Upphitun: FH – ÍR, föstudaginn 8. mars kl. 20:15 | Höllin bíður!

HÖLLIN UM HELGINA.

Undanúrslit bikarsins. Fjögur lið, þrír leikir og einn bikar sem allir vilja koma höndum sínum á. Á föstudaginn klukkan korter yfir átta munum Hafnfirðingar mæta Breiðhyltingum í seinni leik undanúrslita Coca-Cola bikarsins í handbolta. Verðlaun sigurvegarans er að keppa einn leik í viðbót, við annað hvort Val eða Fjölni, um bikarinn góða.

Það er sturluð stemning að komast á pallana á svona degi. Við ætlum að mála stúkuna hvíta og styðja okkar menn til sigurs, það er kominn tími til að enda áratuga eyðimerkurgöngu FH í þessari keppni, svo ekki sé talað um að kveðja Dóra með allavega einni stórri dollu í skápinn.

FH og bikarinn

Keppt hefur verið um bikarinn á Íslandi frá árinu 1974. Upphaflegi bikarinn, sem Byggingarfélag Breiðholts gaf HSÍ, hvílir nú í bikarskápnum í Kaplakrika. FH vann keppnina þrisvar í röð, 1975-77. Samtals hefur liðið unnið bikarinn 5 sinnum og sjö sinnum í viðbót keppt til úrslita. Síðast vann félagið á því herrans ári 1994 – fyrir aldarfjórðung. Þá var liðinu stjórnað af Kristjáni Arasyni, það var ekki búið að finna upp að skipta út markmanni fyrir aukamann í sókn og stórskyttan Jóhann Birgir Ingvarsson var rétt í þann mund að fæðast. Með öðrum orðum, það er orðið allt of langt síðan.

Síðast komumst við FH-ingar í Höllina árið 2017. Þá mættum við tilvonandi bikarmeisturum Vals í einstaklega pirrandi og erfiðum leik. Staðan var 9-6 fyrir Val í hálfleik og endaði 20-19, eftir að okkar mönnum misheppnaðist tvisvar undir lokin að jafna. Það verður ekki tekið að Valsliðinu að það spilaði frábæra vörn, þó við í stúkunni höfum verið við það að tryllast á henni.

Okkar menn sátu hjá í fyrstu umferð bikarsins á þessu keppnistímabili og fengu svo Víking í sextán liða úrslitunum í desember. Leikurinn fór fram þremur dögum eftir jafntefli FH og Hauka í Kaplakrika og einhverjir óttuðust að okkar menn myndu vanmeta baráttuna í Víkingum. Sú varð ekki raunin, og strákarnir unnu ákaflega fagmannlegan 11 marka sigur á 1. deildarliðinu.

Okkar menn unnu frábæran sigur í Mosó, og tryggðu sig þannig í Final Four / Mynd: Jói Long

Í átta liða úrslitum voru það svo lærisveinar Einars Andra í Mosfellsbæ. Leikurinn var rosalegur. Okkar menn náðu snemma yfirburðarforskoti og leiddu leika í hálfleik með fimm mörkum. Aftureldingarmenn spýttu í lófana og náðu að jafna leikinn með kraftmiklum varnarleik og var staðan 23-23 þegar sjö mínútur voru eftir. Þá fundu FH-ingar fimmta gírinn og tóku aftur völdin á vellinum, sigruðu að lokum 29-26.

Nú er svo komið að ÍR, í höllinni.

Andstæðingurinn – ÍR

Þjálfari ÍR, Bjarni Fritzson er okkur FH-ingum kunnugur. Hann spilaði í Kaplakrika tímabilið 2009-10 og var markhæsti leikmaður liðsins þann veturinn. Því næst hélt hann norður, bæði til að spila og þjálfa. Árið 2014 lenti hann svo hjá uppeldisfélagi sínu ÍR og hefur verið þar síðan. Liðið féll í fyrstu deild árið 2016 en stoppaði stutt við þar og skoppaði beint aftur upp í deild þeirra bestu.

FH og ÍR hafa mæst tvisvar í vetur. Fyrri leikurinn var í Breiðholti og unnu FH-ingar tveggja marka sigur. Leikurinn sá var í járnum allan tímann, en sú varð ekki raunin þegar liðin mættust í Krikanum fyrir tveimur vikum. Okkar menn höfðu þá forystu mest allan leikinn. ÍR-ingar hótuðu að gera leikinn spennandi í lokin, en okkar menn settu þá í sama gír og á móti Aftureldingu og unnu fjögurra marka sigur. Fyllilega sanngjarnt.

Jóhann Birgir átti frábæran leik þegar liðin mættust síðast / Mynd: Jói Long

Á pappír eru ÍR-ingar með virkilega flott lið. Það skal enginn FH-ingur halda að þetta verði létt þrátt fyrir nýlegan sigur á ÍR – í bikarkeppni gilda einfaldlega aðrar reglur, önnur lögmál. Leið Breiðhyltinga í undanúrslit bikarsins lá í gegnum Vestmannaeyjar, tvisvar. Í sextán liða úrslitum slógu þeir út ÍBV2, áður en þeir drógust á móti ríkjandi bikarmeisturum ÍBV í átta liða úrslitum.

ÍR gerði sér lítið fyrir og slógu aðallið Eyjamanna, sjálfa bikarmeistarana, úr keppni. Og það á útivelli. Breiðhyltingar lögðu grunn að sigrinum með sturluðum fyrri hálfleik, staðan eftir hann var 18-10. Eyjamenn börðust eins og ljón, jöfnuðu að lokum 29-29. En eftir æsispennandi lokamínútur stóðu ÍR-ingar uppi með farmiða í undanúrslit.

Það er búið að vera hálfgert bras á ÍR-ingum í vetur, mikið um leiðinda minniháttar meiðsli og þeir hafa svo gott sem aldrei náð að tefla fram sínu sterkasta liði. Það að þeir séu í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni Íslandsmótsins gefur bara engan veginn rétta mynd af því sem þeir geta gert á góðum degi – þeir gætu verið ofar, og það léttilega. Þetta eru undanúrslit bikarsins, menn munu harka allt af sér, og jafnvel spila fótbrotnir ef þess þarf. Þar að auki verður hálft Breiðholt í stúkunni. Ef bláklæddir Breiðhyltingar ná takti í leik sinn verður martröð að eiga við þá.

Að lokum

Það er allt, allt, allt of langt síðan við FH-ingar unnum þessa dollu. Fyrsta skrefið til að ná í hana er að sigra ÍR-inga, svo hugsum við um laugardaginn. Þeir eru með flott lið, við erum með enn flottara. Þeir verða með geggjaðan stúku en þá er það á okkur, kæru FH-ingar, að tryggja að okkar verði betri. Ég hvet ykkur jafnframt til að kaupa miðann ykkar hér á þessari slóð, eða í Krikanum á auglýstum miðasölutímum, til þess að ágóði sölunnar renni inn í okkar fallega félag. Þessi leikur verður barátta fram á síðustu mínútu, mætum í hvítu með vel upphitaðar raddir og breytum höllinni í Kaplakrika, öskrum, syngjum og hvetjum okkar menn í blíðu og stríðu. KOMA SVO!

VIÐ ERUM FH!
-Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir