Upphitun: FH – HK U, föstudaginn 14. september kl. 19:30

Grill 66 deild kvenna fer af stað annað kvöld eftir sumarfrí, og hefja stelpurnar okkar leik í Mekka að þessu sinni. Þær fá þá í heimsókn lið HK U, en það er unglingalið Handknattleiksfélagsins úr Kópavogi. Aðallið félagsins endaði einmitt í 2. sæti þessarar deildar á síðustu leiktíð og komst í kjölfarið upp í deild þeirra bestu. Þangað stefna stelpurnar okkar einnig, og geta þær tekið fyrsta skrefið í átt að því markmiði strax.

Sigri ber aldrei að taka sem sjálfsögðum hlut, og því verða stelpurnar okkar að mæta á fullu gasi í þetta verkefni. Annað dugar ekki til. Það sama á við um okkur, stuðningsmenn félagsins. Mætum og hvetjum af krafti strax frá fyrsta leik!

HK U.

Ég væri að ljúga ef ég segðist vita mikið um andstæðing morgundagsins. Liðið er þó væntanlega að mestu skipað ungum og efnilegum leikmönnum úr röðum HK-inga, sem ekki fá tækifæri með aðalliði félagsins, en það fór upp um deild síðasta vor. Unglingastarfið í Kópavogi hefur hins vegar gengið vel á undanförnum árum, og hafa kvennalið félagsins í yngri flokkum einkum verið góð.

Til marks um það léku HK-ingar til undanúrslita í Íslandsmóti 3. og 4. flokks kvenna á síðustu leiktíð. Í 3. flokki, þeim elsta meðal yngri flokka, enduðu HK-ingar í 4. sæti deildarkeppninnar – stigi á eftir okkar stelpum í FH – og máttu síðan sætta sig við tap gegn verðandi Íslandsmeisturum Fram í undanúrslitum. Voru það einmitt okkar stelpur sem léku þann úrslitaleik, og töpuðu naumt.

Í spá formanna, þjálfara og fyrirliða deildarinnar var liði HK U spáð næstneðsta sæti deildarinnar, eða því tíunda. En hún er víst einmitt nákvæmlega það – spá. Þegar um lið sem þessi er að ræða, unglingalið sem skráð eru til leiks í fyrsta sinn og hverra samsetning er e.t.v. ekki ljós í byrjun móts, er erfitt að sjá fyrir nákvæmlega hvernig afraksturinn verður. Í ljósi þess verður að sýna andstæðingnum fulla virðingu, og engu má taka sem gefnu fyrir fram. Stelpurnar munu þurfa að berjast fyrir stigunum tveimur.

FH var spáð sigri í 1. deild kvenna þennan veturinn. HK U, aftur á móti, er spáð baráttu í neðri hluta deildarinnar.

FH

Stelpunum okkar hefur verið spáð sigri í Grill 66 deildinni þennan veturinn, og get ég vel skilið hvers vegna. Liðið er byggt upp á sterkum kjarna ungra stelpna, sem uppaldar eru í félaginu og hafa vaxið mikið í leik sínum undanfarin ár. Sérstök þroskamerki mátti sjá á leik þessara stelpna á síðustu leiktíð, en liðið var þá hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í umspili um úrvalsdeildarsæti.

Ykkar er framtíðin! / Mynd: Brynja T.

Send voru sterk skilaboð strax í lok síðasta tímabils, þegar nýjir samningar voru undirritaðir við þessa ungu og efnilegu leikmenn. Við ætlum okkur aftur í fremstu röð, og við ætlum að gera það á okkar máta. Með uppalda FH-inga í fararbroddi.

Meðal þessara leikmanna eru leikstjórnandinn flinki Embla Jónsdóttir og rétthenta sleggjan Sylvía Björt Blöndal, sem leikið hafa með U-18 ára landsliði Íslands í sumar. Báðar fengu þær stór hlutverk í liði FH síðasta vetur, og verða þau hlutverk ekki minni á komandi tímabili. Gríðarlega gaman verður að fylgjast með þeim, og öðrum leikmönnum FH-liðsins, vaxa og dafna í vetur. Sjáið það bara með eigin augum!

Britney Cots er leikmaður sem afar spennandi verður að fylgjast með í vetur.

Í bland við þennan efnilega hóp er að finna öfluga og reynda leikmenn innan liðsins, sem spilað geta lykilrullu í framgangi þess. Meðal þeirra er Fanney Þóra Þórsdóttir, skytta góð og markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili, en hún verður spilandi aðstoðarþjálfari liðsins. Tekur hún við af Guðmundi Pedersen, sem ákveðið hefur að stíga til hliðar vegna anna. Þá gekk í sumar til liðs við FH-liðið spennandi franskur leikmaður, Britney Cots að nafni. Hún ku vera sterk á báðum endum vallarins, og ljóst er að hún gæti reynst mikil styrking fyrir þetta lið í vetur.

Enn fremur hefur okkur borist styrking úr Garðabæ. Þær Aníta Theodórsdóttir, Ragnheiður Tómasdóttir og Ástríður Þóra Viðarsdóttir hafa allar gengið til liðs við FH-liðið frá Stjörnunni, sem og Andrea Valdimarsdóttir – en hún er okkur FH-ingum að góðu kunn, þar sem hún spilaði með liðinu á láni frá Stjörnunni á síðustu leiktíð. Góðar viðbætur þar á ferðinni, sem koma án nokkurs vafa til með að koma sér vel í komandi átökum.

Ekki hefur verið mikið um brottfarir frá FH-liðinu í sumar, en þó er ein breyting staðfest. Hún er sú að Birna Íris Helgadóttir, fyrirliði liðsins á síðasta tímabili, hefur lagt skóna á hilluna og hyggst ekki leika með á komandi tímabili. Verður hennar að sjálfsögðu saknað inni á vellinum, en að sama skapi ber að þakka henni fyrir hennar framlag til liðsins um langt skeið.

Allt stefnir í spennandi tímabil hjá okkar stelpum. Ég vil því hvetja þig, kæri FH-ingur, til að láta það ekki framhjá þér fara! Mættu í Krikann í vetur og sjáðu stjörnurnar í mótun. Vertu til staðar frá upphafi, allt frá kl. 19:30 annað kvöld, því þegar uppi er staðið þá munar um þann stuðning. Gerum þessa spá að veruleika.

Við erum FH!

 

Aðrar fréttir