Upphitun: FH – ÍBV, sunnudaginn 15. desember kl. 16:00

Síðasti leikur strákanna okkar fyrir hlé er sannarlega ekki af verri endanum. Taka þeir á morgun á móti liði ÍBV í sannkölluðum stórleik, sem bæði lið vilja endilega vinna til að fara inn í fríið á sem bestan máta.

Eftir stórgóða byrjun hefur gengi ÍBV dalað í deildinni á síðustu misserum. Er liðið í 7. sæti deildarinnar, 2 stigum á eftir okkar mönnum. Enginn efast um gæðin, sem þetta lið hefur upp á að bjóða, en úrslitin hafa á köflum látið á sér standa. Tapi gegn Fjölni á heimavelli fylgdi 5 marka tap í Breiðholti, á eftir því komu tveir stórsigrar gegn HK og KA áður en Stjarnan lagði Eyjamenn sannfærandi að velli í Mýrinni. Þið skiljið hvert ég er að fara – þetta hefur verið upp og niður, en þó aðallega niður upp á síðkastið.

Hvað veldur? Vissulega meiðsli, að einhverju leyti. Að öðru leyti eru þeir, sem þó eru heilir, ekki endilega líkir sjálfum sér. Fyrst og fremst eru þeir óútreiknanlegir. Á hvaða hlið hitta þeir hverju sinni?

Einar Rafn verður í eldlínunni gegn ÍBV á morgun / Mynd: Jói Long

Það er engum blöðum um það að fletta, að lið ÍBV hefur hentað okkur FH-ingum fremur illa sem mótherji undanfarin ár. Í fljótu bragði rekur mig aðeins minni til þess, að FH hafi unnið tvo keppnisleiki gegn Eyjamönnum á síðustu þremur keppnistímabilum.

Það er eitthvað við þá. E.t.v. ÍBV-vörnin víðfræga, með framliggjandi Elliða Snæ Vignisson. Kannski hann Kári Kristján á línunni, sem oft reynist erfiður viðureignar. Eða þá sú staðreynd, að markverðir Eyjaliðsins virðast ávallt vakna af værum blundi þegar andstæðingurinn er klæddur í FH-treyju. Umfram allt er þetta drullugott handboltalið, með valinn mann í hverju rúmi. Drullugott handboltalið, sem jafnan hefur haft yfirhöndina gegn okkur.

Phil átti flottan leik í Eyjum, síðast þegar liðin mættust / Mynd: Jói Long

Síðasti leikur liðanna, sem fram fór í Eyjum seint í september, var jafn og spennandi. Barátta markvarðanna, Phil Döhler og Petar Jokanovic, var í algleymingi. Jafnt var á öllum tölum. Á köflum var allt eins líklegt, að FH tæki stigin tvö heim. En að lokum vann ÍBV. Líkt og rispuð plata.

Nú má gjarnan verða breyting hér á. Grýlur eru til þess að grafa þær.

Það eru allar forsendur til, að svo megi verða. Líkt og hjá ÍBV hefur gengi FH-liðsins verið upp og niður, en þó ívið meira upp að mér þykir. Markvarslan er að verða jafnari og betri, sem og varnarleikurinn. Við erum að fá framlag frá öllum sóknarlega. Og þegar liðið nær góðum heildarbrag, þá er það alveg ofboðslega gott. Því miður hefur það ekki náðst í hverjum leik, en það kemur með kalda vatninu.

FH-liðið verður án Ágústar Birgissonar í leiknum á morgun, en hann fór úr axlarlið í leik liðsins gegn Val nú á dögunum. Það er vissulega áfall, en blessunarlega er útlit fyrir að meiðslin hrjái honum ekki meir en svo, að hann ætti að vera klár í slaginn í fyrsta leik eftir áramót.

Það vita það allir sem fylgst hafa með FH-liðinu undanfarin ár, að Ágúst er algjör lykilmaður á báðum endum vallarins, og verður hans því sárt saknað. Á sama tíma leggjum við fullt traust á þá menn sem í stað hans koma. Jón Bjarni Ólafsson hefur t.a.m. bætt sinn leik mikið á undanförnum misserum, bæði í vörn og sókn. Nú fá menn tækifæri til að sýna, hvað í þeim býr.

Gjöfult handboltaár, sem veitt hefur ómetanlegar minningar, er að renna sitt skeið. Nýtum tækifærið, kæru FH-ingar, og styðjum strákana okkar til sigurs einu sinni enn á árinu 2019. Leikurinn hefst kl. 16:00 í Mekka. Okkar staður, okkar stund.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir