Upphitun: FH – Selfoss, 4. apríl 2017

Á morgun fer fram síðasti deildarleikur tímabilsins, en þá taka strákarnir okkar á móti Selfossi í Kaplakrika. Sigri FH-ingar leikinn, tryggja þeir sér deildarmeistaratitilinn í ár og því er einstaklega mikið undir að þessu sinni.

FH - Selfoss banner

 

Með frábærum sigri á Ásvöllum í síðasta leik komu FH-ingar sér í þá góðu stöðu sem þeir eru í núna. Sterkur varnarleikur, skynsemi í sókn og mikil baráttugleði urðu til þess að stigin tvö féllu okkur í skaut, og fyrir vikið erum við FH-ingar einir á toppnum með 35 stig, stigi meira en Eyjamenn. Eitt stig í viðbót – helst tvö – og þá er FH deildarmeistari í efstu deild karla í fyrsta sinn í aldarfjórðung.

Lið Selfoss er erfiður andstæðingur við að eiga. Nokkrir af efnilegustu leikmönnum þjóðarinnar leika með Selfossi, og innan um þessa efnilegu leikmenn er að finna reynslumikla leikmenn sem eru á besta aldri. Sunnlendingar hafa þegar tryggt sér sæti sitt í efstu deild á næsta tímabili, en með sigri á Val í síðustu umferð var það í höfn. Verðskuldað, enda hafa Selfyssingar aldrei verið í fallbaráttu fyrir alvöru í vetur.

Markahæsti leikmaður Selfoss í vetur er hinn ungi Elvar Örn Jónsson með 161 mark í 26 leikjum, eða 6.2 mörk í leik að meðaltali. Einar Sverrisson, sem lék með ÍBV um skeið, er með 136 mörk og þá er hinn efnilegi Teitur Örn Einarsson með 126 mörk úr hægri skyttunni.

Selfyssingar hafa gert okkur skráveifu einu sinni í vetur. Fyrri leikur liðanna, sem fram fór í Kaplakrika, var einn slappasti leikur FH-liðsins í vetur. Selfoss vann fjögurra marka sigur, 32-36, en voru sjö mörkum yfir í hálfleik (11-18) og áttu fyllilega skilið að taka öll stigin.

FH-ingar svöruðu hins vegar rækilega fyrir sig í útileiknum á Selfossi, sem fram fór í desember. Þar fóru okkar menn hreinlega á kostum, voru níu mörkum yfir í hálfleik og lönduðu að lokum 11 marka sigri, 24-35.

FH - Grótta mars 2017

Líkt og dæmin sýna eru Selfyssingar með hættulegt lið. Komið var inn á það í skýrslu eftir sigurinn frábæra gegn Haukum, að sterkt lið Sunnlendinga hefur engan áhuga á að vera upphitunaratriði fyrir einhverja bikarhátíð í Krikanum. Þeir eiga 5. sætið að verja, og mæta í Krikann til þess að gera nákvæmlega það. Það mætti jafnvel gera ráð fyrir því, að leikur þessi verði erfiðari heldur en leikurinn gegn Haukum í síðustu viku. Andstæðingurinn er hungraður.

Það er því okkar FH-inga að mæta enn hungraðri til leiks. Í síðasta leik sýndum við FH-ingar, hvort sem var úti á velli eða uppi í stúku, að okkur langaði miklu meira í stigin sem í boði voru heldur en andstæðingurinn. Við vissum hvað þau þýddu, hvaða stöðu þau gætu búið til – þ.e., þá stöðu sem við erum í núna. Það eru níu fingur á bikarnum og við verðum að klára dæmið, öll sem eitt. Strákarnir úti á velli ætla sér ekkert annað en sigur, þeir ætla sér ekkert minna en deildarmeistaratitilinn árið 2017.

ÞETTA er leikurinn sem þú mætir á. ÞETTA er tilefnið, til þess að sleppa fram af sér beislinu, og hvetja strákana áfram af lífs og sálar kröftum. Ef ekki núna, hvenær þá? Grípum tækifærið, kæru FH-ingar. Hirðum þennan titil.

Við erum FH!

Aðrar fréttir