Upphitun: FH – ÍR, 6. nóvember 2017

FH-ingar freista þess annað kvöld að viðhalda forystu sinni á toppi Olísdeildar karla, en þá kemur sprækt lið ÍR-inga í heimsókn í Krikann. Það verkefni er allt annað en auðvelt, enda hefur gengi Breiðhyltinga verið fínt það sem af er leiktíð og það veitt öllum sínum mótherjum mikla mótspyrnu.

ÍR

Lið ÍR, undir stjórn Bjarna Fritzsonar, hefur verið sá nýliði sem best hefur farið af stað þetta árið. Breiðhyltingar hafa náð í 3 sigra í fyrstu 7 leikjum sínum, og eru um þetta leyti í 8. sæti deildarinnar með 6 stig.

Eftir að hafa endað í 2. sæti 1. deildar karla á síðustu leiktíð náðu Breiðhyltingar að bæta skynsamlega í hóp sinn fyrir þetta tímabil. Sterkir leikmenn á borð við Bergvin Þór Gíslason (frá Akureyri) og Elías Bóasson (frá Fram) ákváðu að söðla um og leika í Austurberginu. Hafa þeir gert flotta hluti í nýju liði, þá sérstaklega Bergvin sem er markahæsti leikmaður liðsins það sem af er tímabili með 34 mörk.

ÍR-ingar urðu fyrir miklu áfalli undir lok síðustu leiktíðar þegar að Jón Kristinn Björgvinsson, uppalinn FH-ingur og besti leikmaður 1. deildarinnar það árið, meiddist illa. Mikill missir er af honum fyrir Breiðhyltinga, en þeir gerðu þó vel í að sækja Kristján Orra Jóhannsson í hægra hornið. Sá hefur gert góða hluti hjá Akureyri í efstu deild síðustu ár og kemur vel inn í ÍR-liðið í ár, en hann er með rétt tæp 4 mörk að meðaltali í leik.

Stærstu félagaskipti ársins í Breiðholtinu voru óumdeilanlega endurkoma Björgvins Þórs Hólmgeirssonar, en hann hafði leikið í Dúbaí um tveggja ára skeið. ÍR-ingar hafa hins vegar lítið fengið að njóta krafta hans það sem af er tímabili, en hann hefur átt við erfið bakmeiðsli að stríða og á því aðeins 2 leiki að baki á leiktíðinni. Það gerir ágætt gengi og spilamennsku ÍR-liðsins það sem af er tímabili enn aðdáunarverðara. Björgvin, með öll sín gæði, á að vera potturinn og pannan í liði ÍR og því hefði mátt ætla að fjarvera hans myndi reynast liðinu erfið. En í þetta lið er heilmikið spunnið, á því leikur enginn vafi. Þeir gefa öllum leik, með eða án Björgvins..

ÍR-ingar hafa sýnt yfirburði sína yfir hinum nýliðunum í innbyrðis viðureignum þeirra. Víkinga lögðu Breiðhyltingar að velli með 8 marka mun (24-32) og þá mátti topplið 1. deildar í fyrra, Fjölnir, sætta sig við 16 marka jörðun í Austurberginu (36-20). Þriðji sigurleikurinn kom gegn Gróttu, en þann leik unnu ÍR-ingar með 11 marka mun.

Í tapleikjum sínum flestum hafa ÍR-ingar átt fína möguleika allt til enda. Gegn bæði Val og ÍBV voru Breiðhyltingar yfir í hálfleik en máttu að lokum sætta sig við naum töp. Það segir sitt um þetta lið. Þeir standa í liðum sem fyrirfram eiga að teljast sterkari, og þó það hafi ekki gerst enn sem komið er þá er ljóst að á einhverjum tímapunkti munu úrslitin í þeim leikjum detta þeirra megin. Okkar menn mega mæta í verkefnið af fullum krafti til þess að það verði ekki í Krikanum annað kvöld. Ekkert nema 100% einbeiting mun duga.

Gísli Þorgeir fór á kostum gegn Fjölni á miðvikudag / Mynd: Jói Long

FH

Sigurganga svarthvítu hetjanna okkar hélt áfram á miðvikudag þegar lið Fjölnis kom í heimsókn í Krikann. Verkefnið var allt annað en einfalt. Fjölnismenn mættu til leiks að lokinni skrýtinni viku í Grafarvoginum þar sem að þjálfara liðsins, Arnari Gunnarssyni, var sagt upp – eða þannig. Maður getur aldrei vitað hvernig lið bregst við svona atburðum. Þó mátti ætla að lið Fjölnis, sem tekið hefur stór skref framávið undir stjórn Arnars síðustu ár, myndi berjast fyrir stjórann sinn og sýna á sér þær hliðar sem komu liðinu upp um deild með afgerandi hætti.

Þeir voru vel inni í leiknum í fyrri hálfleik. Baráttan var greinilega til staðar, munurinn á liðunum var 3 mörk þegar liðin gengu til búningsherbergja og því ýmislegt hægt í þeim síðari.

Eða ekki.

FH-ingar settu einfaldlega í annan gír og sýndu, hvers vegna toppsætið er þeirra. Engin miskunn, ekkert kæruleysi, ekkert vanmat. Þetta er það sem skilur góðu liðin að frá þeim bestu. FH-ingar hættu aldrei, gáfu engan grið. Það sama hefur verið uppi á teningunum í flestum sigurleikjum FH það sem af er á þessu tímabili, og er hið jákvæðasta teikn.

Við þurfum þessa sömu grimmd annað kvöld gegn liði ÍR. Þetta sama hugarfar, og hefur skilað okkur 7 sigrum í 7 leikjum. Ég tel reyndar enga hættu á öðru en því, að það verði til staðar. Strákarnir hafa farið á kostum síðustu vikurnar, virka einstaklega vel samstilltir og einbeittir. Þegar þessir eiginleikar eru jafn áberandi og raun ber vitni í þetta hæfileikaríku liði, þá eru góðir hlutir að fara að gerast. Viku eftir viku, leik eftir leik.

Hér væri hægt að skrifa enn frekari langloku um það, hversu gott FH-liðið er um þessar mundir. Hægt væri að tala um það, hvers vegna þú – FH-ingur góður – ættir að mæta á völlinn og fylgjast með þessu gerjast. En þetta tal er óþarft. Strákarnir sjá um það úti á vellinum. Það sem ég get sagt með góðri samvisku, bæði við þá sem mætt hafa á völlinn í vetur og eins þá sem ekki hafa komist það sem af er: Ekki missa af þessu.

Leikur FH og ÍR er, eins og áður segir, annað kvöld (mánudaginn 6. nóvember) og hefst kl. 19:30. Sjáumst þar.

Við erum FH!

 

Aðrar fréttir