbaráttu um þessar mundir.

Haukar

Haukarnir koma inn í þennan leik sem eitt heitasta lið deildarinnar undanfarin misseri. Að síðasta leik undanskildum, þar sem grannar okkar töpuðu fyrir systrafélagi sínu á Hlíðarenda, hafa þeir verið allt að því óstöðvandi. Fyrir vikið sitja þeir á toppi deildarinnar með jafn mörg stig og Valur og Selfoss, en það er einu stigi meira en okkar menn hafa.

Lið Hauka var meðal þeirra sem spámenn töldu líkleg til afreka í vetur, enda þótt að þeir hafi ekki styrkt sig mest allra liða í sumar. Þeir þurftu ekki að sækja aukna breidd í útistöðunum, enda var hún þegar til staðar. Ásgeir Örn kom heim og leysti skyttuvandann hægra megin, og þó hann hafi leikið undir getu framan af móti er hann þó sannarlega skárri en rétthend skytta í þeirri stöðu – en lengst af síðasta keppnistímabili þurftu Haukarnir einmitt að stilla sínum leik upp þannig, slíkur var skorturinn á örvhentum.

Björgvin Páll Gústavsson hvarf á braut eftir síðasta keppnistímabil, og skildi eftir sig skarð í marki Haukanna sem Grétari Ari Guðjónsson hefur fyllt með prýði, að mínum dómi. Hann lék oft á tíðum vel með ÍR í fyrra, þegar hann var þar á láni, og sú reynsla sem hann fékk þar nýtist honum vel í dag.

Hákon Daði Styrmisson, sem var einn besti vinstri hornamaður deildarinnar á síðustu leiktíð, hélt heim í Eyjar eftir síðasta tímabil og í honum misstu Haukarnir stóran bita. Þegar Einar Pétur Pétursson, sem hefði átt að leysa hann af, meiddist svo illa í byrjun tímabils leist einhverjum e.t.v. ekki á blikuna. Hinn ungi og óreyndi Orri Freyr Þorkelsson var hins vegar meira en til í að taka á sig aukna ábyrgð. Þau 45 mörk sem hann hefur skorað í 11 leikjum hafa orðið þess valdandi, að varla nokkur maður á Ásvöllum man eftir Hákoni Daða.

Á línunni hefur Heimir Óli Heimisson svo líklega átt sitt besta tímabil frá því hann sneri aftur heim úr atvinnumennsku, en hann er með 51 mark í 11 leikjum og virkar í fantaformi.

Þegar á heildina er litið hefur Haukaliðið sumsé verið einna heilsteyptasta lið deildarinnar. Þeir fá að vísu á sig mikið af mörkum, hver sem ástæðan fyrir því gæti verið, en skora þeim mun meira – og því hefur það ekki komið að sök. Þeir spila seinni bylgjuna grimmt, og þar njóta menn eins og Adam Baumruk, Daníel Þór Ingason og Atli Már Báruson sín í botn. Valsmenn brugðu á það ráð að loka á þá bylgju í síðasta leik, með góðum árangri. Það þurfa strákarnir okkar nú að gera líka.

FH

Strákarnir okkar náðu í síðasta leik að rétta sinn hlut svo um munaði frá tapleiknum gegn Akureyri, en þá tóku þeir KA-menn og rassskelltu þá í Krikanum. 10 marka sigur varð reyndin í þeim leik – fyrsti almennilega afgerandi sigur FH-liðsins á tímabilinu.

Akureyrarliðin áttu fá svör við Einari Rafni / Mynd: Jói Long

Í þeim leik fengum við verulega gott framlag frá útilínunni í heild sinni. Bjarni Ófeigur, sem lítur sífellt betur út, fór þar fyrir okkar mönnum og skoraði 9 mörk. Fógetinn okkar, Ásbjörn Friðriks, kom vel undan því banni sem hélt honum frá leiknum á Akureyri og gerði 8 mörk og þá var Einar Rafn enn funheitur frá leiknum fyrir norðan, en hann skoraði 7 stykki. Við fengum mörk úr hornum og af línunni, og þá áttu Kristófer og Birkir (báðir Fannar) samanlagt 13 bolta varða – allir lögðu sitt af mörkum. Það er það sem þarf.

Strákarnir okkar ætla að leggja allt í sölurnar til að vinna sigur í þessum leik. Hvað með þig?

Frítt er inn í boði Rio Tinto á Íslandi, og það er því kjörið að mæta í Krikann í kvöld með alla fjölskylduna – já, líka frændann sem er með áskrift að Stöð 2 Sport og ,,getur séð leikinn þar”. Þetta er einfaldlega skemmtilegra þegar við gerum þetta öll saman. Það jafnast ekkert á við fullan Krika.

Tryggjum hvít jól í Hafnarfirði, enn einu sinni!

Við erum FH!
-Árni Freyr

 

Aðrar fréttir