Upphitun: FH – ÍR, Grill 66 deild kvenna, laugardaginn 17. nóvember kl. 16:00

8 leikir í deild, 8 sigrar. 256 mörk skoruð, eða 32 mörk í leik. Að meðaltali vinna þær sína leiki á þessu tímabili með 10 marka mun. Já, ÍR er svo sannarlega liðið til að vinna. Breiðhyltingar hafa verið allt að því óstöðvandi til þessa, allir leikir liðsins hafa endað með sigri…nema einn.

Stelpurnar okkar hafa, ólíkt öðrum liðum, lagt sterkt lið ÍR að velli í vetur. Ekki eru nema tvær vikur síðan það var, og þá á vettvangi bikarkeppninnar. Þær virðast því kunna, öðrum fremur, uppskriftina að hinum ilmandi sigurpottrétti. Það liggur hins vegar í augum uppi að ÍR-liðið á harma að hefna, og verður vart í nokkru skapi fyrir laugardagskássu. Þetta verður, með öðrum orðum, drulluerfitt.

Lið ÍR er vel skipað vaskri sveit leikmanna, sem í bland er uppalin hjá félaginu eða aðfengin (líkt og vissulega er tilhneigingin í handknattleik dagsins í dag). Fjórar þeirra sem með liðinu leika eru raunar að snúa aftur á sinn gamla heimavöll. Markvörðurinn Sólveig Katla Magnúsdóttir, sem leikið hefur 3 leiki með ÍR-liðinu í vetur, er t.a.m. uppalin í Fimleikafélaginu, en þær Hildur Marín Andrésdóttir (2 leikir, 7 mörk) og Laufey Lára Höskuldsdóttir (4 leikir, 10 mörk) hafa átt viðkomu í Krikanum á leið sinni frá Akureyri upp í Breiðholt. Sú síðastnefnda átti 9 leiki í deild með FH-liðinu á síðasta keppnistímabili. Þá lék Sara Kristjánsdóttir einnig með FH á sínum tíma.

Að öðrum ólöstuðum er Karen Tinna Demian, sem leikið hefur með U-20 ára landsliði Íslands á þessu ári, besti leikmaður þessa ÍR-liðs. Hún tekur mikið til sín, er með 7 mörk að meðaltali í leik og þarf því að spila vel á hana eigi sigur að nást á morgun. Það er hins vegar ekki svo einfalt að það að stoppa hana dugi til, eitt og sér. Silja Ísberg (6,14 mörk að meðaltali) og Sara Kristjánsdóttir (5,13 mörk að meðaltali) geta sömuleiðis tekið af skarið, til að mynda. Silja var fjarri góðu gamni þegar liðin mættust síðast, og þar af leiðandi þarf að taka tillit til hennar þegar varnaruppleggið er sett.

Laufey Lára lék með FH-liðinu áður en hún gekk til liðs við ÍR / Mynd: Jónas Árna

Hvað þarf til að leggja lið ÍR að velli? Það eru engin geimvísindi. Sterka vörn, markvörslu, hraðaupphlaup, skynsemi í uppstilltum sóknarleik. Sama gamla góða tuggan. Það skemmir ekki fyrir að hafa stáltaugar, líkt og stelpurnar okkar sýndu síðast. Leikur sem þessi gæti orðið jafn og ráðist á lokametrunum, þá skipta taugarnar meira máli en flest annað.

Við verðum hins vegar að komast að þeim lokakafla til að byrja með. Stelpurnar hafa í vetur sýnt á löngum köflum, hversu góðar þær eru, en leikurinn gegn Val U sýndi okkur einnig að það er stutt í skítinn ef ekki er allt upp á 10. Sigurleikurinn gegn Víkingi á mánudag hefur vonandi hjálpað til við að skilja Valsleikinn eftir í baksýnisspeglinum.

Stelpurnar í lok leiks FH og ÍR í Breiðholti fyrir tveimur helgum síðan. Meira svona, takk! / Mynd: Brynja T.

Vonandi sjáum við hina allra bestu útgáfu FH-liðsins á fjölum Mekka á morgun. Varnarleikinn berjandi á Breiðhyltingum af krafti og ástríðu, Ástríði eða Hrafnhildi í banastuði milli stanganna, Emblu stýrandi umferðinni líkt og löggimann, skytturnar skjótandi andstæðingnum á bólakaf og ekki síður skelk í bringu. Við þekkjum þetta, höfum séð þetta allt saman áður. Hver veit, kannski endurtekur sagan sig? Kannski endurtekur Diljá Sig leikinn og lokar honum líkt og síðast. Ég hlakka til að fylgjast með. Hvað með þig?

Kaplakriki á morgun, 17. nóvember, kl. 16:00 að staðartíma. Ekki láta þig vanta í pallana.

Við erum FH!
– Árni Freyr

 

Aðrar fréttir