Upphitun: FH – ÍBV, sunnudaginn 11. nóvember kl. 18:00

Annað kvöld fer fram uppgjör þeirra liða, er börðust um Íslandsmeistaratitilinn síðastliðið vor, þegar Eyjamenn mæta í heimsókn í Kaplakrika. Að mestu þekkjast liðin vel, enda marga harða hildi háð á þessu almanaksári. Þó hafa þær miklu breytingar, sem bæði lið hafa gengist undir, sett nýjan svip á þetta einvígi. Okkar menn urðu undir síðast. Hver verður útkoman nú?

 

ÍBV

Okkur eru vel kunnugar þær mannabreytingar sem áttu sér stað í FH-liðinu á milli keppnistímabila, en ekki voru þær færri hjá þreföldum meisturum ÍBV. Þeir Agnar Smári Jónsson og Róbert Aron Hostert færðu sig báðir yfir á Hlíðarenda, og þá hvarf markmannspar Eyjaliðsins á braut – Aron Rafn Eðvarðsson flutti sig til Hamborgar, og Stephen Nielsen í Breiðholtið. Andri Heimir Friðriksson fór sömuleiðis upp á land, en hann gekk á endanum til liðs við Fram.

Bróðir Andra Heimis, hornamaðurinn Hákon Daði Styrmisson, fór í öfuga átt og gekk aftur til liðs við Eyjamenn eftir nokkurra ára veru á Schenkervöllum, þar sem hann hafði stimplað sig inn sem einn besti hornamaður deildarinnar. Í stað Róberts Arons kom Fannar Þór Friðgeirsson, en sá flinki leikstjórnandi hefur leikið erlendis mörg undanfarin ár. Fannar Þór var ekki eini Fjölnismaðurinn sem gekk til liðs við Eyjamenn í sumar, þar sem það kom í hlut Kristjáns Arnar Kristjánssonar (Donna) að fylla í skarð Agnars Smára í hægri skyttunni.

Markvarðarstaðan var sú sem Eyjamönnum gekk e.t.v. hvað verst að fylla, en fenginn var útlendingur til liðsins í sumar sem síðan reyndist ekki nægilega góður og var í kjölfarið sendur heim – án þess að spila leik. Björn Viðar Björnsson, sá gamalreyndi markvörður, byrjaði í rammanum hjá ÍBV í fyrstu leikjum tímabilsins en eftir að Kolbeinn Aron Ingibjargarson sneri aftur til Eyja hefur sá staðið mestmegnis milli stanganna og það með mikilli prýði.

Hið (að hluta) nýja Eyjalið hefur farið verr af stað heldur en vonir stóðu til, en meistararnir – undir stjórn þeirra Erlings Richardssonar og Kristins Guðmundssonar – sitja eins og stendur í 7. sæti deildarinnar með 6 stig eftir 7 leiki. Það er e.t.v. ekkert skrítið þegar breytingarnar eru jafnmiklar og raun ber vitni. Nýjir leikmenn, nýtt þjálfarateymi og ekki hefur það hjálpað til að Fannar Þór hefur ekki náð nema 4 leikjum með liði ÍBV hingað til, en hann er einn af betri leikmönnum deildarinnar þegar hann er heill.

Í liðinu eru það hinar þekktu stærðir frá því í fyrra sem standa upp úr þegar kemur að markaskorun. Kári Kristján Kristjánsson á línunni og Theodór Sigurbjörnsson í hægra horninu hafa farið fyrir liðinu til þessa, og þá er Sigurbergur Sveinsson í vinstri skyttunni alltaf líklegur. Donni er með 4 mörk að meðaltali í leik (28 mörk í 7 leikjum), og mun án nokkurs vafa styrkjast eftir því sem hann kemst betur inn í hlutina.

Eyjamenn eru kannski í 7. sæti í óhemju jafnri Olísdeild eins og er, en það er bara tímaspursmál hvenær togarinn verður kominn á haf út og byrjaður að veiða inn fleiri stig. Okkar menn eru hins vegar með skærin á lofti – tilbúnir að klippa á trollið, svo að sú verði ekki raunin í Krikanum annað kvöld.

Birgir Már hélt áfram góðu gengi sínu í FH-treyjunni gegn UMFA, en hann skoraði þar 7 mörk og var markahæstur okkar manna / Mynd: Jói Long

FH

Strákarnir okkar hafa spilað fínan handbolta upp á síðkastið, og ættu að koma inn í leikinn gegn Eyjamönnum með nægt sjálfstraust. Leikurinn í Mosfellsbæ á sunnudag, þar sem FH-liðið gerði jafntefli við sterkt lið UMFA, var að mörgu leyti góður og klárlega er hægt að byggja á mörgu sem þar fór fram.

Við fengum að venju verulega góðar frammistöður úr hornastöðunum, þar sem að Birgir Már og Arnar Freyr stóðu fyrir sínu. Ási sýndi okkur enn og aftur fram á mikilvægi sitt, og þá var vörnin á köflum mjög góð.

Bjarni Ófeigur leit verulega vel út áður en hann var rekinn (óréttilega) upp í palla gegn UMFA – hann mun springa út á næstunni! / Mynd: Jói Long

Eitt sá ég í leiknum (eða allavega fyrstu 11 mínútur hans) sem mig langar gjarnan að fá meira af annað kvöld, en það var sú áræðni sem Bjarni Ófeigur sýndi í skyttunni. Um það leyti sem Bjarni var rekinn upp í stúku var maður farinn að sjá fram á, að þetta yrði leikurinn hans. Var hann kominn með 2 mörk í 3 skotum, og hefði sannarlega munað um framlag hans það sem eftir lifði leiks. Þeir sem fylgst hafa með honum síðustu ár vita, að þar fer piltur sem stútfullur er af hæfileikum, og er það því einungis tímaspursmál hvenær hann muni blómstra í FH-búningnum. Vonandi sjáum við framhald af þessum 11 mínútum á fjölum Krikans á morgun, þó án rauða spjaldsins. Ég efast ekki um að sú verði raunin.

Eins og áður sagði hafa liðin bæði gengið í gegnum miklar breytingar á milli tímabila, og segir stöðutaflan okkur það að sú breyting hafi gengið öllu betur til þessa hjá okkar mönnum heldur en ríkjandi þreföldum meisturum ÍBV. Það bíttar hins vegar litlu þegar komið er út á gólf og leikurinn er flautaður á. Valinn maður er í hverri koju togarans frá Eyjum, og það er aðeins tímaspursmál hvenær stigin koma upp í trollið líkt og á færibandi.

Í ofanálag hefur Eyjamönnum gengið nokkuð vel gegn FH-liðinu síðastliðin ár. Vart þarf að minna nokkurn mann á, og allra síst þá sjálfa, að í Krikanum lönduðu þeir þeim stóra síðastliðið vor. Einn leik af fimm vann FH gegn ÍBV í deild og úrslitakeppni á síðasta tímabili. Það er orðið þreytt.

Með áframhaldi á þeim góða handbolta, sem okkar lið hefur spilað á þessu tímabili, má leggja sterkt lið ÍBV að velli. Með stuðningi úr stúkunni er sú útkoma enn líklegri.

Segjum ofveiðinni stríð á hendur. Kvótinn er uppurinn! Stöndum vörð um stigin tvö með strákunum okkar.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Aðrar fréttir