Upphitun: FH – Selfoss, föstudaginn 28. febrúar kl. 19:30 | #roadtoOlís

Höfum eitt á hreinu, allt frá byrjun. Hver einasti leikur skiptir máli. Sumir leikir eru hins vegar stærri heldur en aðrir. Þessi er einn þeirra stærstu, ef ekki sá stærsti, sem stelpurnar okkar spila í vetur. Viðureign tveggja liða, sem eiga í beinni samkeppni við hvert annað á lokasprettinum. Í húfi er sæti í deild þeirra bestu, þar sem allir vilja vera.

Fyrir leik morgundagsins eru FH-stelpur í bílstjórasætinu í þessari baráttu, með 3ja stiga forskot á Selfyssinga sem eru í 3. sæti. Hins vegar eru 8 stig eftir í pottinum, og allt getur því gerst. Hér telur, hver getur stigið upp við tilefnið.

Lið Selfoss hefur átt prýðisgott tímabil það sem af er og unnið 13 leiki í heildina, gert 2 jafntefli en tapað 3 leikjum. Selfyssingar léku í efstu deild á síðustu leiktíð, en féllu nokkuð óvænt þaðan. Við það misstu Sunnlendingar nokkra mikilvæga leikmenn úr liðinu, og ber þá helst að nefna landsliðskonur á borð við Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, Perlu Ruth Albertsdóttir og Kristrúnu Steinþórsdóttur.

Eins og Selfyssinga er hins vegar einkar vel lagið, þá hafa heimastelpur stigið upp til að fylla skörð þeirra. Ein þeirra er yngri systir Hrafnhildar Hönnu, Hulda Dís Þrastardóttir. Hulda, sem er fædd árið 1997, hefur verið afar öflug í liði Selfyssinga á tímabilinu, og er næstmarkahæst þeirra með 108 mörk í 18 leikjum. Markahæst, með 109 mörk í 18 leikjum, er Katla María Magnúsdóttir (f. 2001).

Ragnheiður var markahæst FH-inga, síðast þegar liðin mættust. Hún framlengdi samning sinn við félagið í vikunni, sem er mikið gleðiefni enda frábær leikmaður / Mynd: Brynja T.

Liðin hafa fylgst gríðarlega þétt að í allan vetur, og hefur aldrei verið meiri en 3ja stiga munur á þeim frá upphafi. Það var því e.t.v. vel við hæfi, að fyrri leikur liðanna á tímabilinu skuli hafa endað með jafntefli. FH-stelpur byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og voru komnar með 6 marka forskot (4-10) þegar fyrri hálfleikur var um það bil hálfnaður. Þá dofnaði hins vegar allverulega yfir þeim, á sama tíma og Selfyssingar settu í næsta gír. Fór svo að staðan í hálfleik var 11-10, Selfossi í vil. Ótrúlegar sveiflur.

Heimakonur héldu frumkvæðinu framan af síðari hálfleik, og voru með fjögurra marka forskot (17-13) þegar mest var, um hálfleikinn miðjan. Þá vaknaði FH-liðið hins vegar á nýjan leik, og var búið að jafna metin og komast yfir (17-18) þegar 7 mínútur voru til leiksloka. Eftir það var hins vegar bara eitt mark skorað, og það var Selfyssinga, en þær fengu víti þegar mínúta var til leiksloka sem Hulda Dís skoraði úr. 18-18 lokaniðurstaðan í ótrúlegum handboltaleik.

Stelpurnar okkar hafa verið á flottu róli upp á síðkastið. Um síðustu helgi sigruðu þær HK U ansi sannfærandi – nánar tiltekið með 16 marka mun, 19-35. Enn einn stórsigurinn. Það er gott að geta tekið þessa spilamennsku með inn í leikinn, sem fram fer annað kvöld. Að hafa trú á sjálfum sér er nauðsynlegt þegar stór verkefni sem þessi eru fyrir höndum, og hana ættu stelpurnar svo sannarlega að hafa. Þær eiga ríkulega innistæðu fyrir því.

Stöndum með stelpunum okkar!

Ef við sem félag viljum sjá okkar lið í efstu deild í haust, þá verðum við að sýna það í verki. Með sigri eykst munurinn á liðunum í 5 stig, og við færumst skrefi nær þessu markmiði. Stelpurnar munu gera allt sitt, en það þurfum við að gera líka. Verum ekki áhorfendur, heldur stuðningsmenn.

Berjumst með stelpunum annað kvöld. Lyftum liðinu, og félaginu, þangað sem það á heima.

#roadtoOlís

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir