Upphitun: FH – HC Visé BM | Evrópa í Mekka

Komið með mér í lítinn leik. Hann er að vísu ekki gagnvirkur, en það bíttar einu. Hugsum í smá stund til Belgíu. Hvað minnir okkur á Belgíu?

Vöfflur. Bjór. Hið sanna heimili frönsku kartöflunnar. Jafnvel knattspyrna, því ekki eiga margir betri landslið í heiminum um þessar mundir en Belgar. Og handbolti. Er það ekki annars?

Það er ekki líklegt, að handknattleikur hafi verið ofarlega á blaði hjá nokkrum þeim sem lagði það á sig að hugsa til Belgíu í smá stund. Landslið þeirra hafa enn ekki komist á stórmót, og það má væntanlega einhver tími líða þar til við hugsum til Belgíu í sömu andrá og til Þýskalands, Frakklands, Danmerkur og Spánar þegar kemur að handknattleik, ef það gerist þá nokkurn tímann.

Fleygjum hugsunarhætti sem þessum í tunnuna á stundinni. Þegar flautað er til leiks í Kaplakrika á sunnudag, skiptir allt það sem við teljum okkur vita (eða ekki) um Belgískan handbolta engu máli.

Í 60 mínútur síðastliðna helgi stóðu Belgarnir í HC Visé BM okkur FH-ingum fullkomlega jafnfætis. Í leik sem endaði með jafntefli leiddu heimamenn lengst af – þar af með 5 mörkum þegar korter var til leiksloka. Strákarnir okkar gerðu vel í að koma til baka, og koma heim með jafna stöðu í farteskinu. Þeir gerðu vel, en nú þarf að gera enn betur.

En hver er þessi mæti andstæðingur?

HC Visé BM kemur frá smábænum Visé, skammt frá landamærum Belgíu og Hollands. Félagið var stofnað árið 1954, og hefur frá aldamótum fest sig í sessi sem efstu deildar lið í Belgíu. Það tók fyrst þátt í Evrópukeppni árið 2014, en það sæti hlaut félagið eftir að hafa tapað bikarúrslitaleik þeirra Belga gegn stórveldinu Initia Hasselt – sem er sigursælasta lið Belgíska handboltans, og mótherji FH í EHF bikarnum árið 2011. Síðan þá hefur félagið tekið þátt í Evrópukeppni á hverju ári, hingað til ávallt í Áskorendabikarnum (Challenge Cup) en nú í fyrsta sinn í EHF bikarnum.

Visé leikur nú í sameiginlegri deild Belga og Hollendinga, BENE-deildinni, sem er eins konar sameiginleg úrvalsdeild landanna. Þar virðist félagið þrífast vel og á síðasta keppnistímabili lauk liðið keppni í 2. sæti, en það tapaði í úrslitum mótsins gegn öðru Belgísku liði, Achilles Bocholt. Voru þessi tvö lið með þokkalega yfirburði í BENE-deildinni á síðasta keppnistímabili.

Lið Visé er að mestu leyti skipað Belgum, en nokkrir atkvæðamestu leikmanna liðsins á sunnudag voru þó fengnir að utan. Hægri hornamaðurinn Sergio Rola var markahæstur í liði Visé með 5 mörk, og þá var landi hans Nuno Carvalhais í vinstri skyttunni með 4 til viðbótar. Báðir eiga þeir að baki leiki með sterku liði FC Porto í heimalandinu. Þá er markvörðurinn Rudi Schenk hollenskur, en hann átti þokkalegan leik á sunnudag og var með 14 skot varin. Sebastien Danesi er síðan dæmi um efnilegan, ungan Belga sem spilar stórt hlutverk með liði Visé, en hann var jafnmarkahæstur ásamt Rola með 5 mörk skoruð.

Meistarar meistaranna 2019 / Mynd: HSÍ

FH-liðið hefur litið afar vel út í haust. Flestir þeirra æfingaleikja, sem spilaðir hafa verið, hafa unnist með sannfærandi hætti og hefur spilamennskan verið góð. Þá er fyrsti (og vonandi ekki síðasti) titill tímabilsins kominn í hús, en á miðvikudagskvöld urðu strákarnir krýndir Meistarar meistaranna eftir æsispennandi leik gegn Íslandsmeisturunum á Selfossi. Ég læt það vera að sá titill hafi ávallt haft mikið forspárgildi, en ljóst er að það er ávani að vinna leiki og titla. FH-liðið vill vinna fullt af leikjum og alla þá titla sem eru í boði, og þá er eins gott að byrja strax.

Talandi um ávana. Þriðja árið í röð tökum við þátt í EHF bikarnum, og því má segja að góð reynsla sé komin í hópinn þegar kemur að keppnum sem þessum. Sú reynsla gæti reynst dýrmæt á sunnudag, þegar leikurinn er flautaður á og einvígið stendur jafnt. Ég tala nú ekki um ef pallarnir í Krikanum eru þétt setnir.

Er einhver ástæða til annars en að sú verði raunin?

Evrópukeppnin er ævintýri. Nokkuð sem ekki öllum félögum býðst að taka þátt í – hvað þá þrjú ár í röð. Það skapast minningar við tilefni sem þessi; fyrir leikmenn, aðstandendur og stuðningsmenn. Minningar um magnaða sigra, eins og í útileiknum (og ekki síður vítakeppninni umdeildu) í Sankti Pétursborg í hitteðfyrra, og sömuleiðis minningar um viðureignir eins og þá sem við áttum gegn Tatran Presov þar á eftir – súr, en samt tilefni til að finna til stolts.

Minningar eru fjársjóður sem aldrei tæmist. Vertu með þegar við sköpum þá næstu.

Útlitið er gott, og tímabilið framundan er spennandi. Við erum að sjá menn halda uppteknum hætti. Við erum að sjá aðra menn taka næsta skref fram á við og verða betri leikmenn – jafnvel stjörnur. Við erum að fá nýja leikmenn inn sem virðast svo sannarlega ætla að geta skipt sköpum. Liðið okkar er í sífelldri mótun. Það er líf, fjör og engin ástæða til að hanga heima. Mætum öll sömul á sunnudag, byrjum þetta tímabil af krafti og komum strákunum okkar í næstu umferð!

Við erum FH!

– Árni Freyr

Aðrar fréttir