Upphitun: FH – ÍBV, miðvikudaginn 15. nóvember kl. 19:30

Bíóinu er lokið og FH er komið áfram í Evrópukeppninni, aftur. Ég held að enginn muni mótmæla því að strákarnir hafa staðið sig sem stakri prýði í öllu þessu rugli, létu þetta ekki trufla sig í leikjum hér heima og mættu svo bara til Rússlands og unnu blessaða Rússana, aftur. En nú tekur alvara lífsins við, og deildin hættir ekki bara þó menn þurfi að fara í nokkur þúsund kílómetra ferðalag, aftur.

Á miðvikudag mæta Eyjamenn í Kaplakarika. Fyrir mót var liðinu spáð titlinum af nánast öllum og af talinu mátti halda að mótið væri bara formsatriði. Það er svo sem ekki skrýtið, liðið er einfaldlega fáranlega vel mannað og byrjunarliðið þeirra, á pappír allavega, það sterkasta á landinu. En handbolti er ekki spilaður á pappír og þetta lið er alls ekki ósigrandi. Þeir voru nokkuð harðlega gagnrýndir í byrjun móts fyrir leiðinlega og lélega spilamennsku en það hrjáði þeim ekki meira en það, að í dag eru þeir fjórum stigum frá toppsætinu.

Fremstir í flokki hjá þeim eru þeir Theodór Sigurbjörnsson og Sigurbergur Sveinsson ásamt Róbert Aroni Hostert og Agnari Smára Jónssyni. Þeir eru markahæstir. Kári Kristján er líka stórhættulegur, þó hann hafi ekki náð sér almennilega á strik á tímabilinu hingað til. Í markinu er síðan Hafnfirðingurinn Aron Rafn Eðvarðsson, sem hefur ekki sýnt sitt rétta andlit á tímabilinu, en það myndi ekki koma nokkrum á óvart ef hann myndi finna sig í markinu í Kaplakrika. Það þarf líka að hafa í huga að ÍBV er ekki ennþá búið að spila heimaleik á mótinu, þeir munu eftir áramót spila 9 heimaleiki í röð. Það vita allir hversu sterkur heimavöllur þeirra er, og ef þeir eru í höggfæri við toppsætið í deildinni þegar þessi runa fer af stað gæti hún reynst þeim mjög verðmæt.

Strákarnir komu sér áfram í 3. umferð EHF-bikarsins á sögulegan máta. Nú tekur við risaverkefni í Krikanum!

Á móti þessu stjörnuliði standa strákarnir okkar, ný komnir úr 5400 kílómetra ferðalagi. Ef ÍBV er lið stútfullt af stjörnum sem hafa ekki náð almennilega saman, er FH liðið heild sem er fullkomlega samstíga.  Eins og stendur eru þrír FH-ingar á topp tíu listanum hjá HBStatz, og sex á topp 25. Liðið er hrikalega jafnt, búnir að vinna alla leiki hingað til, með að meðaltali (rétt tæplega) 9 marka sigur í hverjum leik. Stóra spurningin við liðið er hinsvegar hvort þetta ruglaða ferðalag hafi einhver áhrif á þá. Halldór hefur verið að spila mikið á sömu mönnum flesta leiki, og væri ekki óvænt ef einhverjir væru orðnir aðeins þungir í skónum. Hins vegar koma þeir líka inn í leikinn í sigurvímu, ég heyrði einhvern hrópa í sigurmyndbandinu frá Rússlandi: „Þetta er það skemmtilegasta sem ég hef gert.“

ÍBV er eina liðið sem hefur unnið FH í deildinni á árinu 2017, þess þarf að hefna. Þetta er einfaldlega risaleikur, gegn liði sem mun án nokkurs vafa vera að berjast um alla titla í ár. Það er hrikalega mikilvægt að FH-ingar fjölmenni á leikinn og styðji strákana. Mætum öll, höfum gaman og höldum áfram að njóta þess að styðja þetta geggjaða lið. Koma svo strákar!

VIÐ ERUM FH!

-Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir